Eltu drauminn og fluttu til La Palma

Hafsteinn Helgi með dætrum sínum.
Hafsteinn Helgi með dætrum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Fólkið á bak við fyrirtækið Happie Furnit­ure, þau Haf­steinn Helgi Hall­dórs­son og Guðrún Agla Eg­ils­dótt­ir, fluttu til eyjunnar La Palma í nóvember árið 2019, með dætrum sínum tveimur. Þau eru nú stödd á Íslandi til þess að heimsækja fjölskyldu sína en stefna á að búa á báðum stöðum í framtíðinni. Þau eru nýbyrjuð að flytja inn avókadó en þau festu meðal annars kaup á landsvæði á eyjunni fögru. 

„Þessi eyja er ótrúlega falleg, kölluð La Isla Bonita, sem þýðir fallega eyjan á spænsku. Fegurðin er alveg umtöluð á nærliggjandi eyjum. Það eru fáir ferðamenn þarna, þá helst hjólafólk og göngufólk. Eyjan er ótrúlega hrein, vatnið er gott, allt er mjög rólegt og ekkert brjálað næturlíf með öllu því sem því fylgir. Eyjan er lítil og einföld, samt eitthvað svo stór því fjölbreytnin er mikil og náttúran ótrúleg,“ segir Hafsteinn um eyjuna. 

Hafsteinn segir andann á eyjunni einstakan og telur að ástæðan sé meðal annars sú að eyjarskeggjar séu í miklum tengslum við móður náttúru og það sem hún hefur upp á að bjóða. Hann segir að efnahagurinn gangi 90 prósent út á ræktun matvæla. „Fólk er ekki ríkt efnislega þarna en ótrúlega tær og falleg hamingja ríkir á eyjunni. Það hefur sannað fyrir okkur að það er ekki mikið skylt með hamingju og peningum,“ segir Hafsteinn. 

Guðrún Alga, Hafsteinn Helgi og dætur þeirra fluttu til La …
Guðrún Alga, Hafsteinn Helgi og dætur þeirra fluttu til La Palma fyrir rúmlega ári síðan. Ljósmynd/Aðsend

Sjá framtíðina fyrir sér í tveimur löndum

Hafsteinn segir að öllu megi ofgera. Í of mikilli sól leitar fólk í skugga og í of miklu myrkri þrái fólk sól. Á eyjunni La Palma er hins vegar frekar mikið jafnvægi. Hafsteinn og Agla eru ánægð með rólegheitin sem fylgja lífinu á eyjunni. „Lífið er rólegra, minni asi og plön, ódýrara að lifa og mikil gæði í því sem maður getur tekið sér fyrir hendur,“ segir Hafsteinn. 

Það kemur þó fyrir að þau sakni þess sem Ísland hefur upp á að bjóða. Ekkert jafnast á við fjölskyldu og vini. Eins einkennilega og það hljómar sakna þau einnig veitingahússins Fönix. „Það er ekkert sólskin sem fyllir í skarð þeirra. Planið var og er að geta sameinað þessa heima svolítið, hvatt okkar besta fólk að koma út í sólina á veturna og gera eitthvað skemmtilegt saman. Við ætlum að vera stóran part ársins líka á Íslandi enda er Ísland líka afar einstakt og fallegt. Covid hefur klárlega aðeins seinkað þessum plönum en við gefumst ekki svo auðveldlega upp, það fer að birta til.“

Hafsteinn Helgi og Guðrún Agla einbeita sér að fjölskyldunni á …
Hafsteinn Helgi og Guðrún Agla einbeita sér að fjölskyldunni á meðan dætur þeirra eru enn ungar. Ljósmynd/Aðsend
Heimasætan í garðinum.
Heimasætan í garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Hafsteinn, Agla og dætur þeirra eru í heimsókn á Íslandi sem stendur. „Það var lítið um heimsóknir í Covid svo við sóttum bara okkar fólk heim. Vonandi förum við að flytja þau meira út í náinni framtíð. Annars sjáum við framtíðina fyrir okkur á báðum stöðum, við eigum land og mikið af trjám, vini og vandamenn úti á La Palma. Við munum kannski reyna að dvelja úti yfir dimmasta tíma tíma ársins og nota hann til að vinna í akrinum okkar,“ segir Hafsteinn sem er einnig að fylgja eftir fyrstu sendingu þeirra Öglu af avókadó til landsins. 

Einbeita sér að fjölskyldunni

„Á tímapunkti þurftum við smá að velja á milli Happie og fjölskyldunnar því eftirspurnin er mikil. Þessi ár eru það dýrmæt í lífi stelpnanna að við tókum ákvörðun um að verja sem mestum tíma með þeim. Þær eru ekki enn komnar á leikskóla en þær eru tveggja og fimm ára. Við vorum í raun frekar vel undirbúin, vorum búin að læra að framleiða og passa að allt ferlið í fyrirtækinu gangi virkilega vel án þess að við þurfum að vera á staðnum öllum stundum. Við erum ekki endilega að reyna að framleiða eins mikið og við getum. Við einbeitum okkur frekar að hverri og einni vöru og viðskiptavinum og pössum á sama tíma jafnvægið heima fyrir. Svo höfum við fjölskyldan líka keypt hús í Danmörku og gert upp og selt og búið öll saman. Það má vissulega flokka það sem vinnu líka.“

Fjölskyldulífið er gott á La Palma þó stórfjölskyldan hafi ekki …
Fjölskyldulífið er gott á La Palma þó stórfjölskyldan hafi ekki komist í heimsókn vegna heimsfaraldurs. Ljósmynd/Aðsend
Guðrún Agla ásamt dætrum þeirra Hafstein Helga.
Guðrún Agla ásamt dætrum þeirra Hafstein Helga. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hafið þið uppgötvað á veru ykkar erlendis?

„Hvað það að eiga góða að er ekki sjálfgefið, við erum ótrúlega heppin og maður vill ekki vanrækja það. Svo hefur það að flakka um heiminn og búa á mismunandi stöðum klárlega kennt okkur að það er ekki ein leið í lífinu og aragrúi af mismunandi manneskjum. Í raun eru allir draumar ótrúlega gerlegir, magnaðir hlutir geta gerst ef maður er opinn fyrir þeim. Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér því oft getur samfélagið kannski óvart haldið þér í boxinu þegar möguleikarnir eru bæði margir og skemmtilegir fyrir utan það. Ekki það að boxið sé ekki fínt líka.“

Hafsteinn Helgi og Guðrún Agla féllu fyrir gæða avókadóum á …
Hafsteinn Helgi og Guðrún Agla féllu fyrir gæða avókadóum á eyjunni La Palma. Ljósmynd/Aðsend

Ávaxtainnflutningur nýjasta verkefnið

Síðustu ár hafa þau Hafsteinn og Agla unnið við að gera upp gömul hús bæði á Suður-Fjóni í Danmörku og nú á Kanaríeyjum auk þess að sinna húsgagnaframleiðslu á Happie Furniture í gegnum tölvuna. Ný rós bættist í hnappagat parsins þegar þau byrjuðu að flytja inn avókadó  frá La Palma sem selt er í Krónunni um helgina. 

„Okkur þykir avókadóin alveg þau allra bestu sem við höfum smakkað og hlökkum til að deila þeim með þjóðinni. Takmarkið er að hektararnir okkar úti muni sjá fyrir landsneyslu okkar Íslendinga á avókadó þar sem vatnið kemur úr rigningunni og þetta vex á mjög náttúrulegan hátt þar sem bændurnir þéna mjög vel og vel haldið utan um þeirra réttindi. Það þykir ekki alltaf sjálfsagður hlutur alls staðar í heiminum. En þessar munu vera fyrsta flokks og koma frá okkur og vinum okkar eyjarskeggjum. Fólkið á La Palma er ótrúlega stolt af því að ávextirnir þess séu að fara til Íslands og svona hlutir dreifast hratt milli fólks, gaman að upplifa það.“

Auk þess að selja avókadó stefna þau Hafsteinn og Agla á að flytja inn papaja, stjörnuávöxt, mangó og ýmislegt fleira frá La Palma. Allur fer innflutningurinn eftir uppskerutíma.

Lífið er einfalt á La Palma.
Lífið er einfalt á La Palma. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert