„Væri til í að ferðast meira um Evrópu“

Auður Eva Ásberg segir list og menningu að finna víða …
Auður Eva Ásberg segir list og menningu að finna víða um landið.

„Ég myndi segja að árið 2020 hafi verið mjög lærdómsríkt ár, það voru oft og tíðum erfiðir sprettir en árið var einnig mjög þroskandi. Mín reynsla er að öllum þroska fylgja vaxtarverkir og ef maður fer með fulla ábyrgð og meðvitund í gegnum hlutina þá geta þeir einungis stækkað mann sem manneskju. Það má eiginlega segja að það slæma við síðastliðið ár hafi verið þessi vanmáttur sem maður fann fyrir. Til dæmis að geta ekki farið og hitt vini sína, gefið þeim sem manni þykir vænt um almennilegt knús, ekki farið í leikhús eða tónleika eða bara það að hitta mömmuklúbbinn sinn í „búbblur“, sem flokkast reyndar kannski sem „lúxusvandamál“ en þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það þessir hlutir sem gefa lífinu gildi,“ segir Auður Eva Ásberg, snyrtifræðingur og fjölmiðlakona. 

Auður Eva Ásberg segir að hún hafi lært margt nýtt …
Auður Eva Ásberg segir að hún hafi lært margt nýtt á síðasta ári.

Vetrarfjallamennska ofarlega í huga

Auður Eva segist hafa lært mun betur að meta það sem nærumhverfið hefur upp á að bjóða.

„Ég á góða fjölskyldu og vini. Mér fannst ég hafa náð að hlúa mun betur að mínum innsta hring og við áttum dásamlegar stundir á ferð um Ísland síðastliðið sumar. Þá tókum við
hjónin ákvörðun um að skrá okkur á námskeið í vetrarfjallamennsku sem byrjaði eftir áramótin. Þannig að árið byrjaði mjög vel hjá okkur og það má klárlega segja að eitt af markmiðum fyrir þetta ár sé að stunda meiri útivist. Annað af mínum aðalmarkmiðum fyrir þetta ár er að gefast ekki upp þótt móti blási, þú færð kannski 7 nei á móti einu já-i. Hætta öllum samanburði við annað fólk og gefa mér meira svigrúm til að prófa mig áfram. En það er vissulega betra að hafa reynt og mistekist en alls ekki hafa reynt.“

Auður hefur endalausan áhuga á fólki, fallegum fatnaði og menningu.
„Þessa dagana er ég að á fullu í alls konar verkefnum. Ég er að vinna efni fyrir nýja vefinn minn innlit.is sem ég opnaði í desember síðastliðnum, en á þeim vef má finna viðtöl við skemmtilegt skapandi fólk og frumkvöðla og umfjallanir um listsýningar og menningu.“

Vetrarfjallamennskan hefur heillað að undanförnu.
Vetrarfjallamennskan hefur heillað að undanförnu.

Bændur eru líka skapandi

Hún segir skapandi fólk og frumkvöðla víða í samfélaginu.

„Bændur eru gott dæmi um aðila sem hafa farið í nýsköpun og bjóða ferðamönnum upp á íslenskt hráefni beint frá býli, alls konar afþreyingu og gistingu í fallega hönnuðum hótelum. Svo er fullt af fólki sem er að skapa fallega list og hönnun um land allt. Það má eiginlega segja að þörfin fyrir að vera innan um annað fólk verður sjaldan sterkari en þegar okkur eru settar takmarkanir í samskiptum. Það er því mikilvægara sem aldrei fyrr að til sé vettvangur
til að miðla allri þeirri ótrúlegu grósku í list- og nýsköpun sem er að finna á Íslandi. Listafólki þarf einnig að gera betri skil, það er staðreynd.“

Auður Eva segir mikilvægt að vera jákvæð fyrir komandi mánuðum.

„Nú þegar daginn er farið að lengja finnst mér mikilvægt að nýta stundirnar í dagsbirtunni fyrir eitthvað uppbyggjandi. Svo er ég líka yfir mig hrifin af þessari vitundarvakningu sem hefur orðið um góða heilsu. Fólk er að stunda alls konar uppbyggilega hreyfingu til að halda sér í góðu andlegu og líkamlegu formi.

Ég get kannski ekki sagt að ég sakni þess að ferðast því ég hef svo sem ekki gert mikið af því síðastliðin ár. Bæði út af þeirri staðreynd að ég hef verið með ung börn og svo hef ég  hreinlega ekki haft „nennuna“ í mikið af löngum ferðalögum sem krefjast þess að sitja í flugvél klukkutímum saman og einnig þá höfum við verið í endalausum framkvæmdum. En það má eiginlega segja að við höfum verið í stanslausum framkvæmdum síðan árið 2017.

Fjölskyldan á ferðalagi um landið.
Fjölskyldan á ferðalagi um landið.

Við tókum alveg meðvitaða ákvörðun um það að eyða frekar peningunum í það að gera heimilið okkar eins og við viljum hafa það í staðinn fyrir utanlandsferðir, enda erum við
svo miklir fagurkerar að annað kom ekki til greina. Utanlandsferðir koma bara seinna. Þá verða líka yngstu börnin orðin það gömul að þau njóta ferðarinnar betur. Það eru margir staðir sem mig langar að skoða og upplifa ólíka menningu mismunandi landa. Ég væri til í að ferðast meira um Evrópu, fara til Ítalíu eða Suður-Frakklands, skoða vínekrur og drekka í
mig mismunandi evrópska menningu. Rómantískar barnlausar helgarferðir eru einnig heillandi þar sem er hægt að haga sér eins og „bóhem“, skoða áhugaverð söfn og borða góðan mat.“

Náttúran á Íslandi heillar Auði Evu.
Náttúran á Íslandi heillar Auði Evu.
Það er hægt að gera ýmislegt spennandi tengt afþreyingu á …
Það er hægt að gera ýmislegt spennandi tengt afþreyingu á Íslandi.
Auður Eva að njóta sín í náttúrunni.
Auður Eva að njóta sín í náttúrunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert