Stutt er síðan Katrín hertogynja og Vilhjálmur prins fögnuðu tíu ára brúðkaupsafmæli. Af því tilefni hafa fjölmiðlar ytra verið duglegir að rifja upp brúðkaup þeirra. Þar á meðal eru frásagnir um sprengjuógn fyrir brúðkaupið þeirra sem almennt hefur lítið verið fjallað um. Þar leikur Goring-hótelið í London stórt hlutverk en Katrín gisti þar nóttina fyrir brúðkaupið.
Í heimildarmynd ITV um brúðkaupsdaginn þeirra rifjar þáverandi lögreglustjóri, Bob Broadhurst, upp atvikið. Hann segir lögregluna hafi verið á varðbergi gagnvart einstaklingum sem voru með konungsfjölskylduna á heilanum.
Lögreglan vaktaði sérstaklega Goring hótelið í Belgravia og lokaði fyrir allri almennri umferð. Aðeins tuttugu mínútum áður en Katrín átti að yfirgefa hótelið fékk lögreglan fréttir af konu að aka um svæðið.
„Ég veit ekki hvernig það gerðist og vil eiginlega ekki vita það. En einhverjum tókst að komast inn fyrir vaktaða svæðið, keyrði upp að Goring-hótelinu og fór út úr bílnum og hvarf í þvögu fólks sem safnast hafði saman þar.“
„Þetta var raunverulegt vandamál. Hugsanlega var sprengja í bílnum. Bíllinn var svo nærri inngangi hótelsins og hugsanlega gætum við ekki komið Katrínu og fylgdarliði hennar út í tæka tíð fyrir athöfnina.“
„Sprengjusérfræðingarnir okkar komu fljótt og úrskurðuðu að ekki væri sprengja í bílnum. Þá var hægt að halda upprunalegri áætlun. Aumingja einstaklingurinn sem átti bílinn. Kannski var þetta túristi sem vissi ekkert hvað hann var að gera. En bíllinn var í slæmu ásigkomulagi eftir atvikið, með engar hurðir og stöðumælasekt.“