Almannatengillinn Grétar Theódórsson er mikill skíðagarpur og veit fátt betra en að fá sér einn ískaldann bjór eftir að hafa rennt sér niður skíðabrekkurnar. Honum finnst best að vera á Siglufirði um páskana en þar eiga þau hjónin Grétar og Sóley hús og nýta hvert frí til að fara þangað.
Hann hefur þó ferðast víða yfir páskahátíðina og meðal annars eytt páskunum í Bandaríkjunum, Austurríki, Ástralíu, Svíþjóð og Hollandi. Langbest segir hann þó að vera á Siglufirði um páska.
Hvað ætlar þú að gera um páskana?
„Við fjölskyldan erum svo heppin að vera með hús á Siglufirði og förum alltaf norður í dymbilvikunni og erum fram yfir páska. Um páskana er síðan mjög skemmtilegur hópur vina okkar í bænum og það er mikil tilhlökkun fyrir þessu prógrammi hjá okkur. Svona ef fjórða bylgjan setur ekki strik í reikninginn!“
Sérðu fram á að stunda útivist um páskana?
„Ég sé fyrir mér að skíða eins mikið og ég mögulega get, en ég veit ekkert skemmtilegra en að skíða á Sigló með Sóleyju konunni minni og stelpunum okkar tveimur, Iðunni og Sögu. Svo er bjórinn aldrei betri en eftir góðan dag í fjallinu.“
Hefur þú ferðast erlendis um páskana?
„Það er orðið ansi langt síðan ég hef ferðast erlendis um páska en ég hef eytt páskum í Bandaríkjunum, Austurríki, Ástralíu, Sviþjóð og Hollandi. Man satt best að segja ekkert sérstaklega eftir páskum í þessum löndum enda er langbest að vera á Sigló um páskana.“
En innanlands?
„Ég var nokkrum sinnum fyrir vestan um páskana, á Bolungarvík og Ísafirði, þegar ég var yngri, en undanfarin ár hef ég alltaf verið á Sigló.“
Hvernig voru páskarnir í fyrra? Ferðaðist þú bara innandyra eins og þríeykið hvatti til?
„Það var mesti skellurinn í öllu Covid-bíóinu í fyrra að komast ekki til Sigló um páskana. Ég varð fertugur á pálmasunnudag, sama dag og 105 smit greindust, sem var aðeins öðruvísi en ég hafði séð fertugsafmælið fyrir mér. Þrátt fyrir allt áttum við nú bara nokkuð ljúfa páska.“
Sérðu fyrir þér að skella þér utan um páskana 2022?
„Nei, ég sé fyrir mér að vera á Sigló um páskana 2022 enda vil ég hvergi annars staðar vera um páska.“