Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar að ganga á tind Hvannadalshnjúks á morgun, 1. maí. Áslaug gengur ásamt vöskum flokki kvenna til styrktar góðgerðarfélaginu Lífskrafti sem safnar nú fyrir bættri aðstöðu á kvennadeild Landspítala.
„Grunnurinn að þessu er að sigra lífið og sigra fjöllin, halda áfram og stefna hátt. Það er eitthvað sem á vel við mig og ég fékk að vera verndari göngunnar og verkefnisins í fyrra. Það er mikill heiður að geta tekið þátt í þessu og fá að vera hluti af þessum hópi,“ segir Áslaug.
Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, eða Sirrý, er aðalkonan á bak við Lífskraft en hún gekk með hópi kvenna þvert yfir Vatnajökul á síðasta ári. „Hún er búin að hvetja okkur og halda okkur við efnið með æfingum undanfarna mánuði,“ segir Áslaug og bætir við að hún sé þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Sirrý og vinna að þessu verkefni með henni.
Gangan var á dagskrá á síðasta ári en ákveðið var að fresta henni um ár vegna heimsfaraldursins. Öllu verður þó farið með gát í ferðinni og ganga aðeins sjö á hverri línu.
„Það er rosalega gott að sækja sér lífskraftinn á fjöllum og ná árangri með að toppa svona fjall. Ég er búin að reyna að halda mér við á milli anna,“ segir Áslaug. Hún segir að maður komi alltaf ferskari til baka úr fjallaferðum, hvort sem það sé í vinnu eða önnur verkefni.
Verkefnið stendur Áslaugu nærri en móðir hennar, Kristín Steinarsdóttir, lést úr krabbameini árið 2012. „Ég þekki þetta af eigin raun að vera aðstandandi í gegnum svona stór verkefni og því fannst mér einstakt að Sirrý leitaði til mín og að hún hafi lært af mínu viðhorfi,“ segir Áslaug.
Dagurinn, 1. maí, er sérstakur dagur lífi Áslaugar Örnu en það er fæðingardagur móður hennar. „Við höfum alltaf, bæði þegar hún var á lífi og eftir að hún féll frá, haldið þennan dag hátíðlegan eins og hún hefði viljað. Það verður algjörlega magnað að standa á toppi Hvanndalshnjúks, ef allt gengur eftir, á hennar degi. Ætli hún passi ekki upp á mann svo þetta fari allt vel fram,“ segir Áslaug.
Hægt er að styðja við Lífskraft með því að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR-appinu í síma 789-4010.
Einnig er SMS-söfnun í gangi:
LIF1000 SMS sent í 1900 = 1.000 kr.
LIF3000 SMS sent í 1900 = 3.000 kr.
LIF5000 SMS sent í 1900 = 5.000 kr.
LIF10000 SMS sent í 1900 = 10.000 kr.
Allur ágóði rennur til uppbyggingar nýrrar krabbameinsdeildar á Landspítalanum.