Töfrar Mosfellsheiðarleiðar

Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi á suðvesturhorni landsins. Má með nokkurri einföldun segja að Þingvallavegur og Suðurlandsvegur rammi heiðina inn að norðan- og sunnanverðu, hún nái að íbúðarbyggð í Mosfellsbæ að vestanverðu og langleiðina að Þingvallavatni í austri.

Heiðin er innan lögsögumarka sex sveitarfélaga. Þau eru Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Sveitarfélagið Ölfus og Kópavogsbær. Eignarhaldið er ýmist á hendi sveitarfélaganna sjálfra eða einstakra bújarða en nafn heiðarinnar vísar til prestssetursins á Mosfelli í Mosfellsdal sem átti vesturhluta heiðarinnar til ársins 1933 þegar íslenska ríkið festi kaup á þeim hluta. Mosfellsheiði rís hæst 410 m y.s. í Borgarhólum sem eru kulnuð eldstöð. Eldvirkni hefur verið víðar á háheiðinni enda er hún að stórum hluta þakin grónum hraunum. Víðfeðmir melar og móar, grashvammar og tjarnir setja einnig sterkan svip á náttúru heiðarinnar.

Fyrir tveimur árum kom út gönguleiðaritið Mosfellsheiðarleiðir sem Ferðafélag Íslands gaf út. Í ritinu eru lýsingar á samtals 23 leiðum. Tólf þeirra eru gamlar þjóðleiðir, sex hringleiðir og fimm línuvegir.

Höfundarnir Bjarki Bjarnason, Jón Svanþórsson og Margrét Sveinbjörnsdóttir eru öll þaulkunnug heiðinni og hafa gengið hana þvera og endilanga á undanförnum árum.

Nokkrir lykilstaðir eru á Mosfellsheiði og frá þeim liggja síðan áhugaverðar gönguleiðir.

Bringur

Ekið er austur Mosfellsdal í átt til Þingvalla. Beygt er til hægri af Þingvallavegi ofan við Gljúfrastein og síðan farið eftir allgrófum malarvegi um 900 metra leið að eyðijörðinni Bringum, þar sem hægt er að leggja bílum. Náttúrufegurð er mikil í Bringum, útsýni til hafs og mannvistarleifar frá þeim tíma þegar búseta var þar.

Náttúran og sagan voru aðalástæður þess að hluti af Bringnajörðinni var gerður að fólkvangi árið 2014. Hægt er að ganga hringleið um fólkvanginn eftir göngustíg sem liggur frá bílastæðinu, fyrst niður að Köldukvísl, þar sem getur að líta tóftir Helgusels, síðan upp með ánni að Helgufossi og loks í norðurátt að bæjarrústum ofarlega í túninu og til baka á bílastæðið. Sú ganga tekur um 40 mínútur. Þeir sem kjósa lengri ferðir geta valið um sjö leiðir sem eiga upphaf sitt hér.

Skeggjastaðir

Leiðin að Skeggjastöðum liggur til norðurs af Þingvallavegi efst í Mosfellsdal, á móts við bæinn Seljabrekku. Eftir að hafa ekið 2,2 km í norðurátt komum við að Skeggjastöðum sem var landnámsjörðin í Mosfellssveit eins og fram kemur í Landnámu: „Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeira. Hana átti Ketilbjörn inn gamli. Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.“ Með þennan fróðleiksmola úr Landnámu í veganesti hefjum við för okkar um Stardalsleið.

Vilborgarkelda

Vilborgarkelda, oft kölluð Keldan, er blautlent og grasi gróið landsvæði í 220 metra hæð yfir sjávarmáli, austarlega á Mosfellsheiði. Þeir sem hyggjast fara þangað og koma akandi yfir Mosfellsheiði eftir Þingvallavegi beygja til hægri inn á Grafningsveg og síðan fljótlega aftur til hægri við Gíslhól, á móts við gámasvæði sem þar er. Þá erum við komin á Þingvallaveginn frá árinu 1930 sem liggur hér ofan á Gamla Þingvallaveginum frá 1896. Farið er um Harðavöll, Ferðamannahorn og Þorgerðarflöt. Eftir 2,8 km akstur komum við í Vilborgarkeldu.

Draugatjörn

Leiðin að Draugatjörn liggur frá Suðurlandsvegi fyrst í áttina að Hellisheiðarvirkjun, fram hjá stöðvarhúsinu og síðan til vinstri, inn á gamla þjóðveginn sem lagður var frá Reykjavík og austur yfir Hellisheiði á árunum 1876-1878 og var þjóðbrautin austur fyrir Fjall til ársins 1958.

Á mótum nýja og gamla vegarins er við hæfi að staldra við og horfa heim að Kolviðarhóli og jafnvel að aka þangað um leið og við rifjum upp þá tíma þegar staðurinn var í alfaraleið og gestkvæmt var á Hólnum. Grasi gróin veggjabrot minna á blómlegt mannlíf og merka sögu á horfinni öld og skammt frá bæjarhólnum má sjá stóran, stakan klett. Þetta er Búasteinn, nefndur eftir Búa Andríðssyni í Kjalnesingasögu en samkvæmt henni banaði hann Kolfinni og mönnum hans á þessum slóðum.

Eftir þennan krók á vit sögunnar ökum við stuttan spöl eftir veginum í vesturátt, fram hjá Húsmúlarétt sem var byggð árið 1967 og endurbyggð 2006. Loks er beygt til hægri á vegamótum og fljótlega komum við að læstu hliði á veginum. Þar leggjum við bílnum.

Lyklafell

Við Lyklafell á sunnanverðri Mosfellsheiði eru hreppamörk, sýslumörk og vegamót margra leiða sem áður voru fjölfarnar. Lyklafell var því sannkallaður lykilstaður og gæti það verið skýring á nafninu, þótt þjóðsögur hafi tengt það við lykla Skálholtsstaðar. Sunnan við fellið eru Vatnavellir við Fóelluvötn sem voru algengur náttstaður ferðamanna á fyrri tíð.

Hægt er að aka í áttina að Lyklafelli eftir vegi sem liggur með fram Búrfellslínu 3. Beygt er af Suðurlandsvegi til norðurs inn á línuveginn en vegna aðgreiningar akstursleiða á Suðurlandsvegi er aðeins hægt að aka inn á hann þegar komið er úr austri. Þeir sem eru á austurleið þurfa því að aka að Bláfjallavegi, snúa þar við og aka til baka smáspöl í áttina að Reykjavík þar til beygt er til hægri inn á línuveginn. Hafa skal allan varann á, því að þarna þrengist þjóðvegurinn í eina akrein í hvora átt og þar er engin vegöxl.

Línuvegurinn liggur norður yfir Fossvallaá um Vatnahæð að vegamótum við dælustöð. Þar er beygt til hægri og ekið í áttina að fjallinu eftir vegi sem lagður var vegna lagningar á heitavatnsleiðslu. Þegar við komum að öðrum vegamótum beygjum við til vinstri inn á línuveg og komum fljótlega á stórt plan þar sem gott er að leggja bílum.

Elliðakot

Elliðakot er fornt býli í sunnanverðri Mosfellssveit. Það hét fyrst Hellar og síðan Helliskot fram á síðari hluta 19. aldar. Bærinn fór í eyði um miðja síðustu öld en fyrrum var Elliðakot þekktur áningarstaður ferðamanna af Suðurlandi sem gistu þar gjarnan áður en þeir lögðu í síðasta áfangann til Reykjavíkur. Þeir sem koma akandi úr Reykjavík og hyggjast fara að Elliðakoti beygja af Suðurlandsvegi (nr. 1) til vinstri skammt austan við býlið Gunnarshólma. Við vegamótin er skilti með bæjarnafninu Elliðakot. Ekið er yfir brú á Hólmsá og gegnum sumarhúsahverfi og þá komum við fljótlega að rústum Elliðakots þar sem við leggjum bílnum og höldum af stað, gangandi eða ríðandi.

Djúpidalur

Stysta leiðin frá Reykjavík í Djúpadal liggur um Suðurlandsveg og síðan er beygt inn á Hafravatnsveg. Eftir 4,6 km akstur eftir þeim vegi er komið að gatnamótum. Á vinstri hönd liggur vegur að Hafravatni en við höldum áfram inn á Nesjavallaleið. Okkur ber fljótlega upp á Rjúpnaás þar sem við beygjum til hægri inn á sumarbústaðaveg og leggjum bílnum þar á litlu stæði. Hér blasir Djúpidalur við okkur en hann var fyrrum vinsæll áningarstaður hestamanna. Þar var haldin mikil veisla til heiðurs Friðriki VIII. konungi og föruneyti hans þegar hann ferðaðist til Þingvalla sumarið 1907.

Seljadalur

Til að komast að lykilstaðnum Seljadal er beygt af Hafravatnsvegi inn á veg sem liggur að bænum Þormóðsdal. Á hægri hönd niðar Seljadalsá en snemma á 20. öld var grafið eftir gulli við ána með litlum árangri. Leið okkar liggur fram hjá Þormóðsdal og áfram að stórri grjótnámu þar sem unnið hefur verið efni í malbik. Þar beygjum við til hægri og komum fljótlega á malarplan sem er ágætt bíla stæði. Þar tökum við fram gönguskóna, fjallahjólið eða leggjum hnakk á hest.

Heimildir: www.fi.is

Mosfellsheiðarleiðir, 2019,

Ferðafélag Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert