Áhugi erlendra fjölmiðla á Íslandi er mjög mikill. Þetta má lesa úr tölum sem Íslandsstofa hefur tekið saman um fjölda umfjallana sem birtust í erlendum fjölmiðlum í tengslum við verkefni hennar á árinu 2020.
Alls birtust rúmlega 1.800 greinar og fréttir um Ísland sem áttu uppruna sinn í samskiptum Íslandsstofu við fjölmiðla eða fjölluðu um verkefni á hennar vegum á síðasta ári.
Umfjallanirnar náðu til um 750 milljón neytenda á helstu mörkuðum og er virði umfjallanna gróflega metið á um 5,5 milljarða ef miðað er við meðaltalsverð við kostnað á birtingu.
Heimsfaraldurinn vegna Covid-19 gerði það að verkum að samskipti Íslandsstofu við erlenda fjölmiðla hafa verið með óhefðbundnum hætti. Ýmsar áskoranir hefur þurft að yfirstíga til að koma Íslandi á framfæri á undanförnum mánuðum.
Síðastliðið sumar var Ísland í kastljósinu fyrir góðan árangur í baráttunni gegn kórónuveirunni og vann Íslandsstofa náið með utanríkisráðuneytinu við að svara fyrirspurnum áhugasamra fjölmiðla. Fyrsti hluti markaðsherferðarinnar Saman í sókn hófst svo í júlí og skilaði hún um 1.000 umfjöllunum um Ísland og herferðina.
Allt árið var einnig unnið markvisst að því minna á Ísland á helstu viðskiptamörkuðum og tryggði það rúmlega 800 umfjallanir til viðbótar í fjölmiðlum. Flestar voru í Bandaríkjunum, næst flestar voru í Þýskalandi, því næst í Bretlandi og loks í Frakklandi
Þessi árangur er afrakstur samstarfs Íslandsstofu, erlendra almannatengslaskrifstofa, markaðsstofa landshlutanna, Höfuðborgarstofu og fleiri aðila sem vinna við að koma Íslandi og íslenskum fyrirtækjum á framfæri.