„Veðrið er erfitt en náttúra Íslands er mögnuð“

Chris Burkard hjólar yfir hálendi Íslands.
Chris Burkard hjólar yfir hálendi Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Ljósmyndarinn og ævintýramaðurinn Chris Burkard og tveir félagar hans, Angus Morton og Rebecca Rusch, hjóla nú þvert yfir hálendi Íslands í mjög krefjandi aðstæðum. Þau byrjuðu hjólreiðaferð sína fyrir norðan 1. apríl og vonast til að klára ferðina á um viku en þau hjóla þvert yfir hálendið og stefna á að ljúka henni á Vík.

Burkard, sem er mikill hjólreiðakappi, tók þátt í WOW Cyclothon árið 2019. Hann kom þar fyrstur í mark og sló einstaklingsmet keppninnar í leiðinni. Burkard féll fyrir landinu þegar hann kom fyrst til Íslands árið 2006 og er hann búinn að koma á fimmta tug skipta til Íslands síðan þá. Hjólaferðin sem hann er í núna er þó líklega ein sú erfiðasta sem hann hefur farið í. 

Í för með Chris Burkard eru Angus Morton og Rebecca …
Í för með Chris Burkard eru Angus Morton og Rebecca Rusch, Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er búið að ganga vel en það er kalt og veðrið er óútreiknanlegt. Það er hvergi í heiminum svona óútreiknanlegt veður eins og á Íslandi og það er svo fljótt að breytast. Það er mjög kalt, mikill snjór og oft skæður vindur en við erum vel búin og tilbúin að takast á við krefjandi aðstæður,“ segir Burkard um ferðina. 66°Norður er eitt þeirra fyrirtækja sem styðja við bakið á þeim í ferð þeirra yfir hálendið og eru þau klædd í fatnað frá íslenska fataframleiðandanum.

„Við fórum af stað frá Stóru-Brekku og hjóluðum inn á Akureyri fyrsta daginn. Við hjóluðum samtals 120 kílómetra fyrsta daginn og á öðrum degi náðum við rúmlega 70 kílómetrum við mun erfiðari aðstæður. Við hjóluðum af stað frá áningarstað okkar Laugafelli klukkan fimm um morgun, yfir Sprengisand og að Þúfuvötnum þar sem við komumst í kofa. Þetta reynir á en við höldum ótrauð áfram. Veðrið er erfitt en náttúra Íslands er mögnuð,“ segir Burkard enn fremur.

Veðrið í ferðinni hefur verið óútreiknanlegt.
Veðrið í ferðinni hefur verið óútreiknanlegt. Ljósmynd/Aðsend

Hægt er að fylgjast með ferðinni yfir hálendið á instagramsíðu Chris Burkards. Burkard er með 3,6 milljónir fylgjenda á Instagram og má gera ráð fyrir að ferðin sé góð landkynning fyrir Ísland. 

View this post on Instagram

A post shared by ChrisBurkard (@chrisburkard)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert