Vonarskarð, perlan að baki jöklanna

Hverasvæði í Vonarskarði.
Hverasvæði í Vonarskarði. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Heitir fossandi lækir hverfa í svartan sand á víðáttum vatnaskila Norður- og Suðurlands. Litríkt hverasvæði í öllum regnbogans litum leynist hátt í hlíð en sunnar gnæfir líparítfjallið Skrauti yfir Tvílitaskarði. Tignarlegir jöklar standa vörð hvor sínum megin. Heillandi staður í hjarta hálendisins sem er þó fáum kunnur. Þetta er Vonarskarð.

Heitir fossandi lækir hverfa í svartan sand á víðáttum vatnaskila Norður- og Suðurlands. Litríkt hverasvæði í öllum regnbogans litum leynist hátt í hlíð en sunnar gnæfir líparítfjallið Skrauti yfir Tvílitaskarði. Tignarlegir jöklar standa vörð hvor sínum megin. Heillandi staður í hjarta hálendisins sem er þó fáum kunnur. Þetta er Vonarskarð.

Vonarskarð er án efa meðal fámennustu staða á Íslandi. Það liggur milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls í um 900-940 m hæð yfir sjó. Skarðið er 12-13 km breitt milli jökla og 15-20 km á lengd. Mynni Vonarskarðs að norðan er ýmist talið vera milli Fljótsborgar og Gæsahnjúks eða Fljótsborgar og Tindafells en að sunnan milli Svarthöfða og Fremsta-Bálkafells.

Í Vonarskarði ríkir sannkölluð óbyggðastemning og öræfakyrrð.
Í Vonarskarði ríkir sannkölluð óbyggðastemning og öræfakyrrð. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Skarðið er gróðurlaust að kalla en náttúrufar þess er þó harla fjölbreytt. Sérstaklega er það jarðhiti sem setur svip á skarðið en sunnarlega í vesturhlíðum þess er allmikið líparítsvæði með litauðugum skriðum og hefur einn hnjúkur þar verið nefndur Skrauti og hjá honum Tvílitaskarð. Í vesturhlíð skarðsins undir Eggju er stórt hverasvæði með afar litríkum útfellingum. Í hlíðunum undir hverasvæðinu eru mosateygingar með strjálum háplöntugróðri sem eflaust á jarðhitanum tilvist sína að þakka. Þar heitir Snapadalur og dregur nafn sitt af þeim gróðursnöpum sem þar er að finna. Í Snapadal eru vatnsmiklir heitir lækir sem gefa ferðamönnum færi á baði.

Botn Vonarskarðs er sléttur hið syðra og á söndunum fram af Snapadal rís stakur píramídalagaður hnjúkur sem heitir Deilir. Þar úti á sandsléttunum eru vatnaskil milli Norður- og Suðurlands. Sytrur og lækir sem falla úr austri og vestri safnast saman á sandinum sem getur virst allur í vatni. Vötnin sem falla suður af eru efstu upptök Köldukvíslar og þau sem falla til norðurs eru upptakakvíslar Skjálfandafljóts. Vatnaskilin eru á móts við Deili og gefa honum nafn. Um það bil í miðju skarði gengur fram lágur háls sem endar í Valafelli og austan standa hvassir móbergskollar sem heita Hníflar. Skarðið á hálsinum heitir Gjósta eða Gjóstuskarð og þangað er akfær vegur af vegi norðan Tungnafellsjökuls. Frá Gjóstu er um klst. gangur í Snapadal að heitu lækjunum.

Skarðið er gróðurlaust að kalla en náttúrufar þess er þó …
Skarðið er gróðurlaust að kalla en náttúrufar þess er þó harla fjölbreytt. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Frá skála Ferðafélags Íslands í Nýjadal er stikuð leið inn brúnir Nýjadals, þar heitir Mjóháls, og í skarðið milli Eggju og Laugakúlu og er þá skammt niður að hverasvæðinu. Hægt er að fara þessa leið á einum degi fyrir lausgangandi ferðalanga. Fyrstu sagnir um ferðir á þessum slóðum er að finna í Landnámu. Þar segir að Bárður sonur Heyangurs-Bjarnar hafi numið land í Bárðardal og búið á Lundarbrekku. „Þá markaði hann at veðrum, at landviðri váru betri en hafviðri ok ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um gói. Þá fundu þeir góibeitla ok annan gróður. En annat vor eftir, þá gerði Bárðr kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, og lét hvat draga sitt fóðr og fjárhlut. Hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi ok bjó að Gnúpum. Þá var hann kallaðr Gnúpa-Bárður.“

Þessa leið frá Lundarbrekku og suður að Gnúpum í Fljótshverfi kallar Haraldur Matthíasson Bárðargötu og lýsir henni í árbók FÍ 1963. Haraldur telur nafnið Vonarskarð nafngift Bárðar sem bendir til að hann hafi komist í hann krappan norðan jökla. Þegar kemur suður í skarðið fer að sjást til kennileita á Suðurlandi. Ekki er ósennilegt að sú sýn hafi fyllt hann eldmóði og hleypt í hann kjarki um að nú mundi takmarkinu náð. Engar heimildir eru til um ferðir um Vonarskarð fyrr en á 19. öld. Þegar Björn Gunnlaugsson fór ásamt Sigurði fylgdarmanni sínum norður Vonarskarð og austur á land. Björn, spekingurinn með barnshjartað, kenndi stærðfræði, stjörnufræði og ýmsar greinar náttúruvísinda við Bessastaðaskóla. Elskaður og virtur af nemendum sínum. Hann varð frumkvöðull í nútímalegri kortagerð á Íslandi. Seint á 19. öld kom svo Þorvaldur Thoroddsen í Vonarskarð og gerði jarðfræðiúttekt á því og má það heita fyrsta nútímarannsóknin á svæðinu.

Á okkar tímum er fáfarið um Vonarskarð þótt svartir sandar, litrík fjöll, heitir lækir og hverir og tignarlegir jöklar geri skarðið að einu best varðveitta leyndarmáli á hálendi Íslands. Á vetrum fara jeppamenn stundum í gegnum Vonarskarð í vetrarríki en á sumrin koma þar stöku gönguhópar. Gönguferð í Vonarskarð er þó ekki erfitt verkefni og líklega við hæfi flestra sem stunda útivist.

Heimildir: Leifur Þorsteinsson, árbækur FÍ. palli@fi.is

Vonarskarð er einn fáfarnasti staður á hálendi Íslands.
Vonarskarð er einn fáfarnasti staður á hálendi Íslands. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert