Eins og skrúfað væri frá krana í Bandaríkjunum

Erling Aspelund og Kristín Björnsdóttir reka Iceland Encounter.
Erling Aspelund og Kristín Björnsdóttir reka Iceland Encounter. Ljósmynd/Lárus Karl Ingason

Vél bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines lenti á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun. Meirihluti farþega um borð voru bólusettir bandarískir ferðamenn sem halda nú á vit ævintýranna á Íslandi. Erling Aspelund, eigandi ferðaskrifstofunnar Iceland Encounter, segir að þegar ríkisstjórnin tilkynnti um opnun landamæra fyrir bólusettum ferðamönnum frá ríkjum utan Schengen hafi fjöldi bókana borist að vestan og ekkert lát sé á.

„Það fór allt mjög hratt af stað, eins skrúfað væri frá krana bókstaflega,“ segir Erling. Vel gengur að bólusetja í Bandaríkjunum og segist Erling strax hafa greint annan tón í fólki þar. „Menn eru fullir sjálfstrausts og ferðavilja. En þeir hafa ekki marga áfangastaði til að velja um. Þannig að þegar Ísland opnaðist vakti það strax athygli, og við fundum fyrir því,“ segir Erling.

Iceland Encounter býður upp á sérferðir fyrir ferðamenn og undanfarin ár hafa um 90% viðskiptavina þeirra komið frá Bandaríkjunum. Erling og eiginkona hans, Kristín Björnsdóttir, reka fyrirtækið saman og í vetur voru þau orðin tvö eftir af starfsliði fyrirtækisins. Venjulega eru þau um átta en vegna heimsfaraldursins þurftu þau að segja upp starfsfólki. Þegar allt fór af stað aftur gátu þau ráðið inn fleira fólk aftur.

Vél Delta Air Lines lenti á Keflavíkurflugvelli í gær.
Vél Delta Air Lines lenti á Keflavíkurflugvelli í gær. Sigurður Unnar Ragnarsson

„Þetta fór hraðar af stað en við bjuggumst við. Fyrir heimsfaraldur vorum við með viðskiptavini frá Asíu og Evrópu en við höfum ekki fundið fyrir eftirspurn þaðan núna.“

Erling segir að fleiri fyrirtæki sem sérhæfi sig í Bandaríkjamarkaði hafi sömu sögu að segja. Þeir sem eru með sterk viðskiptasambönd í Bretlandi og Evrópu hafi þó fundið aðeins fyrir áhuga þaðan.

Fyrri hluti sumars gæti orðið góður

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að það séu nú góðar vísbendingar um að maímánuður verði góður. Vélar frá Bandaríkjunum haldi áfram að koma til landsins og þær séu vel bókaðar. „Maður heyrir það í kringum sig að bókanir séu að taka við sér, ekki bara í vor, heldur í sumar og fram á haust. Þetta eru allt merki um bata,“ segir Skarphéðinn. Hann segir að vonir hafi staðið til að seinni hluti sumars og haustið yrði gott en nú séu vísbendingar um að markaðir séu að taka fyrr við sér. „Það er fullbratt að segja að ferðamannasumarið sé hafið, en þetta er góð byrjun,“ segir Skarphéðinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert