Stefna á að bjóða gestum bólusetningu

Maldíveyjar stefna á að bjóða ferðamönnum bóluefni þegar öll þjóðin …
Maldíveyjar stefna á að bjóða ferðamönnum bóluefni þegar öll þjóðin er fullbólusett. Ljósmynd/Pexels/Asad Photo Maldives

Maldíveyjar stefna á að útbúa sérstakan ferðapakka fyrir þá ferðamenn sem vilja heimsækja eyjarnar og eiga eftir að fá bólusetningu við kórónuveirunni. Er það gert í þeim tilgangi að laða fleiri ferðamenn að. 

Abdulla Mausoom, ferðamálaráðherra Maldíveyja, staðfesti við CNN Travel að svokallaður 3V-pakki væri í vinnslu; „Visit, Vaccinate and Vacation“ eða heimsókn, bólusetning og frí. 

Stefnt er að því að gefa gestum tvo skammta af bóluefni og því þurfa þeir sem hafa áhuga á pakkanum að skuldbinda sig til þess að dvelja þar í nokkrar vikur. 

Vonir standa til að þetta muni bæta ferðamennsku á Maldíveyjum en þær heimsóttu 1,7 milljónir á hverju ári fyrir heimsfaraldurinn. 

3V-pakkinn er þó ekki enn kominn í sölu og mun ekki fara í sölu fyrr en allir heimamenn eru bólusettir að fullu en 550.000 búa á öllum eyjunum. Nú þegar hafa um 53% þjóðarinnar verið bólusett.

„Þegar þjóðin er bólusett, þá höldum við áfram með 3V,“ sagði Mausoom.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert