Ítalía hefur undanfarin ár glímt við að of margir ferðamenn heimsækja sömu staðina í of miklum mæli. Það var vissulega ekki vandamál á síðasta ári vegna heimsfaraldursins, og ólíklegt þykir að það verði vandamál í ár. En hvað gerist þegar heimsfaraldurinum lýkur?
Á háannatíma í Flórens heimsóttu yfir 12 þúsund manns borgina á einum degi. Tóku myndir af sér með öllum helstu kennileitum, biðu í röðum fyrir utan söfn og borðuðu á veitingastöðum. Of mikill fjöldi ferðamanna var raunverulegt vandamál í borginni, svo mikið vandamál að yfirvöld fóru af stað með herferðina Enjoy Respect Florence til þess að hvetja ferðamenn til að haga sér vel.
Flórensbúar hafa hins vegar nýtt tímann í heimsfaraldrinum vel og fara nú af stað með Uffizi Diffusi-verkefnið. Einn af þeim sem standa að baki verkefninu er stjórnandi Uffizi-listasafnsins, Eike Schmidt.
Verkefnið felur í sér að reyna að dreifa ferðamönnum á sem besta vegu um borgina. Schmidt fékk hugmyndina þegar hann var lokaður inni í útgöngubanni og vann á lokuðu safninu. Þá fór hann að skoða safnkostinn betur og datt í hug að dreifa honum frekar víðsvegar um borgina.
Á teikniborðinu er að færa listaverkin á 60 til 100 staði í borginni og dreifa þar með ferðamönnunum sem bíða í löngum röðum eftir að njóta listarinnar á safninu.
Heimamenn í Flórens hafa tekið vel í verkefnið og hafa margir atvinnurekendur og óbreyttir borgarbúar boðist til að taka þátt í því. Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist strax í sumar en listaverk safnsins eru yfir 3.000 svo nóg er til af verkum til að dreifa um borgina.