„Ég gekk fyrir elsku Emmý systur mína“

Arna Gerður Bang gekkst undir brjóstholsaðgerð í júlí í fyrra …
Arna Gerður Bang gekkst undir brjóstholsaðgerð í júlí í fyrra og var hluti lungans fjarlægður. Aðgerðina framkvæmdi hjarta- og lungnaskurðlæknir Tómas Guðbjartsson og gekk hún frábærlega að sögn Örnu.

Arna Gerður Bang, alþjóðastjórnmálafræðingur, er ein þeirra sem fór með Snjódrífunum á Hvannadalshnjúk fyrir stuttu þar sem gengið var til stuðnings nýrri krabbameinsdeild á Landspítalanum. 

Arna starfar sem sérfræðingur á alþjóðasviði Alþingis og því mikið í því að sækja fjarfundi af heimaskrifstofunni eins og vera ber í heimsfaraldri. 

„Þess á milli skottast ég í Vesturbæjarlaugina og sinni fjölskyldunni. Eldri sonur minn er á haus í próflestri til stúdentsprófs svo stemningin á heimilinu er hljóðlát og kósí þessa dagana.“

Arna hefur verið að byggja sig upp heilsufarslega þar sem hún hefur verið að vinna sig í gegnum veikindi. Bataferlið endaði síðan á Hvannadalshnjúk í stórum hópi kvenna sem gengu fyrir málstað sem er Örnu einstaklega hugleikinn. 

„Fyrir rúmu ári síðan hafði ég fundið fyrir undarlegum bakverk í nokkra mánuði og lét loks athuga málið. Þá kom í ljós að 6 cm blaðra var búin að hreiðrað um sig í vinstra lunga. Þessi boðflenna var sem betur fer góðkynja en samt til eintómra vandræða og sýkinga svo tekin var ákvörðun um að fjarlægja hana. Ég gekkst því undir brjóstholsaðgerð í júlí í fyrra og var hluti lungans fjarlægður. Aðgerðina framkvæmdi okkar framúrskarandi hjarta- og lungnaskurðlæknir Tómas Guðbjartsson og gekk hún frábærlega.

Ég hef því síðastliðna níu mánuði verið að þjálfa upp lungnagetu mína og þol sem var ansi hreint lítið eftir aðgerðina. Fyrstu vikurnar hvatti unnusti minn mig lafmóða til dáða í örstutta göngutúra sem lengdust til allrar hamingju smátt og smátt. Þegar Soffía Sigurgeirsdóttir vinkona mín og Snjódrífa bauð mér svo að taka þátt í göngunni á Hnúkinn vissi ég að það yrði mikil áskorun en ég fann strax að ég vildi takast á við hana. Í janúar hófust svo vikulegar æfingar fyrir Hnúkinn þar sem ég gekk á fjöll og fell með hvatningu fjölskyldu og vina. Það var því mikill sigur og sæla fyrir mig að ljúka endurhæfingunni með stæl upp á Hvannadalshnúk eða Kvennadalshnúk eins og við kölluðum hæsta tind landsins í þessu verkefni. Það var stórkostleg tilfinning að finna að lungun voru í topp standi og þolið aldrei verið betra.“   

Soffía Sigurgeirsdóttir og Arna Gerður Bang hafa verið vinkonur lengi.
Soffía Sigurgeirsdóttir og Arna Gerður Bang hafa verið vinkonur lengi.

Fyrir hvern gekkstu og hvernig var upplifunin?

„Ég gekk fyrir elsku Emmý systur mína sem lést úr lungnakrabbameini fyrir 10 árum síðan.  Hún var með mér á toppnum, skýjum ofar í guðdómlegri fegurð og frelsi. Það var töfrandi og ógleymanleg stund. Sólargeislarnir dönsuðu á jöklinum og útsýnið var engu líkt. Augnablik sem skilur mann eftir agndofa og endurnærðan. Fullkomlega í anda Emmýjar sem kunni að njóta í núinu, hafði útgeislun á við milljón manns og breiðasta brosið. Það var dýrmætt að geta heiðrað minningu hennar á fallegan hátt um leið og gengið var til góðs fyrir mikilvægan málstað.“   

Var þetta ekki erfitt?

„Ó jú, þetta var skemmtilega og skelfilega erfitt. Stærsta áskorunin fyrir mig var að taka slaginn við ógurlega lofthræðslu síðustu 300 metrana upp hnúkinn. Ég hafði betur í því einvígi og vonandi til frambúðar. Þar sem ég klöngraðist með hjartað í buxunum upp síðustu metrana, með splunku nýja jöklabrodda á tánum og framandi ísexi í hendi, var ég sannfærð um að niðurleiðin yrði mitt síðasta. Ég myndi fljúga á hausinn og renna stjórnlaust af stað niður harðfennið, kippa línufélögum mínum með mér í fallinu og slasa mann og annan með ísexinni. En viti menn, niður leiðin gekk eins og í sögu og smám saman fór ég að treysta broddunum, slaka á og njóta. Ég held svei mér þá að ég hafi hámarkað lofthræðsluna í 2110 metra hæð og skilið hana eftir á toppnum. 

Boðið var upp á jóga og gong stund við Jökulsárlón …
Boðið var upp á jóga og gong stund við Jökulsárlón sem var dásamlega fagurt og heilandi að sögn Örnu.

Það var einstök upplifun að ganga á hæsta tind landsins með 126 mögnuðum konum – kvenn-orka í sinni tærustu mynd. Þetta var stórkostlegur dagur sem verður seint toppaður. Tilfinningin að stíga á Hnúkinn eftir langa göngu í frábæru en verulega köldu veðri, þar sem frostið fór niður í mínus 25 gráður er ólýsanleg. Orkan og stemningin er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Gleðin og liðsheildin algjör og lífið einfaldlega top næs. Þetta var mitt stærsta gönguafrek til þessa og gerði það upplifunina enn dýrmætari að geta gengið í þágu fallegs málefnis sem er mér kært.“

Var gott skipulag á og kom ferðalagið þér á óvart?

„Skipulagið hjá Sirrý Ágústsdóttur og Snjódrífunum var óaðfinnanlegt og til fyrirmyndar í alla staði. Það hversu vel og vandlega var haldið utan um hópinn jók enn frekar á jákvæða upplifun ferðarinnar. Vegna kórónuveirunnar vorum við all­ar skráð­ar í viss sótt­varn­ar­hólf og fjar­lægð­ar­regl­um fylgt. Göngunni var frestað um sólarhring vegna veðurs og fengum við því tíma til að kjarna okkur enn frekar fyrir Hnúkinn. Boðið var upp á jóga og gong stund við Jökulsárlón sem var dásamlega fagurt og heilandi.

Að sjá bleika húfukolla 126 göngukvenna á uppleið Öræfajökul gleymist seint, en við vorum allar með bleikar styrktarhúfur á kollinum sem Snjódrífurnar létu framleiða í samstarfi við 66°Norður. Segja má að hópurinn hafi tengdist einskonar Valkyrjuböndum sem innsiglaði þennan kvenna kraft sem var í Öræfum þessa helgi. Sirrý og Snjódrífurnar eiga svo sannarlega hrós og þakklæti skilið fyrir að hafa frumkvæðið, vera drifkrafturinn og standa fyrir þessu fallega átaki.“

Áttu þér ósk um bata og umhverfi fyrir þá sem greinast með krabbamein?

„Það er mikill heiður að fá að vera hluti af svona fallegu verkefni og er ég innilega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess. Verkefni sem snýst um að bæta að­bún­að fólks á nýrr­i lyflækningadeild á Land­spít­al­an­um sem tek­ur á móti fólk­i með krabb­a­mein og blóð­sjúk­dóm­a. Þörfin er mikil og takast þúsundir fjölskyldna á við þessi erfiðu og krefjandi verkefni á hverjum degi. Það er ósk mín að hægt verði að bæta umhverfi, aðbúnað og líðan sjúklinga og aðstandanda verulega. Við vitum að þar má gera mun betur og hvet ég alla sem hafa ráð á að styrkja þetta þarfa verkefnið.“

Hvert er leyndarmáli á bak við góða heilsu og fallegt útlit að þínu mati?

„Góð heilsa er klárlega það dýrmætasta sem við eigum og sæki ég minn lífskraft í hreyfingu úti í náttúrunni með fjölskyldu og vinum. Það er ekkert meira nærandi en að dýfa sér í heita náttúrulaug eða sundlaug eftir góða göngu og endurnærast á líkama og sál. Svo lítur maður aldrei betur út en þegar manni líða vel í eigin skinni, er hamingjusamur og hefur gaman af lífinu. Ég reyni að muna að þakka fyrir heilsuna og hvern dag og staldra við og njóta af innlifun og ástríðu. Þykja jafnvel vænt um broshrukkurnar og taka á móti hverju ári með þakklæti og tilhlökkun. Ást og virðing í bland við góða svefn, sítrónuvatn og daglega hreyfingu er uppáhalds kokteillinn minn.

Lífið er núna!“

Arna hvetur alla þá sem geta að leggja söfnuninn lið. Margt smátt gerir eitt stórt. 

Hægt er að styðja við Lífs­kraft með því að leggja inn á reikn­ing 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR-app­inu í síma 789-4010.

Einnig er SMS-söfn­un í gangi:

LIF1000 SMS sent í 1900 = 1.000 kr.

LIF3000 SMS sent í 1900 = 3.000 kr. 

All­ur ágóði renn­ur til upp­bygg­ing­ar nýrr­ar krabba­meins­deild­ar á Land­spít­al­an­um.

Sirrý og Arna á toppnum.
Sirrý og Arna á toppnum.
Arna var á gulu línunni og þó þær hafi ekki …
Arna var á gulu línunni og þó þær hafi ekki verið fyrstar í mark - var þetta besti hópurinn að hennar mati.
Vegna kórónuveirunnar voru konurnar skráðar í viss sótt­varn­ar­hólf og fjar­lægð­ar­regl­um …
Vegna kórónuveirunnar voru konurnar skráðar í viss sótt­varn­ar­hólf og fjar­lægð­ar­regl­um fylgt.
Fegurðin var einstök og upplifunin eitthvað sem konurnar munu seint …
Fegurðin var einstök og upplifunin eitthvað sem konurnar munu seint gleyma.
Gangan hófst rétt fyrir miðnætti og lauk seinnipart næsta dags.
Gangan hófst rétt fyrir miðnætti og lauk seinnipart næsta dags.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka