Ætlar að skoða eldgosið í Geldingadölum um páskana

Björg Magnúsdóttir er mikil páskakona.
Björg Magnúsdóttir er mikil páskakona. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölmiðlakonan, handritshöfundurinn og rithöfundurinn Björg Magnúsdóttir er mikil páskakona og undanfarin ár hafa páskarnir verið hennar uppáhaldsfrí. Hún hefur gert ýmislegt um páskana undanfarin ár. Í ár þykir henni líklegast að hún ferðist innanhúss eins og um síðustu páska.

Það þarf þó enginn að láta sér leiðast um páskana því þættirnir Systrabönd koma inn á Sjónvarp Símans Premium hinn 31. mars en Björg er einn af höfundum þáttannna. 

Hvað ætlar þú að gera um páskana?

„Mér sýnist allt stefna í að ég ferðist innanhúss eins og þorri landsmanna.

Góðu fréttirnar varðandi innilokunina sem fylgir 4. bylgju er að glæný íslensk sjónvarpssería, Systrabönd, kemur inn á Símann Premium í dag en ég var einmitt í höfundateyminu. Sagan gerist bæði í fortíð og nútíð en á tíunda áratug síðustu aldar hverfur 14 ára stúlka sporlaust á Snæfellsnesi. 25 árum síðar, eða í nútímanum, finnast jarðneskar leifar hennar og við fylgjum eftir þremur æskuvinkonum sem þurfa að horfast í augu við flókna fortíð sína. Drottningarnar Ilmur Kristjáns, Jóhanna Friðrika, Lilja Nótt, Halldóra Geirharðs og fleiri standa sig frábærlega og ég hlakka sjúklega til sjá þær í sjónvarpinu!!“

Páskarnir á Ísafirði.
Páskarnir á Ísafirði. Ljósmynd/Aðsend

Sérðu fram á að stunda útivist um páskana? 

„Já, ég stefni á að skoða eldgosið í Geldingadölum og er mjög spennt fyrir því.“

Hefur þú ferðast erlendis um páskana?

„Fyrir tveimur árum heimsótti ég fjölskylduna mína í Flórída og Georgíu um páskana. Þar naut ég aldeilis daganna léttklædd í bátapartíum í góðum 30 gráðum, keyrði pallbíl, fór á ródeó og borðaði suðurríkjamat sem er skelfilega góður. Svo hef ég líka heimsótt systur mína og fjölskyldu hennar í Noregi yfir páska, dekrað guðdóttur mína þar og hlustað á mág minn flytja hið heilaga orð, en hann er þar prestur. Jájá, ég man þá tíð þegar hægt var að hoppa upp í flugvél og skoða heiminn í fríum. Eftirsótt (já þetta er nýyrði) verður vonandi hægt að taka upp þessa iðju á ný, að ferðast um heiminn.“

Björg hefur varið páskunum á Flórída í Bandaríkjunum.
Björg hefur varið páskunum á Flórída í Bandaríkjunum.
Páskarnir á Flórída.
Páskarnir á Flórída. Ljósmynd/Aðsend

En innanlands?

„Já ég hef líka ferðast innanlands um páskana, ég myndi segja að hátíðin Aldrei fór ég suður standi upp úr í því samhengi, sú frábæra hátíð á Ísafirði. Í seinni tíð hefur páskafríið eiginlega orðið meira uppáhaldsfrí en jólin. Um páska eru oft fleiri frídagar í röð, færri boð sem þýðir meiri slökun, engar gjafir, ekkert stress varðandi þrif og fyrst og síðast mannsæmandi birta.“

Björg og vinur hennar Martin í Noregi.
Björg og vinur hennar Martin í Noregi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig voru páskarnir í fyrra? Ferðaðist þú bara innandyra eins og þríeykið hvatti til?

„Í fyrra vorum við í handritateymi Systrabanda að leggja lokahönd á söguna þannig að það voru vinnupáskar. Minnir mig allavega. Annars finnst mér allur þessi Covid-tími renna fullkomlega saman, ég man varla hvað ég gerði í gær.“

Sérðu fyrir þér að skella þér utan um páskana 2022?

„Ég get allavega staðfest að gríðarlegur ferðavilji hefur safnast upp innra með mér varðandi ferðalög erlendis!“

Björg mælir með að fólk hámhorfi Systrabönd um páskana.
Björg mælir með að fólk hámhorfi Systrabönd um páskana. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert