Áhrifavaldurinn Brynjólfur Löve Mogensson eða Binni Löve upplifði langþráðan draum um síðustu helgi þegar hann fór í þyrluskíðaferð fyrir norðan.
„Ég er búinn að vera á snjóbretti síðan ég var krakki, fékk fyrsta brettið 12 ára gamall. Síðustu ár hefur hugmyndin um að fljúga upp á fjöll með þyrlu og renna sér niður verið algjör draumur,“ segir Binni um brettaáhugann.
Binni byrjaði ferðina á því að ganga á fjöll á svokölluðu splittbretti (e. splitboard) sem er snjóbretti sem er hægt að taka í sundur og nota eins og fjallaskíði.
„Splitboardið er algjörlega ný upplifun fyrir mér og var þetta fyrsta skiptið mitt á slíku bretti. Síðan tók við heill dagur af þyrluskíðaferð með Summit Heliskiing þar sem okkur var flogið í þyrlu upp á átta tinda á Tröllaskaganum og síðan renndum við okkur niður, það er ein magnaðasta upplifun lífs míns og algjör draumur að rætast,“ segir Binni.
„Hópurinn gisti á Ólafsfirði og gekk meðal annars upp á Múlakollu. Með þyrlunni fórum við síðan upp á alls kyns tinda í kringum Siglufjörð og Ólafsfjörð og enduðum þetta svo á Hestskarðshnjúki sem trónir yfir Siglufirði og er algjört draumafjall fyrir skíða- og brettafólk með ágætisreynslu.“
Er það þess virði að ganga upp fjöll þegar maður getur tekið lyftu og rennt sér niður?
„Já veistu, það er eitthvað við það að þurfa að vinna fyrir ferðinni niður, rennslið verður meira þess virði og þú nýtur þín enn betur vitandi að þú hafir gengið upp. Svo er það auðvitað frábær líkamsrækt og gefur hópnum tækifæri til að spjalla saman og njóta útsýnisins og fjallanna.“
Hver er munurinn að fara í þyrlu upp eða ganga?
„Þyrlan er meira „action“, það er ákveðið verklag sem þarf að læra í umgengni við þyrlu auk þess að krafturinn í þyrlunni er rosalegur. Svo er alveg geggjað að fljúga yfir fjöllin og horfa yfir allan Tröllaskagann. Þar fengum við auðvitað leiðsögumann frá Summit Heliskiing sem þekkir svæðið ótrúlega vel og vísar manni réttar leiðir niður brekkurnar. Það var ótrúlega gaman að fara þarna í fylgd með fagmönnum sem hafa skíðað um svæðið í fjölda ára. Gangan er rólegri og hægara tempó en allt öðruvísi upplifun.“