Gríðarlega mikill áhugi er á því að skoða eldgosið í Geldingadal. Frá því að gosið hafa fleiri þúsund manns lagt leið sína að gosstöðvunum. Áður en fólk leggur af stað í slíka göngu- og skoðunarferð er rétt að huga vel að nokkrum mikilvægum atriðum.
Göngu- og skoðunarferð að gosstöðvum í Geldingadal er amk 7 km löng leið og getur hæglega endað í 10 – 12 km langri göngu. Vant göngufólk gengur slíka vegalengd á 3 – 4 klst með stoppi en gangan getur orðið 6 – 8 klst löng allt út frá því hversu lengi fólk stoppar og eins eftir aðstæðum og fjölda göngufólks á leiðinni. Gönguleiðin er nokkuð þægileg á fótinn en engu að hluta til í grýttu og hækkandi landslagi og því afar mikilvægt að búa sig rétt til ferðarinnar.
Lykilatriði eru að fylgja leiðbeiningum almannavarna og björgunarsveita, huga vel að veðri og búnaði. Sérstaklega mikilvægt er huga vel að vindáttabreytingum vegna gasmengunar sem er á svæðinu. Rétt er að hafa í huga að hættulegar gastegundir geta verið lyktarlausar, margar gastegundir eru þyngri en andrúmsloftið og safnast fyrir í lægðum í landslaginu. Því er mikilvægt að forðast alla slíka staði og almennt reyna að halda sig hærra en lægra þegar að gosstöðvum er komið. Bent hefur verið á að þetta geta verið lífshættulegar aðstæður en fólk getur einnig skaðað á sér lungun til frambúðar án þess að það viti að það sé að anda að sér hættulegum gastegundum.
Björgunarsveitin Þorbjörn stikaði gönguleiðina á öðrum eða þriðja degi eftir að gos hófst. Nú hefur þeirri leið verið breytt með tilliti til vindáttar í gærdag. Allir sem ætla að ganga að gosstöðvunum verða að vera í með allan réttan búnað og helst vera í góðu líkamlegu formi, að minnsta kosti þokkalegu.
Göngufatnaður
Í dagpokanum
Reykjanesskagi hefur löngum verið paradís útivistarfólks. Þar eru fjölmargar góðar gönguleiðir og þekkt örnefni og stórbrotin náttúra sem gaman er að skoða. Í árbók Ferðafélags Íslands 1984 um Reykjanesskaga vestan Selvogsgötu er fjallað um náttúrufar og örefni á gosstöðvunum. Þar segir meðal annars um Fagradalsfjall:
Fagradalsfjall má með rétti telja kjarnann í þeim fjallaklasa sem tekur við af hraunasvæðinu sem rann fyrr á öldum en útfrá þeim ganga fjöll með ýmsum nöfnun og mismunandi útlits. Sum þeirra eru með grágrýtisþekju á kolli, önnur án hennar. Hin fyrrnefndu er stapar sem hafa byggst upp undir jöklum. Gosin fyrir árþúsundum hafa smátt og smátt brætt sig upp í gegnum ísinn og þegar gosið náði upp úr ísnum myndaðist hraun eins og á íslausu landi sem náði þá jafnan að ísröndinni eða vatni sem með fram henni kann að hafa verið. Þetta veldur því að eitt af því sem einkennir stapanna eru þverhníptir hamrar neðst. Sjálfur megingígurinn á Fagradalsfjalli er nyrst á fjallinu í um 385 m hæð. Gígurinn er reglulegur og fallegur.
Margir kjósa að sitja í hliðum Fagradalsfjalls og virða fyrir sér stórbrotið sjónarspil eldgossins. Margir fara líka um svæðið og sjá gosið frá ólíku sjónarhorni. Aðalatriðið er að vera vel búin, fara varlega og sýna náttúrunni virðingu.