Sjaldan hefur verið betra tækifæri en nú til að nýta sér okkar himnesku baðlaugar áður en þær fyllast aftur þegar ferðatakmarkanir verða rýmkaðar.
Bláa Lónið
Drottning baðlauga á Íslandi. Nú þegar margir eru á leiðinni að kíkja öðru sinni á eldgosið, hvernig væri þá að verðlauna sig eftir gönguna með því að slaka vel í bláa undrinu. Ekki skemmir fyrir að verðið er 50% lægra en á háannatíma, 6.990.- fyrir fullorðna og frítt fyrir börn á aldrinum 2-13 ára. Opið alla daga.
Sky Lagoon Kársnesi
Ný og glæsileg baðlaug hefur opnað í 200 Kópavogi, nánar tiltekið á Kársnesinu. Baðlaugin hefur náttúrulegt lón sem liggur við sjóinn og er 75 metra langur „óendanleikakantur“ sem ætlað er að gefa þá tilfinningu að himinn og haf renni saman þegar horft er úr lóninu. Sky Lagoon er aðeins fyrir fullorðna og verðið er frá 5.990.- Opið alla daga.
Laugarvatn Fontana Spa
Ef þú elskar gufubað þá áttu eftir að njóta þín vel í Fontana Spa á Laugarvatni. Gufuböðin eru staðsett beint yfir gufuhvernum fræga sem heimamenn og gestir hafa nýtt til heilsubaða í heila öld. Auk þess er unnt að baða sig í heilsubaðvatni í þrískiptri baðlaug. Daglega er svo boðið upp á rúgbrauðsbakstur sem er grafinn í heitan sand og gestum gefinn kostur á að smakka, skemmtilegt fyrir börnin. Vortilboð er sem stendur, 2.500.- og frítt fyrir börn yngri en 12 ára. Opið frá föstudögum til sunnudags.
Secret Lagoon
Gamla Lauginn á Flúðum í Hrunmannahrepp er elsta sundlaug landsins, gerð 1891. Kringum laugina eru margir hverir, þar af einn goshver sem gýs á nokkurra mínútna fresti. Vatnið úr hverasvæðinu í kringum laugina hitar hana upp. Verð er 3.000.- og frítt fyrir börn yngri en 14 ára.
Krauma Náttúrulaugar
Skammt norðan Deildartunguhvers standa Krauma – náttúrulaugar. Náttúrulaugarnar innihalda hreint og tært vatn, beint úr Deildartunguhver sem kælt er með vatni undan öxlum Oks. Laugarnar eru sex talsins, fimm heitar og ein köld. Fullorðnir greiða 4.500.- og 300 krónur fyrir börn. Opið frá fimmtudegi til sunnudags.
Geosea
Sjóböðin opnuðu á Húsavíkurhöfða við Skjálfanda fyrir þrem árum. Ári síðar rötuðu þau á lista TIME yfir einn af 100 áhugaverðustu stöðum til að heimsækja. Útsýnið út á Skjálfandaflóa og til Kinnarfjalla er afar tilkomumikið og draumi líkast við sólsetur. Fullorðnir greiða 4.900.- og börn 6-16 ára greiða 2.200.- Opið alla daga.
Jarðböðin við Mývatn
Baðlónið var opnað 2004, en heit jarðböð hafa þó verið stunduð hér til heilsubótar allt frá landnámsöld. Hitastig baðlónsins er 36°-39° og vatnið er steinefnaríkt og basískt sem gerir það frábært til böðunar. Til vesturs yfir Mývatnssveitina er útsýnið einstakt. Fullorðnir greiða 5.700.- og börn yngri en 12 ára fá frítt inn. Opið alla daga.
Vök Baths
Vök Baths eru heitar náttúrulaugar sem eru staðsettar á bökkum Urriðavatns við Egilsstaði. Jarðhitinn í Urriðavatni uppgötvaðist á sínum tíma þegar ákveðnar vakir, svokallaðar Tuskuvakir, héldu sér á vatninu sama hvernig frysti. Til að tengja náttúrulaugarnar betur við sögu staðarins eru Vakirnar aðal kennimerki Vök Baths en það eru tvær laugar sem fljóta á vatninu. Fullorðnir greiða 5.500.- og börn 6-16 ára greiða 1.900.- Opið alla daga.