Margir elska að taka upp vegabréfið sitt og hoppa upp í flugvél. Tónlistarmaðurinn Justin Bieber fékk hins vegar fljótt nóg af ferðalögum og var bara unglingur þegar hann reyndi að fela vegabréfið sitt fyrir yfirmönnum sínum.
Bieber sem er kanadískur flaug til Toronto stuttu eftir að hann skrifaði undir fyrsta plötusamninginn sinn. Hann var bara strákur og var kominn með nóg af frægðinni og endalausum ferðalögum.
„Ég vann svo mikið að þegar ég var ungur varð ég mjög leiður, ég saknaði vina minna og hversdagsins. Svo ég og vinur minn földum vegabréfið mitt. Plötufyrirtækið fór yfir um,“ sagði Bieber í viðtali við GQ. Yfirmenn hans hjá plötufyrirtækinu sögðu að hann þyrfti á vegabréfinu að halda, hann ætti að mæta í Today-sjónvarpsþáttinn í næstu viku.
„Ég ætlaði að gera allt til þess að verða venjulegur á þessum tíma,“ sagði Bieber sem að lokum játaði að hafa falið vegabréfið sitt. Fólk varð áhyggjufullt og hann var spurður hvort það væri í lagi með hann. Bieber leið ekki vel en þrátt fyrir það fór allt á fullt og hann flaug til Bandaríkjanna til þess að koma fram í sjónvarpsþættinum.