Fjölmiðlakonan, handritshöfundurinn og rithöfundurinn Björg Magnúsdóttir er mikil páskakona og undanfarin ár hafa páskarnir verið hennar uppáhaldsfrí. Hún hefur gert ýmislegt um páskana undanfarin ár. Í ár þykir henni líklegast að hún ferðist innanhúss eins og um síðustu páska.
Það þarf þó enginn að láta sér leiðast um páskana því þættirnir Systrabönd koma inn á Sjónvarp Símans Premium hinn 31. mars en Björg er einn af höfundum þáttannna.
Hvað ætlar þú að gera um páskana?
„Mér sýnist allt stefna í að ég ferðist innanhúss eins og þorri landsmanna.
Góðu fréttirnar varðandi innilokunina sem fylgir 4. bylgju er að glæný íslensk sjónvarpssería, Systrabönd, kemur inn á Símann Premium í dag en ég var einmitt í höfundateyminu. Sagan gerist bæði í fortíð og nútíð en á tíunda áratug síðustu aldar hverfur 14 ára stúlka sporlaust á Snæfellsnesi. 25 árum síðar, eða í nútímanum, finnast jarðneskar leifar hennar og við fylgjum eftir þremur æskuvinkonum sem þurfa að horfast í augu við flókna fortíð sína. Drottningarnar Ilmur Kristjáns, Jóhanna Friðrika, Lilja Nótt, Halldóra Geirharðs og fleiri standa sig frábærlega og ég hlakka sjúklega til sjá þær í sjónvarpinu!!“
Sérðu fram á að stunda útivist um páskana?
„Já, ég stefni á að skoða eldgosið í Geldingadölum og er mjög spennt fyrir því.“
Hefur þú ferðast erlendis um páskana?
„Fyrir tveimur árum heimsótti ég fjölskylduna mína í Flórída og Georgíu um páskana. Þar naut ég aldeilis daganna léttklædd í bátapartíum í góðum 30 gráðum, keyrði pallbíl, fór á ródeó og borðaði suðurríkjamat sem er skelfilega góður. Svo hef ég líka heimsótt systur mína og fjölskyldu hennar í Noregi yfir páska, dekrað guðdóttur mína þar og hlustað á mág minn flytja hið heilaga orð, en hann er þar prestur. Jájá, ég man þá tíð þegar hægt var að hoppa upp í flugvél og skoða heiminn í fríum. Eftirsótt (já þetta er nýyrði) verður vonandi hægt að taka upp þessa iðju á ný, að ferðast um heiminn.“
En innanlands?
„Já ég hef líka ferðast innanlands um páskana, ég myndi segja að hátíðin Aldrei fór ég suður standi upp úr í því samhengi, sú frábæra hátíð á Ísafirði. Í seinni tíð hefur páskafríið eiginlega orðið meira uppáhaldsfrí en jólin. Um páska eru oft fleiri frídagar í röð, færri boð sem þýðir meiri slökun, engar gjafir, ekkert stress varðandi þrif og fyrst og síðast mannsæmandi birta.“
Hvernig voru páskarnir í fyrra? Ferðaðist þú bara innandyra eins og þríeykið hvatti til?
„Í fyrra vorum við í handritateymi Systrabanda að leggja lokahönd á söguna þannig að það voru vinnupáskar. Minnir mig allavega. Annars finnst mér allur þessi Covid-tími renna fullkomlega saman, ég man varla hvað ég gerði í gær.“
Sérðu fyrir þér að skella þér utan um páskana 2022?
„Ég get allavega staðfest að gríðarlegur ferðavilji hefur safnast upp innra með mér varðandi ferðalög erlendis!“