Félagarnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson lögðu af staði frá Keflavíkurflugvelli til Nepal í morgun. Í Nepal ætla þeir að klífa Everest eftir langan undirbúning. Með ferðinni ætla þeir að safna áheitum fyrir Umhyggju – félag langveikra barna.
Félagarnir stefna ekki á að koma heim fyrr en í júní og fóru vel búnir fyrir bæði langa og stranga ferð. Fylgjendur þeirra hafa fylgst með þeim pakka og í morgun greindu þeir frá því að þeir væru með 130 kíló af farangri meðferðis.
Þegar ferðavefur mbl.is ræddi við Sigurð í janúar sagði hann þá félaga stefna á að toppa í lok maí en tímaramminn til þess að komast á toppinn er stuttur. Þeir hafa þurft að passa sig vel að veikjast ekki af kórónuveirunni og er flugferðin og veran á flugvöllum áhættusöm.
„Ef langveik börn hafa áhuga á því að senda inn drauma til okkar ætlum við að taka þá með okkur í ferðalagið, lesa þá upp á fallegum stöðum og reyna að taka þá með okkur alla leið upp á topp Everest,“ segir Sigurður í byrjun árs.
Allur ágóði söfnunarinnar rennur óskiptur til félagsins. Á heimasíðu Umhyggju er hægt að leggja málefninu lið. Einnig er hægt að fylgjast með leiðangrinum og stöðu mála á Facebook og Instagram.