Harpa Hrund Berndsen áhugakona um bresku konungsfjölskylduna segist hafa fengið smá áfall þegar hún sá fréttir um lát Filippusar prins. Harpa hefur ferðast til Bretlands og mætt á viðburði þar sem konungsfjölskyldan hefur verið stödd. Ef ekki væri fyrir kórónuveiruna hefði Harpa líklega flogið út og verið í Bretlandi þegar jarðarför Filippusar fer fram.
Filippus prins var 99 ára þegar hann lést og segir Harpa látið í raun ekki koma á óvart. „Þetta var viðbúið en maður hélt nú samt að hann væri ódauðlegur en hann var orðinn svolítið illa farinn.“
Harpa hefur haft mikinn áhuga á konungsfjölskyldunni síðan hún var unglingur. „Ég hef mikið fylgst með þeim og fór einu sinni og hitti Filippus og drottninguna. Það var í Preston á Englandi. Við vorum í smá pílagrímaferð og vorum búin að skoða dagskrána þeirra. Við vissum að þau ættu að vera þar einn tiltekinn dag og fórum bara þangað. Það var mjög skemmtilegt. Það voru svo fáir þarna, þetta var á einhverri lestarstöð. Þetta var mjög skemmtileg upplifun,“ segir Harpa og bætir við að hún hafi séð flesta úr konungsfjölskyldunni.
Filippus var umdeildur en Harpa segir litríka persónu hans skemmtilega. „Ég hef alltaf haft mjög gaman af honum. Hann kunni sig ekki alltaf en ég held að maður þurfi að gefa honum það að hann var 99 ára. Hann hefur upplifað meira en við flest. Mér fannst hann gefa konungsfjölskyldunni skemmtilegan lit með húmornum sínum og hvernig hann var svona blátt áfram.“
Varstu farin að hugsa út í 100 ára afmælið?
„Ég var búin að hugsa að fara út til Bretlands þá en svo hefur Covid auðvitað sett svolítið strik í reikninginn. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði ég örugglega farið út núna líka. Þegar Harry og Meghan giftu sig var ég í Windsor fyrir utan kirkjuna.“
Harpa gerir ráð fyrir að jarðarförinni verði sjónvarpað og á von á því að fylgjast með henni heima hjá sér. „Það verður líklega eitthvert boð heima hjá mér þar sem við drekkum te úr konunglegum bollum honum til heiðurs.“