Heillaðist af japanskri menningu á barnsaldri

Helga Ragnarsdóttir, tónlistarkona og leikkona, kennir japönsku fyrir byrjendur á …
Helga Ragnarsdóttir, tónlistarkona og leikkona, kennir japönsku fyrir byrjendur á námskeiði hjá Skýinu - skapandi skóla. Hér er hún með bunraku brúðu sem leika aðalhlutverk í japönsku brúðuleikhúsi. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarkonan og leikkonan Helga Ragnarsdóttir heillaðist ung af japanskri menningu þegar hún sá anime-teiknimyndir sem barn. Hún lærði japönsku í Háskóla Íslands og tók eitt ár í skiptinám í Kyoto. Nú býður hún upp á námskeið fyrir byrjendur í japönsku í Skýinu - skapandi skóla.

Á námskeiðinu hjá Skýinu ætlar hún að miðla þekkingu sinni á japanskri menningu og kenna einfaldar setningar í japönsku. Hún segir að þótt fólk þekki ekkert til tungumálsins þurfi það ekki að vera hrætt við að skrá sig á námskeiðið. „Markmiðið er að kynna nemendum japanskt mál og menningu, kenna þeim að segja einfaldar setningar, þekkja japanskt ritmál og skrifa einhverja stafi, kynnast öðrum menningarheimi og hafa gaman,“ segir Helga í samtali við mbl.is

Helga er með BA-gráðu í japönsku.
Helga er með BA-gráðu í japönsku. Ljósmynd/Aðsend

Auk BA-gráðunnar í japönsku er Helga líka með BA-gráðu í tónsmíðum og MA-gráðu í tónlistarflutningi. Hún hefur verið búsett í Bretlandi undanfarin sjö ár en flutti heim ásamt eiginmanni sínum í lok árs 2020.

„Japönsk menning hefur verið áhugamál hjá mér frá því að ég var barn og sá anime-teiknimyndir í fyrsta skipti. Þær myndir voru reyndar allar talsettar á ensku og því ekki fyrr en síðar sem ég fór að hafa áhuga á japönskunni sjálfri, eftir að ég komst í efni á japönsku frá unglingsaldri. Eftir að ég kláraði BA í tónsmíðum var ég frekar týnd í lífinu, eins og við listamenn erum oft, og var þá allt í einu búin að sökkva mér í að læra japönsku heima hjá mér. Það gerði ég mest með því að horfa á japanskt raunveruleikasjónvarp og panelþætti, og klóra mig hægt og rólega fram úr því hvað var að gerast.

Mér fannst alveg frábært að læra svona ólíkt tungumál og ég fann hvað ég hafði brennandi áhuga á Japan og japönsku. Þá hugsaði ég bara með mér, af hverju ekki að gera þetta af alvöru, og skráði mig í HÍ. Mér finnst sem heimssýn mín vaxi með hverju tungumálinu sem ég læri: tungumál segir svo mikið til um hvernig þjóð hugsar, allt frá orðatiltækjunum til setningargerðar,“ segir Helga. 

Helga fyrir utan skólann sinn Kansai Gaidai.
Helga fyrir utan skólann sinn Kansai Gaidai. Ljósmynd/Aðsend

Helga lagði stund á japönsku í Kansai Gaidai-háskóla í Hirakata-shi-hverfinu í Osaka. Þótt hún hafi búið í úthverfi borgarinnar kynntist hún hversdagslífinu í Japan vel. 

„Það gaf manni þó tilfinningu fyrir hversdagslegu lífi í Japan, ég hjólaði mjög mikið um nærumhverfið og einna skemmtilegast þótti mér að hjóla bara eitthvert út í bláinn án þess að fylgjast með og þurfa síðan að finna leiðina heim ein og óstudd. Þetta var áður en ég eignaðist snjallsíma og þar sem úthverfið var ekki fyrir ferðamenn þurfti ég að styðjast algjörlega við japönskuna mína og umhverfið til að koma mér heim. Hverfið mitt var mjög afslappað og kósí,“ segir Helga. 

Helga heillaðist snemma af japanskri menningu.
Helga heillaðist snemma af japanskri menningu. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða staði í Japan mælir þú með að fólk heimsæki og af hverju?

„Flestum þykir Tókýó auðvitað ómissandi, og hún er það í rauninni, en í fyrsta sæti hjá mér er Kyoto. Hún er gamla höfuðborgin, var nær ekkert sprengd í seinni heimsstyrjöldinni og er því mjög lágreist og gömul borg. Það er einhver ótrúlegur sjarmi yfir Kyoto sem er ekki hægt að lýsa. Í Kyoto finnur þú ævafornan kastala, Nijo-jo, gullhofið mikla, Kinkaku-ji, og mitt uppáhalds, Kiyomizu-tera hof, gömul leikhús, bambusskóga, gamla grafreiti í hlíðunum og dásamlega veitingastaði. Það jafnast ekkert á við Kyoto. Þess utan myndi ég mæla með að leita eitthvert út fyrir borgirnar líka. Fátt er jafn dásamlegt og þögul sveitin í Japan, sem ég var mjög heppin að fá að njóta með host-fjölskyldunni minni.

Laufskrúði við Kiyomizu-tera hofið.
Laufskrúði við Kiyomizu-tera hofið. Ljósmynd/Aðsend
Við gullhofið mikla Kinkaku-ji.
Við gullhofið mikla Kinkaku-ji. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert