Köttur Cristianos Ronaldos og Georginu Rodriguez varð fyrir bíl nýlega á Ítalíu og var á gjörgæslu um tíma. Nú hefur kötturinn braggast og er að jafna sig á Spáni hjá mágkonu Ronaldos. Kötturinn fór með einkaþotu til Spánar.
Kötturinn, sem er hárlaus, heitir Pepe eftir fyrrverandi liðsfélaga Ronaldos í Real Madrid. Kötturinn hefur verið í fjölskyldunni í rúm tvö ár og þekkja aðdáendur knattspyrnukappans hann vel af veru hans á samfélagsmiðlum. Flugferðin er ekki fyrsta einkaþotuferð Pepes en hann er alvanur lúxusferðalögum fjölskyldunnar og einkaþotunni sem Ronaldo á.
„Hann flúði að heiman og varð fyrir bíl,“ sagði Rodriguez í viðtali við spænskt tímarit að því er fram kemur á vef The Sun. „Hann var nær dauða en lífi og eftir einn og hálfan mánuð á gjörgæslu hjá dýralækninum höfum við ákveðið að Ivana systir mín hugsi um hann. Pepe er nú að jafna sig á Spáni.“
Rodriguez á þriggja ára dóttur með Ronaldo og sinnir auk þess þremur öðrum börnum hans. „Þau yngstu áttuðu sig ekki á því að hann væri veikur og vildu leika við hann. Nú er hann í góðum höndum.“