Taíland stefnir á 1. október

Taílenska eyjan Phuket er vinsæll áfangastaður ferðamanna.
Taílenska eyjan Phuket er vinsæll áfangastaður ferðamanna. AFP

Ferðamannaiðnaðurinn í Phuket í Taílandi stefnir á að geta boðið ferðamenn velkomna, án mikilla takmarkana, 1. október á þessu ári. Ferðamennska er aðalatvinnugreinin á svæðinu enda eyjan einn vinsælasti ferðamannastaðurinn í Taílandi.

Viðskiptaráð Phuket og Samtök fyrirtækja í ferðaiðnaði á Phuket stefna á að safna peningum til þess að geta bólusett 70% íbúa eyjunnar yfir 18 ára. Vonast er til að með því verði öruggt að opna fyrir erlendum ferðamönnum ef tekst að ná hjarðónæmi á eyjunni. 

Áætlunin er þó háð samþykki stjórnvalda en samtökin á Phuket vilja að það verði ekki skylda að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna til eyjunnar. Slíkar kröfur hafi fælingarmátt á ferðamenn. 

931 fyrirtæki í ferðamennsku í Taílandi hefur lagt upp laupana síðan í mars 2020. 

„Við getum ekki beðið lengur. Ef við þurfum að bíða munum við ekki lifa af,“ sagði Bhummikitti Ruktaengam, forseti samtaka fyrirtækja í ferðaiðnaði. 

Með peningunum sem safnast er stefnt að því að flytja inn bóluefni frá einkaaðilum, mögulega kínverska lyfjafyrirtækinu Sinovac Biotech Ltd. en gert er ráð fyrir að bóluefnið verði samþykkt af taílenskum stjórnvöldum í febrúar. 

Bloomberg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert