Sigurður Bjarni Sveinsson er staddur í Nepal með Heimi Fannari Hallgrímssyni en þeir félagar búa sig nú undir að klífa Everest. Sigurður segir þá félaga finna fyrir miklum meðbyr og mikil heppni hafi fylgt ferðalagi þeirra en þeir voru staddir í bænum Namche Bazar í tæplega 3.500 metra hæð á föstudaginn langa þegar ferðavefur mbl.is heyrði í þeim.
„Ferðalagið hefur verið áhugavert en hefur gengið vel þegar á heildina er á litið. Við flugum út með Icelandair 19. mars og millilentum í Kaupmannahöfn og svo í Doha. Við vorum stoppaðir við hliðið þegar við áttum að fara í flug til Doha og okkur tjáð að við værum ekki með fullnægjandi gögn til að komast til Nepal. Við komum aðeins af fjöllum þar sem við fylltum út öll þau gögn sem okkar tengiliður sendi og gátum í raun ekkert í þessu gert. Lögum í Nepal var breytt tveimur dögum fyrir brottför okkar en eftir miklar vangaveltur frá flugfélaginu og nokkur símtöl þá var okkur veitt innganga en öðrum Íslendingi sem átti sama flug var ekki hleypt um borð af sömu ástæðum en hann átti flug til Afríku. Þetta var svona smá tuska í andlitið hvað varðar aðstæður til ferðalaga og hve lítið má út af bregða. Eftir ævintýrið í Danmörku gekk ferðalagið mjög vel og óhindrað,“ segir Sigurður.
Þurftu þið að fara í sóttkví?
„Við mættum til Katmandú og gerðum ráð fyrir að þurfa að vera í sóttkví í fimm daga á hótelherbergi. Reglum um sóttkví við komu til Nepal var aflétt degi eftir að við lentum svo við gátum notað þann auka tíma í Katmandú til að redda því sem átti eftir að græja fyrir ferðalagið. Eftir nokkra daga þá veiktist Heimir og mældist með hita í nokkra daga. Við ákváðum því að fresta för til Lukla um tvö daga en á sama tíma urðu miklir skógareldar nálægt Katmandú og í fjalllendi sem skapaði mikla mengun og lítið skyggni. Þar af leiðandi lá allt innanlandsflug niðri í nokkra daga. Við lögðum á ráðin með Ang, sem er okkar hægri hönd við skipulag leiðangursins, og gerðum plön ef flugið gengi ekki upp. Eini möguleiki okkar fyrir utan flugið var 16 klukkustunda akstur í afar krefjandi landslagi og átta klukkustunda ganga til að komast upp í Lukla, í stað 40 mínútna flugs frá Katmandú,“ segir Sigurður um komuna til Nepal. Lukkan var með þeim og Ang, félagi þeirra, kom þeim í flug morguninn 31. mars. Sigurður segir að nánast ekkert skyggni hafi verið í fluginu en reyndir flugmenn Tara airlines komu þeim á áfangastað. Flug þeirra Sigurðar og Heimis var eina flugið þá vikuna.
Hvað eru þið að gera núna til þess að undirbúa ykkur?
„Með því að komast í Khumbu-dalinn héldum við ótrauðir áfram í mjög góðri stemningu, við ræðum oft um hversu mikil lukka er yfir öllu ferðalaginu og hvað allt hefur gengið okkur í hag þrátt fyrir miklar hindranir í umhverfinu. Við erum núna staddir í Namche Bazar, í 3.450 metra hæð, þar sem við höfum verið að hæðaraðlaga og „mingla“ við klifurhópa sem eru að leggja í leiðangra. Héðan ætlum við að taka góða stund í göngu upp í grunnbúðir og fara afleið sem liggur yfir tvo hryggi sem ná yfir 5.000 metra hæð og um vötn sem heita Gokyo. Með því vonumst við til að koma vel hæðaraðlagaðir í grunnbúðir og getum byrjað að vinna fljótlega í aðlögun fyrir Everest sjálft,“ segir Sigurður.
„Verkefnið er klárlega orðið raunverulegra núna. Við horfðum yfir á Everest í dag og það vakti tilhlökkun og stemningu. Það var svolítið skrítið að vera í leiðangri og vera fastur í mengun í Katmandú og verkefnið var aðeins óraunverulegt þar. En núna erum við mjög vel stemmdir og með fulla einbeitingu. Það hjálpar einnig til að hafa hitt frábæran hóp sherpa-klifrara sem munu vinna á Everest og sýna okkur mikinn stuðning.
Það hefur komið okkur gríðarlega á óvart hversu mikinn stuðning við höfum fengið hjá heimafólki vegna verkefnisins þegar það heyrir að þetta sé styrktarleiðangur og allir vilja rétta fram hjálparhönd. Okkur finnst við vera umvafðir mikilli þekkingu og stuðningsaðilum. Sá sem fer fyrir okkar leiðangri, Ang, nýtur sérstaklega mikillar virðingar meðal heimamanna. Hann ákvað að slást í hóp með okkur frítt til að styðja Umhyggju-verkefnið og verður þetta hans síðasta klifur á Everest. Það er mikill heiður fyrir okkur að hann sláist í hópinn og taki svona mikinn þátt með okkur. Við höfum lagt upp með að við klífum allir sem ein heild, eitt teymi, og deilum með okkur verkefnum sem þurfa að vinnast til að ná tindi Everest.“
Félagarnir segja það einnig hafa veitt þeim mikla hvatningu og stuðning að sjá hversu vel söfnunin fyrir Umhyggju fór af stað. Þeir benda á að enn sé hægt að styrkja Umhyggju á Facebook-síðunni Með Umhyggju á Everest og á Instagram-síðu Umhyggju. Þar er hægt að styrkja félagið og rennur allur ágóði beint til Umhyggju – félags langveikra barna.