1.800 hreinsa íslensku strandlengjuna

Veraldarvinur tínir rusl við strandlengju Íslands.
Veraldarvinur tínir rusl við strandlengju Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Fjölmargir sjálfboðaliðar Veraldarvina hafa gengið fjörur um allt land í vetur og safnað rusli sem safnast hefur við íslensku strandlengjuna. Veraldarvinir eru íslensk sjálfboðasamtök sem setja umhverfismál í öndvegi. Samtökin fagna 20 ára afmæli á þessu ári en Þórarinn Ívarsson stofnaði samtökin árið 2001.

Markmið Veraldarvina er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og betri umgengni manna við umhverfið. Um 1.800 sjálfboðaliðar hafa komið til landsins á vegum Veraldarvina árlega og einbeitt sér að náttúruvernd, meðal annars með því að leggja gönguleiðir og rækta plöntur en einnig með hreinsun íslensku strandlengjunnar. Samtals hafa sjálfboðaliðar lagt fram yfir 2,1 milljón klukkustunda við hreinsun á íslenskri náttúru.

Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg við hreinsunina.
Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg við hreinsunina. Ljósmynd/Aðsend

„Mikið magn af plasti, netadræsum og öðru rusli rekur á íslenskar strendur og hafa sjálfboðaliðar Veraldarvina safnað slíku rusli um allt land í vetur. Þetta er mjög mikilvægt og brýnt verkefni. Með því að hreinsa strandlengjuna eykst einnig umhverfisvitund landsmanna. Við erum stolt af því að styðja við bakið á Veraldarvinum og þessu verkefni sem sjálfboðaliðar samtakanna sinna. Með stuðningi við þetta mikilvæga verkefni viljum við sem fyrirtæki leggja okkar af mörkum í samfélagslegri ábyrgð," segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, en fyrirtækið er samstarfs- og styrktaraðili Veraldarvina og bakhjarl þessa verkefnis.

Ýmsilegt leynist í fjörunni.
Ýmsilegt leynist í fjörunni. Ljósmynd/Aðsend


Í janúar stóðu Veraldarvinir ásamt Hrafni Jökulssyni rithöfundi að sýningunni Kolgrafarvík kemur í bæinn sem haldin var við Reykjavíkurhöfn. Þar gátu gestir skoðað afrakstur hreinsunarinnar og einstaka náttúru Árneshrepps. Þessa dagana eru Veraldarvinir að flytja sýninguna og stefna að því að setja hana aftur upp á næstu vikum.

„Við ætlum að hreinsa allt plast úr fjörum Íslands á næstu fimm árum. Hluti af plastinu verður endurunnið og bakkar undir græðlinga steyptir úr því, við notum síðan mold úr nánasta umhverfi, tínum fræ af trjánum og ræktum græðlingana yfir veturinn í kjallara hússins okkar á Brú í Hrútafirði. Á vorin verða græðlingarnir síðan settir niður. Verkefnin verða ekki umhverfisvænni,“ segir Þórarinn Ívarsson framkvæmdastjóri Veraldarvina.

„Samhliða því að hreinsa strendurnar munum við taka drónamyndir af allri strandlengjunni og halda nákvæma skrá yfir það plast sem við hreinsum auk þess sem hægt verður að fylgjast með gangi mála á gagnvirku korti. Við munum einnig veita fólki fræðslu um sjálfbærni og hvernig á að umgangast náttúruna af virðingu. Við vonum að sem flestir íslendingar verði strandverðir í vor og sumar og sláist í hóp þeirra erlendu sjálfboðaliða sem koma til landsins til þess að sinna þessu verkefni. Stuðningur Bónuss skiptir okkur miklu máli og það er frábært að hafa slíkan bakhjarl við verkefnið. Bónus hefur reynst okkur vel í gegnum tíðina og það er algengt að sjálfboðaliðarnir okkar fari með margnota poka frá Bónus heim eftir að dvöl þeirra lýkur hér á landi,“ segir Þórarinn enn fremur.

Sjálfboðaliðar hafa verið duglegir við hreinsunina.
Sjálfboðaliðar hafa verið duglegir við hreinsunina. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert