Japani launar Íslendingum hlýhug með nýju mastri

Egill Þórðarson tók þátt í hjálparstarfi í Japan eftir hamfarirnar …
Egill Þórðarson tók þátt í hjálparstarfi í Japan eftir hamfarirnar í Japan fyrir tíu árum. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag eru tíu ár frá því mannskæður jarðskjálfti varð úti fyrir Norðaustur-Japan. Í kjölfarið skullu öflugar flóðbylgjur á ströndinni sem leiddu meðal annars til kjarnorkuslyss. Íslendingar og Japanir á Íslandi lögðu sitt af mörkum til hjálparstarfsins. Japaninn Takeyoshi Kidoura ætlar að launa Íslendingum greiðann í kjölfar hörmunganna og gefa Íslendingum siglingaljósamastur á fyrrverandi varðskipið Óðin. Egill Þórðarson tók virkan þátt í hjálparstarfinu hér heima og í Japan og kynntist í kjölfarið Kidoura.

Árið 2011 fengu japanskar konur, undir forystu Miyako Þórðarson, stöllur sínar um allt land til að safna og prjóna ullarfatnað sem pósthúsin tóku við. Flíkurnar, sem voru um sex þúsund, voru flokkaðar og þeim pakkað í safnaðarheimili Grensáskirkju. Pósthúsin tóku við og sendu síðan til Japans þeim að kostnaðarlausu. Flíkurnar voru sendar til borganna Miyako og Kesennuma í Norðaustur-Japan. Jafnframt felldi Síminn niður gjaldtöku af símtölum til Japans í mars 2011. Egill Þórðarson loftskeytamaður fór til Japans sumarið eftir og tók þátt í hjálparstarfi.

Egill er búinn að vera með annan fótinn í Japan í 50 ár en hann er kvæntur japanskri konu að nafni Yoko A. Þórðarson. Eiginkona Egils og fleiri sem tengjast Japan ákváðu að safna ullarfötum og senda Japönum sem margir hverjir misstu heimili sín. Egill segir að náttúruhamfarirnar í Japan fyrir tíu árum hafi lagt byggð á 400 kílómetra langri strönd Norðaustur-Japans í rúst og sextán þúsund manns hafi farist.

Frá hreinsunarstarfi í Japan.
Frá hreinsunarstarfi í Japan. Ljósmynd/Aðsend

Starfaði sem sjálf­boðaliði á svæðinu

„Veðurlag þarna norður frá er mjög svipað og hérna í Reykjavík. Fólk varð náttúrlega heimilislaust. Ég hef enga tölu á því hve mörg heimili fóru í rúst,“ segir Egill um ástæðu þess að ákveðið var að fá Íslendinga til að gefa ullarföt. „Allir skólar á þessu svæði eru á hæðum þannig að þeir urðu ekki fyrir flóðinu. Fólk leitaði skjóls í skólum og íþróttahúsum. Þær vissu hvernig aðstæður voru og vildu senda eitthvað hlýtt.“

Egill hjálpaði konunum að pakka fötunum og senda til Japans. Eftir hamfarirnar kom í ljós að kjarnorkuver stórskemmdust með þeim afleiðingum að mikil hræðsla skapaðist við svæðið.

„Fólk fældist þetta svæði þannig að við ákváðum að fara til Japans og heimsækja fólkið okkar. Þegar ég var kominn til Kýótó þá fannst mér að maður þyrfti að fara þarna norður eftir. Maður fann að það kom lítið af fréttum þaðan. Það tókst að komast þangað og þá sá maður hvers kyns var. Þessar tvær borgir sem við fórum til voru að mestu í rúst.“

Egill og Yoko störfuðu í nokkra daga sem sjálfboðaliðar á svæðinu. Verkefnin fólust í því að hreinsa ljósmyndir. Reynt var að bjarga öllu því sem taldist persónulegir munir þar á meðal ljósmyndum. Ljósmyndirnar voru flokkaðar, hreinsaðar og síðan reynt að koma þeim til fólks.

Hér má sjá Egil að störfum við að hreinsa ljósmyndir.
Hér má sjá Egil að störfum við að hreinsa ljósmyndir. Ljósmynd/Aðsend
Myndum var reynt að koma til réttra eigenda.
Myndum var reynt að koma til réttra eigenda. Ljósmynd/Aðsend

Eignaðist góðan vin

Egill fór næstum því árlega aftur til Japans árin eftir og kynntist þá skipasmiðnum Takeyoshi Kidoura. Egill hefur mikinn áhuga á skipasmíðum og fundu þeir félagar sameiginlegt áhugamál. Kidoura er nú forstjóri nýju Mirai-skipasmíðastöðvarinnar í Kesennuma sem gefur mastrið.

„Við höfum verið í sambandi og Kidoura hefur komið hingað. Ég fór með hann 2013 um borð í gamla varðskipið Óðin, sem er búið að vera safnskip í 15 ár og liggur við Óðinsbryggju á Grandagarði. Ég starfa þar um borð núna. Við erum að stefna að því að gera skipið haffært og erum að vinna í viðgerðum um borð. Meðal annars er siglingaljósamastur sem er illa ryðgað. Kristinn Halldórsson teiknaði það upp í haust og fengum við verð í smíðina bæði hér heima og frá Póllandi. Af rælni sendi ég smíðalýsinguna líka til Kidoura. Hann svaraði mér um hæl og sagði hvað það myndi kosta og bætti svo við, að vegna vinskapar okkar og þess hvernig Íslendingar hjálpuðu þeim á hörmungatímum ætlaði hann að gefa okkur mastrið,“ segir Egill. „Við getum ekki prjónað vettlinga en við getum smíðað mastur,“ sagði Kidoura við Egil.

Um borð í Óðni haustið 2013. F.v. Kidoura í rauðum …
Um borð í Óðni haustið 2013. F.v. Kidoura í rauðum jakka, Birgir Vigfússon staðarhaldari um borð, Pálmi Hlöðversson f.v. stýrimaður og skipherra á Óðni og rafvirkinn Takayuki Ishikawa. Ljósmynd/Aðsend

Hvað þýðir það fyrir ykkur að fá þetta mastur?

„Það verður að endurnýja það til að skipið verði haffært. Það gefur okkur virkilega byr undir vænginn og svo þurfum við ekki að sníkja þessa peninga annars staðar,“ segir Egill sem ætlaði ekki að trúa góðmennsku vinar síns.

Sam­kennd teng­ir fólk sam­an

Á sama tíma og tíu ár eru frá hörmungunum í Japan eru jarðhræringar á Íslandi. Allt tengist þetta fyrrverandi varðskipinu Óðni.

„Óðinn var búinn að vera varðskip í 46 ár og styðja fólk á Íslandi í svona náttúruhamförum meðal annars. Hann var til dæmis lengi við Vestmannaeyjar þegar gaus þar 1973, sem stuðningur við þá vinnu sem þar fór fram. Hann flutti björgunarfólk í brjáluðu veðri þegar snjóflóðið varð á Flateyri 1995. Hann tengist svona hamförum. Ég sem gamall sjómaður og varðstjóri á stjórnstöð Landhelgisgæslunnar 1995 þegar snjóflóðin urðu í Súðavík og á Flateyri veit því hvað gerist bak við tjöldin í svona hamförum. Það var líka þess vegna sem ég varð að fara þarna norður eftir, eftir hamfarirnar 2011. Ég er tengdur þessu. Þetta skildi vinur minn þarna í Japan allt saman, þótt það hafi ekki verið um það talað. Það skapast samkennd. Ástæðan fyrir því að allar þessar konur á Íslandi sendu föt er samkennd og það er sú samkennd sem hann vildi sýna þakklætisvott. Það vill nú svo til að nú er jörðin að skjálfa,“ segir Egill.

Fyrrverandi varðskipið Óðinn.
Fyrrverandi varðskipið Óðinn. mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að jörð skjálfi á Reykjanesskaga núna er ekki hægt að líkja því við það sem átti sér stað í Japan árið 2011. Stóru skjálftarnir úti í hafi voru yfir 9 að stærð og þegar þeir komu inn á land voru þeir sjö að stærð og vörðu upp í tvær og hálfa mínútu að sögn Egils. Þegar hann var í Japan í júní 2011 voru enn viðvarandi eftirskjálftar á borð við það nudd sem Íslendingar finna fyrir núna.

„Það er ekkert hægt að líkja þessu saman. Þetta var svo svakalegt þarna í Japan. Fólk stóð uppi allslaust dögum saman í éljagangi og slyddu, sambandslaust við umheiminn. Það fór allt rafmagn, sími og öll fjarskipti, allar fréttir, vatn og holræsi. Tankarnir úr olíubirgðastöðinni flutu inn í fjarðarbotn og langt inn í Shishiori-hverfið. Svo kviknaði í öllu saman, þar brunnu skip, hús og fólk fórst í eldinum sem brann í fjóra daga. Fólk var hreinlega einangrað og sambandslaust í upp undir viku. Það var meiri háttar hernaðaraðgerð hjá japanska hernum að komast inn á þessi svæði til að hjálpa fólki.“

Frá Kesennuma í Japan. Hreinsunarstarf tók langan tíma.
Frá Kesennuma í Japan. Hreinsunarstarf tók langan tíma. Ljósmynd/Aðsend

Íslend­ing­ar eins og frænd­fólk í fjar­lægu landi

Ein ástæða þess að Kidoura ákvað að gefa Íslendingum siglingaljósamastur á Óðin er sú að hann er skipasmiður. Fyrirtækið vildi leggja sitt af mörkum til þeirra sem sýna gömlum skipum sem hafa lokið hlutverki sínu ást og umhyggju. Í öðru lagi vildu Kidoura og félagar gefa mastrið sem þakklætisvott frá íbúum Kesennuma til Íslendinga sem réttu hjálparhönd á erfiðum tímum. Í þriðja lagi vildi Kidoura hjálpa vinum sínum, þeim Agli og Yoko. Hann segir tengsl þeirra jafnsterk og fjölskyldutengsl.

Kidoura segist hafa spurt sig af hverju Íslendingar sýndu Japönum eins mikla góðvild og raun bar vitni. „Því betur sem við kynnumst Íslandi og tengingin varð sterkari því nánari urðum við Íslendingum. Það er bara eitt haf á milli Íslands og Japans. Báðar þjóðir eru líka fiskveiðiþjóðir og á eldvirkum eyjum. Við þurfum að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna. Þess vegna, þrátt fyrir fjarlægðina og þá staðreynd að við tölum ekki sama tungumálið, náum við vel saman. Ég hugsa um Íslendinga sem vini eða frændfólk í fjarlægu landi sem ég vil hjálpa þegar þörf er á.“

Japanska sendiráðið á Íslandi vill koma á framfæri þakklæti til Íslendinga fyrir stuðninginn á erfiðum tímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert