Hanna Ágústsdóttir er 24 ára gamall sálfræðinemi, næringarþjálfari og leikskólaleiðbeinandi. Hanna er með bullandi ferðabakteríu og elskar að kynnast nýrri menningu erlendis. Hún hefur alltaf ferðast mikið innanlands og stefnir á að ferðast innanlands árið 2021 eins og árið 2020.
„Ég er haldin mikilli ferðaþrá og á það til að finna fyrir þeirri tilfinningu að Ísland sé of lítið land fyrir mig. Það að fá að ferðast um heiminn er magnað tækifæri sem ég myndi hvetja alla til að gera á einhverjum tímapunkti í lífinu. Að upplifa eitthvað nýtt á hverjum degi, upplifa nýja menningarheima og kynnast ólíku fólki veitti mér innsýn inn í það hversu heppin maður er að hafa alist upp á Íslandi. Það kenndi mér líka að það er ekki allt sjálfsagt í lífinu,“ segir Hanna um ferðaáhugann.
„Ég átti það til sem unglingur að horfa á troðfullan fataskáp og segja við mömmu að ég ætti sko ekkert til að fara í, svo ferðaðist ég um Asíu í þrjá mánuði og hef ekki sagt þessa setningu síðan og mun eflaust ekki koma til með að gera það. Ferðalögin hafa einnig kennt mér að setja mig betur í spor annarra og aukið traust mitt á öðrum. Heimurinn er nefnilega ekki alveg eins og hann birtist okkur í fjölmiðlum, af því að þar sjáum við og heyrum oftast allt það neikvæða um ákveðin lönd. Ég ákvað til að mynda að ferðast ein til sunnanverðrar Afríku árið 2019 og voru margir í kringum mig næstum því búnir að ákveða að það væri ekki séns að ég kæmi heil heim aftur. Ef að maður kynnir sér vel aðstæður í þeim löndum sem maður ferðast til og er með öryggisatriði á hreinu á meðan ferðalaginu stendur að þá eru flest lönd ekkert hættulegri en önnur.“
Þrátt fyrir að vera með sterka útþrá er áhugi Hönnu á Íslandi líka mikill. Hún segir fátt betra en að anda að sér íslenska loftinu þegar maður hefur sigrað einhverja tinda eða kemst á leiðarenda eftir góða fjórhjólaferð.
„Ég ólst upp við það að ferðast innanlands með fjölskyldunni minni, yfirleitt með tjaldvagn í eftirdragi og hef því komið á langflesta staði á Íslandi. Sem barn upplifði ég flest sumur þannig að við vorum í útilegu í þrjá til níu daga í einu, komum við heima í nokkra daga til að þvo þvott og svo vorum við farin í ferðalag aftur. Ég á afmæli að sumri til og man eftir mörgum afmælisveislum sem voru haldnar í tjaldvagninum, uppi í sumarbústað eða annars staðar á ferðalagi. Áhugi minn á útivist og ferðalögum almennt kviknaði á þessum tíma og hefur orðið töluvert meiri með árunum.
Ég fór til að mynda til útlanda í fyrsta skipti 14 ára gömul en hafði þá farið um 20 sinnum hringinn í kringum Ísland sem mér fannst vera meira afrek á þeim tíma. Síðustu ár hef ég verið að ferðast meira erlendis en út af „svolitlu“ lagði ég mikla áherslu á að prófa eitthvað nýtt innanlands í fyrra og nýta tímann vel, sérstaklega sumarið.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Ísland?
„Skagafjörður er ansi ofarlega á þeim lista en ég bjó þar í nokkur ár á meðan ég var í framhaldsskóla. Þrátt fyrir að vera fædd og uppalin í Reykjavík fílaði ég það mjög vel að eiga heima í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla og þar sem náttúran er allt um kring. Ég er meiri sveitastelpa en borgarbarn svo ég passaði ágætlega þarna inn. Ég veit alla vega fátt betra en að upplifa það að vera stödd einhvers staðar úti á túni, í kyrrð og ró og óbrotna náttúrufegurð á borð við Drangey eða Glóðafeyki.“
Fórstu í einhverjar ævintýraferðir innanlands í fyrra?
„Ég var mjög dugleg að fara í fjallgöngur og setti mér það markmið að fara að minnsta kosti á fimm ný fjöll, sem stóðst og gott betur en það. Ég ferðaðist meðal annars um Vesturland og skellti mér á kajak í Breiðafirðinum, ferðaðist um Austurland og skoðaði meðal annars Stuðlagil eins og allir hinir Íslendingarnir. Systir mín rekur hótel á Hallormsstað, það er skyldustopp öll sumur enda fátt sem er í líkingu við kyrrðina í skóginum. Það sem stendur upp úr er dagsferð upp á Sólheimajökul og að snorkla í Silfru á Þingvöllum. Ferðin í Silfru var mögnuð upplifun og ég get eiginlega ekki lýst henni betur en að það opnist einhver annar heimur fyrir manni þegar maður stingur andlitinu ofan í vatnið. Það er svo margt að sjá þarna og allir litirnir alveg ótrúlega fallegir.
Ég býst við því að þetta ár verði svipað og í fyrra hvað varðar ferðalög og hef ég því bara planað næstu ferðalög hérna innanlands. Efst á listanum hjá mér er að labba Laugaveginn og fara á Hvannadalshnjúk og ég býst við því að geta krossað það af listanum í sumar.“
Hanna er með hugann við námið á veturna en lætur það þó ekki koma í veg fyrir útivist. Hún er dugleg að ganga á fjöll þó snjór sé kominn í fjöllin. „Ég fór til að mynda í fjallgöngu um Hengilssvæðið um daginn með vinkonu minni sem var ótrúlega gaman. Það var allt á kafi snjó og skyggnið breyttist á hálftíma fresti sem var pínu krefjandi en mjög gaman samt sem áður. Við erum búin að vera ótrúlega heppin með veðrið í vetur svo að ég hef nýtt tímann í að fara út að hjóla þegar það er ekki hálka og stefni svo á að vera duglegri en ég hef verið að fara í Bláfjöll á skíði og snjóbretti.“
Erlendis er Namibía í miklu uppáhaldi hjá Hönnu. „Af öllum þeim stöðum sem ég hef komið á verð ég að segja að Namibía í sunnanverðri Afríku standi upp úr. Ég get vel trúað því að það hljómi furðulega en þetta land býður upp á magnaða upplifun, allt frá því að sofna undir stjörnubjörtum himni í eyðimörkinni, gista í tjaldi á ótrúlega fallegum tjaldsvæðum, labba sandfjöll, synda í ám og horfa á sólsetrið við Fish River Canyons að því að leyfa adrenalíninu að njóta sín með því að fara meðal annars í fallhlífastökk og á svokallað sandbretti. Svo skemmir ekki fyrir að landslagið þarna er engu líkt.“
Draumur Hönnu um að starfa sem flugfreyja rættist árið 2018 þegar hún hóf störf hjá WOW. Á tíma hennar hjá WOW ferðaðist töluvert erlendis.
„Þetta var ótrúlega skemmtilegt og gefandi starf en gat líka verið ansi krefjandi. Það sem stóð upp úr á þessum tíma var klárlega það að kynnast öllu frábæra fólkinu sem ég vann með og eignast nýja vini í hverju einasta flugi. Oft voru dagarnir þannig að maður mætti og kynnti sig fyrir áhöfninni sem maður hafði aldrei séð áður en eftir aðeins nokkra klukkutíma var eins og maður hefði alltaf þekkt þau. Það skemmdi ekki fyrir að maður gat upplifað ný lönd og nýjar borgir nokkrum sinnum í hverjum mánuði. Oft hef ég fengið spurninguna um það hvort að þetta hafði í alvöru verið eins gaman og það leit út fyrir og ég ætla ekkert að skafa af því að þetta var í alvöru það gaman og meira að segja aðeins skemmtilegra en það. Ég sakna þessa tíma mikið og væri sennilega enn þá að vinna þar ef sá möguleiki væri fyrir hendi.“
Hvert dreymir þig um að fara þegar óhætt er að ferðast erlendis aftur?
„Draumurinn er að fara til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Leigja húsbíl í nokkrar vikur og keyra frá Cairns til Melbourne, læra meðal annars á brimbretti og snorkla í Great Barrier Reef. Fljúga svo yfir til Nýja-Sjálands og ferðast eitthvað um þar líka. Hvenær sem að þetta verður er góð spurning en ég held áfram að láta mig dreyma.“