Tónlistarkonan Ragnhildur Jónasdóttir, betur þekkt sem plötusnúðurinn og Reykjavíkurdóttirin Ragga Holm, ætlar að vera heima í notalegheitum um páskana. Hún væri til í að vera í útlöndum um páskana sem hún hefur enn ekki prófað.
„Ég vildi óska þess að ég gæti sagst vera að fara til útlanda, aðeins að skreppa í hitann en nei nei, ég ætla að eyða páskunum í bænum með Elmu Valgerði kærustunni minni. Kannski bjóða foreldrar og tengdó í góðan mat ef maður er heppinn,“ segir Ragga þegar hún er spurð hvað hún ætli að gera um páskana. Ragga ætlar auk þess að reyna að klára nokkur lög sem hún er með í bígerð og stefnir á að fara inn í sumarið með tvö til þrjú ný lög.
Sérðu fram á að stunda útivist um páskana?
„Ég er sennilega minnsta útivistarmanneskja sem fyrirfinnst. Ég dáist að fólki sem nennir að þvælast út um allt í alls konar veðri og vindum. Kannski ég kíki á þessar gosslóðir, það er voðalega „in“ í dag.“
Hefur þú nýtt páskana til ferðalaga erlendis?
„Eins leiðinlega og það hljómar, þá nei. Ég hef aldrei farið utan um páska. Það er hefð sem ég styð þó alla leið. Ég ætlaði vissulega að skella mér í ár en það er eins og það er, ekki hlaupið í skyndiferðir í dag!“
En innanlands?
„Það er aftur á móti annað. Það var alltaf voðalegt sport þegar ég var krakki að fara í bústað yfir páskana þannig að það var farið hingað og þangað um landið. Ég reyni að halda í þessa hefð en það er svolítið síðan ég fór síðast.“
Hvernig voru páskarnir í fyrra? Ferðaðist þú bara innandyra eins og þríeykið hvatti til?
„Ég fór ekki fet. Við vorum bara heima, földum eggin, fórum í gott matarboð og svo bara heim að slátra þessum eggjum og horfa á sjónvarpið. Einfaldir og góðir páskar.“