Einar L. Ragnarsson sá um innkaup á málningu og múrvörum ásamt verkfærum þar að lútandi í rúmlega 20 ár hjá Húsasmiðjunni. Sumarið 2019 fór hann í afdrifaríkt frí til Spánar í eina viku. Á meðan ferðinni stóð ákvað hann að flytja til Spánar og stofna sitt eigið fyrirtæki. Nú smyr hann og selur danskt smurbrauð á Spáni en Norðurlandabúar eru helstu viðskiptavinir hans.
„Ég var alls ekki að hugsa um að flytja til Spánar þegar það kom upp. Til að gera langa sögu stutta þá var vinkona mín og strákurinn hennar í þriggja vikna sumarfríi í Torrevieja í júlí 2019 og ég skrapp þangað í vikuheimsókn. Á hverjum morgni gekk ég niður að strandlengjunni þar sem smábátahöfnin er og fram hjá tennisvöllum sem þarna eru. Ég var alltaf að rekast á Svía, Dani og Norðmenn sem ég spjallaði við og fór að spá í að það væri ábyggilega hægt að selja þeim danskt smurbrauð,“ segir Einar. Vinkona Einars sem hann var í heimsókn hjá hafði áður unnið með systur sinni á smurbrauðsstað hennar í Svíþjóð og kom hugmyndin þaðan. Einar setti sig í samband við sendiráð Norðurlandanna og fékk upplýsingar um hversu margir Norðurlandabúar byggju á svæðinu. Fjöldinn var gríðarlegur og fór svo að hann stofnaði smurbrauðsstaðinn Snitten og smurbrauðsverslunina Snittenonline. „Ég og vinkona mín eigum fyrirtækið, ég 80% hún 20%,“ segir Einar.
„Lífið er aðeins dagurinn í dag og dagurinn á morgun ekki til“ úr laginu Við vatnið eftir Bubba Morthens er flúrað á handlegg Einars. Hann segist reyna að lifa eftir visku Bubba og reynir að láta hugann ráða för. Einar var ekkert að tvínóna við hlutina þegar hann fékk hugmyndina að smurbrauðstaðnum.
„Það gerðist allt mjög hratt eftir að ég sá fram á að þessi hugmynd gæti orðið að veruleika. Ég fékk hugmyndina 10. júlí 2019 og þremur vikum seinna, 31. júlí, sagði ég upp vinnunni. Svo í framhaldinu þá fór ég út í hverjum mánuði í misjafnlega langan tíma, stofnaði fyrirtækið, skoðaði fjölmargt húsnæði og keypti fyrirtækjabíl og fleira. Eins og ég sagði í upphafi þá var ég ekkert að hugsa um að flytja út en langaði að framkvæma þetta strax. Ég var tilbúinn til að taka áhættu en þó ekki meiri en ég gæti ráðið við. Var með þriggja mánaða uppsagnarfrest en vann í fjóra mánuði til 29. nóvember. Ég flutti svo út daginn eftir og Covid-19 kom svo þremur mánuðum seinna og riðlaði öllu. Sem betur fer lítur þetta allt vel út og bjart fram undan.“
Flutningarnir gengu vel hjá Einari, í rauninni auðveldari en honum hafði verið sagt. Hann seldi íbúðina sína og innbúið á Íslandi á mettíma og var búinn að kaupa sér íbúð úti áður en hann flutti út. Hann keypti hluta af innbúinu á netinu sem var keyrt til hans daginn eftir að hann flutti út.
Hvað finnst þér best við að búa á Spáni?
„Ég vil fyrst minna á að ég var alls ekki á leiðinni að flytja til Spánar. En eftir að vera kominn hingað er ótrúlega margt sem ég get nefnt. Það er ekki eins alls staðar á Spáni og hér, en það á líka við alla lengjuna suður eftir. Þetta eru aukin lífsgæði. Vegirnir og innviðirnir eru framúrskarandi. Hér er hreinasta loft í Suður-Evrópu og plássið hér, Vega Baja, er þekkt fyrir að vera leiðandi í því að hafa það þannig. Engar stórar mengandi verksmiðjur né nokkuð sem rýrir loftgæðin. Hér er ferskur matur og ferskt vatn. Verðið er lágt og mikil gæði. Stutt að fara í göngutúra á ströndina við Miðjarðarhafið en hér eru með fallegustu ströndum í Evrópu. Að búa hérna við bjarta daga og dimmar nætur allt árið um kring og flestalla mánuði stuttbuxnaveður hefur veitt mér það sem ég vissi ekki að mig vantaði. Ef mig langar á skíði er þriggja tíma akstur á skíðasvæðið og auðvelt að keyra um vegi landsins. Hér er miklu rólegra yfir öllu, ekkert stress og lífið bara alveg frábært.“
Einar opnaði fyrsta staðinn í Almoradí í byrjun júlí 2020 fimm mánuðum á eftir áætlun en opnun staðarins frestaðist vegna heimsfaraldursins. Í október var síðan opnaður staður í Torrevieja en þar fer mesta salan fram. Einar segir viðtökurnar góðar þrátt fyrir að aðalmarkhópurinn sé ekki á svæðinu. Hann segir að það styttist í komu Norðurlandabúa og þá bætist hressilega í kúnnahópinn. Einar er bjartsýnn og heldur ótrauður áfram þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Hann ætlar að opna nýjan stað í byrjun sumars og verður það Snitten í Orihuela Costa, Alicante.
„Fyrir mig persónulega hefur kórónuveirufaraldurinn haft sáralítil áhrif ef ég undanskil að foreldrar mínir hafa ekki komist í heimsókn eins og stóð til bæði í mars og október og er söknuður í því. Einnig gat ég ekki opnað staðinn en var að dytta að fyrirtækinu í útgöngubanninu og fann lítið fyrir því annað en að ég ætlaði að vera búinn að opna. Hér eins og annars staðar nota allir grímu og hendur sprittaðar áður en farið er inn í allar verslanir og alla aðra staði og hefur svo verið síðan í mars 2020. Sett var á bann við að fara á milli sýslna til að koma í veg fyrir að fólk sé að ferðast inn á þetta svæði með hugsanlegt smit. Annars gengur lífið sinn vanagang og lítið rætt um Covid og að setja á sig grímu er jafnsjálfsagt og að setja á sig öryggisbelti og maður hefur lent í því að keyra með grímuna í 15 til 20 mínútur án þess að taka eftir því. Yngsta dóttir mín og afabörn ásamt vinum komu síðastliðið sumar í tvo mánuði annars vegar og þrjá mánuði hins vegar þannig að við vorum hér níu manns meiripart sumars.“
Þegar Einar er spurður hvers hann sakni helst frá Íslandi á hann erfitt með að svara því. „Ég ætla bara að vera alveg hreinskilinn að það er ekkert sem ég get nefnt. Nú á ég örugglega eftir að fá að heyra það. En ég vil ekki meina að það sé söknuður að hafa ekki séð hinar dæturnar, afabörnin, foreldra, ættingja, fyrrverandi vinnufélaga og vini í rúmt ár, því þau voru flest á leiðinni í heimsókn á síðasta ári þegar ferðalög lögðust nær af og á ég bara von á þeim á næstunni og þá verða fagnaðarfundir og yndislegt að hafa þau hér um tíma. Við ræðum saman á messenger af og til og hlökkum bara til að hittast. Matur, tónleikar, snjórinn, slabbið, rigningin, rokið og góða veðrið, nei það er ekkert sem ég sakna sérstaklega, allavega ekki nóg til að muna eftir því. Mér finnst heima alltaf best, sama hvar það er.“