Ég undi mér alltaf betur utanbæjar en í borginni og ég var sífellt að suða í foreldrum mínum þegar ég var krakki að ég vildi flytja út í sveit. Ég hvatti pabba oft til að gerast bóndi, enda var ég með hestadellu og fór í sveit í Hjaltadal í Skagafirði þegar ég var tíu ára þar sem ég passaði börn í skiptum fyrir að fara á hestbak,“ segir Erla Jóhannsdóttir borgarstelpa sem þráði að búa úti á landi. Sá draumur rættist fyrir nokkrum árum þegar hún flutti til Siglufjarðar, en forsaga málsins liggur um nokkur lönd, fjöll og firnindi, jökla og ísbjarnaslóðir.
„Ég fór að vinna í Skaftafelli fyrir tíu árum, en þá var ég búin að ferðast mikið og ég hafði búið í Austurríki þar sem ég var að renna mér á snjóbretti þrjá vetur í röð. Þegar ég kom heim eftir það vantaði mig vinnu og ég leitaði til vina minna sem ráku fyrirtæki í ferðaþjónustunni, m.a. í Skaftafelli. Þar vann ég við að selja jöklaferðir hjá fyrirtæki sem heitir Glacier Guides, eða Jöklamenn. Þá hafði ég enga sérstaka þekkingu á jöklum, nema það sem ég hafði lært í jarðfræði í háskólanum og í eigin fjallabrölti. Ég fór því á jöklaleiðsögunámskeið og tók meirapróf til að geta keyrt rúturnar.“
Erla, sem er landfræðingur að mennt, var öll sumur í Skaftafelli frá 2011 til 2016, sem var örlagaríkt, því þar kynntist hún núverandi manni sínum, Steve Lewis.
„Hann er Breti og var þá að vinna sem jöklaleiðsögumaður. Hann hafði búið á Svalbarða í sex ár og ég flutti með honum þangað og þar bjuggum við í þrjú ár. Þetta var ögrandi verkefni, þar er rosalega mikið myrkur yfir veturinn en stórkostleg birta yfir sumartímann. Þetta eru miklar öfgar og ég var góð með mig, verandi Íslendingur, og sagði að þetta yrði ekkert mál fyrir mig, en þetta er allt annar tebolli,“ segir Erla og bætir við að ísbjarnarótti sé fyrirbæri á þeim slóðum sem flestir þar kannist við.
„Það fer reyndar eftir því hvar maður býr hversu miklar líkur eru á að rekast á ísbjörn sem maður þarf að eiga við sjálfur. Við gerðum þó nokkuð mikið af því að fara út í óbyggðir á Svalbarða og þá þarf maður að vera var um sig. Við þurfum að umgangast ísbirni af virðingu á þessu svæði, því þetta er þeirra heimasvæði. Við reyndum að forðast að komast í návígi við ísbirni, því þá þarf maður hugsanlega að verja sig og mögulega á endanum gera þeim mein. Enginn vill lenda í því, þetta eru stórar og hættulegar skepnur og þar fyrir utan í útrýmingarhættu. Þarna ferðast maður alltaf með riffil og neyðarblys sem getur hrætt birnina í burtu, en það virkar ekki alltaf. Með blysunum gerir maður líka vart við sig og einhver getur þá mögulega komið til hjálpar. Maður þarf að kunna að nota riffilinn, ef maður lendir í þeim aðstæðum að þurfa að fella ísbjörn,“ segir Erla sem hefur lært að skjóta af riffli en segist fegin að hafa ekki þurft að nota hann á ísbjörn.
Steve hafði ekki aðeins búið á Svalbarða áður en leiðir þeirra lágu saman heldur líka í Noregi og Svíþjóð. Hann er því augljóslega mikið fyrir norðurslóðir.
„Hann féll alveg fyrir Íslandi svo það var enginn efi í hans huga hvar hann vildi eiga heima. Við fluttum til Siglufjarðar af því ég hafði í raun alltaf verið að bíða eftir að kynnast einhverjum sem nennti að flytja með mér út fyrir borgina. Þegar ég fann þennan ævintýramann og náttúruunnanda sem Steve er, þá var það fullkomið. Við höfðum heillast af Siglufirði á einhverri ferð okkar um landið og þegar við fluttum heim frá Svalbarða seldi ég íbúðina mína sem ég átti í Reykjavík og við keyptum okkur hús hér á Siglufirði. Við sjáum ekki eftir því, þetta er sjötta árið okkar og við unum hag okkar vel,“ segir Erla, sem opnaði jógastöðina Tadasana fyrir tveimur árum.
„Við eignuðumst son okkar árið 2017 og ég var meira og minna í barneignarleyfi í eitt og hálft ár í framhaldi af því. Þegar kom að því fyrir mig að fara aftur út á vinnumarkaðinn langaði mig ekki í ferðamannabransann aftur. Ég hafði stundað jóga annað slagið alveg frá því ég var 16 ára og ég fór að gera það af fullum krafti þegar við heimsóttum fjölskyldu Steves í San Francisco og vorum þar í mánuð. Við það kviknaði á öllu hjá mér og ég ákvað að fara á fullu í þetta, ég fékk mér jógakennararéttindi ári seinna í San Francisco og þegar ég kom heim stofnaði ég facebookhóp sem hét Jóga í Fjallabyggð, til að athuga hvort það væri einhver áhugi fyrir þessu. Viðbrögðin voru svo góð að ég ákvað að slá til og opna jógastúdíó hér. Bæjarbúar hafa tekið þessu fagnandi.“
Erla hefur eðli málsins samkvæmt þurft að loka jógastúdíónu oft vegna covid.
„Núna tek ég færri í salinn vegna tveggja metra reglunnar, en í sumar glæðist vonandi. Ein hugmyndin er að taka á móti gestum, en mig langar að ná til fólks sem vill stunda jóga þegar það ferðast um landið. Ég hugsa þetta líka fyrir aðra jógakennara, því við getum boðið þeim íbúð hér ef þeir vilja koma og halda námskeið eða vera með viðburði hér á Sigló í jógastúdíóinu. Jógakennarar vilja kannski fara með sinn jógahóp út á land, en það fer vel saman, að ferðast um Ísland og stunda jóga,“ segir Erla og bætir við að heiti stúdíósins, Tadasana, sé sanskrít.
„Þetta er nafn á jógastöðu sem þýðir fjallið. Það á vel við hér í Fjallabyggð þar sem við erum umvafin fjöllum.“ Erla og Steve reka líka annað fyrirtæki, The Empire, þar sem þau taka á móti hópum sem eru að taka upp auglýsingar, stuttmyndir eða annað slíkt. „Þetta hentar vel fyrir þá sem eru með fókus á ævintýraútivistarbrölt, til dæmis þá sem eru að taka upp skíðastuttmyndir,“ segir Erla og bætir við að þau hafi stofnað fyrirtækið þegar þau bjuggu á Svalbarða.