Stuttu eftir að Marteinn Urbancic útskrifaðist úr námi í viðskiptafræði frá University of West Florida fann hann að „níu til fimm“ skrifstofulífið var ekki fyrir sig og ákvað að skipta um stefnu. Marteinn skráði sig í atvinnuflugnám við Flugakademíu Keilis, sem síðar sameinaðist Flugskóla Íslands og saman mynda skólarnir Flugakademíu Íslands.
„Ég hafði haft augastað á fluginu í nokkur ár en hafði alltaf haldið áfram í viðskiptafræðinni þar sem það gekk vel að læra þrátt fyrir að hafa fundist námið óspennandi. Ég ákvað því að breyta til og læra eitthvað sem mér þætti spennandi og skráði mig í flugnám. Ég féll strax fyrir fluginu eftir fyrsta kynningarfund og sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun að hafa breytt um stefnu,“ segir Marteinn.
Marteinn byrjaði í flugnáminu í nóvember árið 2017 og útskrifaðist úr bóklega hlutanum í maí árið 2019. Við tók verklegur hluti námsins sem lauk í mars árið 2020 og fékk hann því atvinnuflugmannsskírteinið afhent sama dag og fyrsta samkomubannið var sett á hérlendis.
Þrátt fyrir óheppilega tímasetningu hefur Marteinn nýtt tímann vel undanfarið ár. Hann skráði sig í flugklúbb, tók að safna flugtímum og horfir bjartsýnn til framtíðar.
„Flugið býður upp á svo margt, ekki bara á Íslandi. Það er hægt að ráða sig í störf úti um allan heim og eru margir spennandi staðir í boði til að fá reynslu,“ segir hann.