Hvar er ódýrasta baðlaugin á Íslandi?

Sjóböðin við Húsavíkurhöfða.
Sjóböðin við Húsavíkurhöfða. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Sjaldan hefur verið betra tækifæri en nú til að nýta sér okkar himnesku baðlaugar áður en þær fyllast aftur þegar ferðatakmarkanir verða rýmkaðar.

Bláa Lónið 

Drottning baðlauga á Íslandi. Nú þegar margir eru á leiðinni að kíkja öðru sinni á eldgosið, hvernig væri þá að verðlauna sig eftir gönguna með því að slaka vel í bláa undrinu. Ekki skemmir fyrir að verðið er 50% lægra en á háannatíma, 6.990.- fyrir fullorðna og frítt fyrir börn á aldrinum 2-13 ára. Opið alla daga.

Bláa lónið.
Bláa lónið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sky Lagoon Kársnesi

Ný og glæsileg baðlaug hefur opnað í 200 Kópavogi, nánar tiltekið á Kársnesinu. Baðlaugin hefur náttúrulegt lón sem ligg­ur við sjó­inn og er 75 metra lang­ur „óend­an­leikakant­ur“ sem ætlað er að gefa þá til­finn­ingu að him­inn og haf renni sam­an þegar horft er úr lón­inu. Sky Lagoon er aðeins fyrir fullorðna og verðið er frá 5.990.- Opið alla daga.

Sky Lagoon á Kársnesi.
Sky Lagoon á Kársnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laugarvatn Fontana Spa

Ef þú elskar gufubað þá áttu eftir að njóta þín vel í Fontana Spa á Laugarvatni.  Gufuböðin eru staðsett beint yfir gufuhvernum fræga sem heimamenn og gestir hafa nýtt til heilsubaða í heila öld. Auk þess er unnt að baða sig í heilsubaðvatni í þrískiptri baðlaug. Daglega er svo boðið upp á rúgbrauðsbakstur sem er grafinn í heitan sand og gestum gefinn kostur á að smakka, skemmtilegt fyrir börnin. Vortilboð er sem stendur, 2.500.- og frítt fyrir börn yngri en 12 ára. Opið frá föstudögum til sunnudags.

Gamla gufubaðið var reist árið 1930.
Gamla gufubaðið var reist árið 1930. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Secret Lagoon

Gamla Lauginn á Flúðum í Hrunmannahrepp er elsta sundlaug landsins, gerð 1891. Kringum laugina eru margir hverir, þar af einn goshver sem gýs á nokkurra mínútna fresti. Vatnið úr hverasvæðinu í kringum laugina hitar hana upp. Verð er 3.000.- og frítt fyrir börn yngri en 14 ára.

Gamla Laugin á Flúðum
Gamla Laugin á Flúðum

Krauma Náttúrulaugar

Skammt norðan Deildartunguhvers standa Krauma – náttúrulaugar. Náttúrulaugarnar innihalda hreint og tært vatn, beint úr Deildartunguhver sem kælt er með vatni undan öxlum Oks. Laugarnar eru sex talsins, fimm heitar og ein köld. Fullorðnir greiða 4.500.- og 300 krónur fyrir börn. Opið frá fimmtudegi til sunnudags.

Krauma í Borgarfirði.
Krauma í Borgarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Geosea

Sjóböðin opnuðu á Húsavíkurhöfða við Skjálfanda fyrir þrem árum. Ári síðar rötuðu þau á lista TIME yfir einn af 100 áhugaverðustu stöðum til að heimsækja. Útsýnið út á Skjálfandaflóa og til Kinnarfjalla er afar tilkomumikið og draumi líkast við sólsetur. Fullorðnir greiða 4.900.- og börn 6-16 ára greiða 2.200.- Opið alla daga.

Sjóböðin á Húsavík við Skjálfanda.
Sjóböðin á Húsavík við Skjálfanda. Ljósmynd/Aðsend

Jarðböðin við Mývatn

Baðlónið var opnað 2004, en heit jarðböð hafa þó verið stunduð hér til heilsubótar allt frá landnámsöld.  Hitastig baðlónsins er 36°-39° og vatnið er steinefnaríkt og basískt sem gerir það frábært til böðunar. Til vesturs yfir Mývatnssveitina er útsýnið einstakt. Fullorðnir greiða 5.700.- og börn yngri en 12 ára fá frítt inn. Opið alla daga.

Jarðböðin í Mývatnssveit.
Jarðböðin í Mývatnssveit. Ljósmynd/Aðsend

 Vök Baths

Vök Baths eru heitar náttúrulaugar sem eru staðsettar á bökkum Urriðavatns við Egilsstaði. Jarðhitinn í Urriðavatni uppgötvaðist á sínum tíma þegar ákveðnar vakir, svokallaðar Tuskuvakir, héldu sér á vatninu sama hvernig frysti. Til að tengja náttúrulaugarnar betur við sögu staðarins eru Vakirnar aðal kennimerki Vök Baths en það eru tvær laugar sem fljóta á vatninu. Fullorðnir greiða 5.500.- og börn 6-16 ára greiða 1.900.- Opið alla daga.

Vök Baths.
Vök Baths. Ljósmynd/Vök
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert