Díana Rut Kristinsdóttir, sviðslitakona og dansari, og Erlendur Egilsson klínískur sálfræðingur fluttu til Danmerkur í fyrra til þess að raungera drauma sína. Díana og Erlendur ákváðu að selja íbúðina sína í Reykjavík og kaupa gamlan bóndabæ rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Á sveitabænum Lysegard stefna þau á að blanda saman sérsviðum þeirra beggja, líkamlegri og andlegri heilsu.
Saman eiga þau Díana og Erlendur tvö ung börn en fyrir á Erlendur þrjú börn á aldrinum tíu ára til 21 árs. Þau þekktu Danmörku vel og höfðu búið þar áður. Erlendur lærði sálfræði í Danmörku og stór hluti fjölskyldu Díönu býr í Danmörku.
„Lífið er kannski svolítið fjölskylduvænna hérna í sveitinni og við förum aðeins hægar í gegnum dagana. En það togaði auðvitað líka að prófa að vera nær ömmu og afa í Danmörku,“ segir Díana.
Þau voru lengi búin að velta fyrir sér hvernig sérsvið þeirra myndu mætast sem best og vissu orðið vel hvað þau vildu gera. Einhvern veginn var þó aldrei rétti tíminn og það var alltaf eitthvað sem þurfti að klára fyrst.
„Við vorum einhvern veginn alltaf að bíða eftir rétta augnablikinu til þess að gera það sem okkur raunverulega langaði til að gera. Pabbi Díönu hafði í góðu gríni sent okkur hlekk á þetta býli, sem við heilluðumst að og það kom okkur verulega á óvart að við sáum fram á það að geta selt hæðina sem við áttum í Laugardalnum og fjármagnað kaup á býlinu samhliða því að hreinsa verulega til í fjármálum okkar. Allt í einu voru fjarlægir framtíðardraumar orðnir að einhverju sem var haldbært og mögulegt. Ef við bara þyrðum að færa þá inn í nútíðina,“ segir Erlendur um ákvörðun þeirra að taka stökkið, kaupa býlið og flytja út.
„Líf okkar í sveitinni í Danmörku er mjög frábrugðið lífi okkar í Reykjavík. Okkur finnst kannski aðeins gleymast hvað Reykjavík er mikil stórborg, þrátt fyrir að hún sé smá. Hraðinn í hverdagsleikanum er mikill og við vorum mjög upptekin alla daga. Við höfðum lengi haft sterka löngun til að breyta venjum okkar og vorum svolítið að slást við það. Að rembast við að lifa hægar. Að reyna að gera færri hluti og gera þá betur. Líf okkar hérna í sveitinni í Præstø er allt öðruvísi. Það býður algjörlega upp á meiri ró,“ segir Erlendur.
Þau segja það áhugavert fyrir þau sem par og sem einstaklinga að búa í sveitinni. Með hægara lífi eru færri truflanir og því fylgi talsverð ábyrgð.
„Allt verður svo skýrt en verkefnið okkar er að vinna gegn því að fara ekki inn í gamla vana sem eru svolítið fyrir manni og manni langar ekki að elta. Við finnum mjög sterkt hérna að við þurfum að vera gríðarlega heiðarleg við okkur sjálf og við hvort annað af því að það er ekkert sem tekur fókusinn okkar eða truflar. Við erum kannski í smá breytingarfasa sem einstaklingar og sem par. Það er ótrúlega gefandi en líka bara alls konar; pirrandi, pínu ógnvekjandi, fallegt, sefandi, ástríkt og kærleiksríkt en það er kannski þetta sem hefur komið okkur svolítið á óvart“ segir Díana.
Það var ekki einfalt fyrir samsetta fjölskyldu að taka stökkið. Það þurfti að leysa mörg verkefni fyrir brottför. Góð samskipti við barnsmóður Erlends hjálpuðu til að láta draum íslensku nútímafjölskyldunnar verða að veruleika. Þau segjast þó hafa verið svolítið smeyk um að þetta yrði svo alls ekki eins og þau vonuðust til þegar á hólminn væri komið. Ofan á allt þetta skall heimsfaraldur á.
„Faraldurinn skellur á þegar við erum búin að selja íbúðina okkar og kaupa býlið, samhliða því að Díana var ólétt. Þannig að, jú, það var mjög mikil óvissa með alls konar hluti. Það að vera í nýju heilbrigðiskerfi og eignast barn í miðjum heimsfaraldri, er bara sér kafli út af fyrir sig. Að börnin okkar byrji í skóla og leikskóla var svo annar kafli. Þetta hefur blessunarlega gengið mjög vel en óneitanlega styrkt mótlætisþol okkar allra ansi mikið eins og kannski hjá mörgum fjölskyldum síðastliðið ár,“ segir Erlendur.
Hvernig er að kaupa heilan bóndabæ í Danmörku?
„Það er náttúrulega bara sturlað. Möguleikarnir eru svo miklir að við förum stöðugt á alls konar flug í kollinum með hvað okkur langar að gera við býlið. Býlið sjálft er nokkuð stórt, en það eru um tvö þúsund fermetrar og jörðin tæplega þrír hektarar. Staðsetningin er líka ótrúlega fín. Við förum í göngutúra og það hlaupa dádýr og hérar fram hjá okkur. Svo er Præstø, bærinn sem við búum við, bara 45 mínútum frá Kaupmannahöfn en hann er líka mjög sjarmerandi. Fallegur steinhlaðinn lítill bær þar sem okkur finnst til dæmis æðislegt að fara á ströndina“ segir Erlendur.
Díana og Erlendur hafa staðið nánast stanslaust í framkvæmdum síðan þau fluttu út fyrir utan örstutt hlé þegar Tinni, yngsta afkvæmið, fæddist. Þau tóku upp öll gólf og löguðu, lögðu rafmagn, settu nýjar pípulagnir, nýtt eldhús og slípuðu og lökkuðu meira og minna allt sem þau komust í tæri við.
„Við höfum sett rosa mikla orku í að endurnýta allt sem við getum og lögðum til dæmis upphaflegu gólffjalirnar aftur, en þær eru 146 ára. Við reynum að vera dugleg að leyfa fólki að fylgjast með okkur á projectlysegard.com og á Instagram. Framkvæmdirnar hafa þróast út í eitt risa stórt fjölskylduverkefni, sem er algjörlega yndislegt,“ segir parið.
Project Lysegard snýst þó um meira en að gera upp gamalt hús. Í framtíðinni stefna þau á að sameina sérsvið sín. Þau langar til að skapa hlýjan stað þar sem þau vinna með fólki að andlegri og líkamlegri heilsu þeirra. Auk þess ætla þau að búa til rannsóknarvettvang fyrir listir, geðrækt og hreyfingu.
„Við erum að vinna við að setja upp fjögurra daga vinnustofur þar sem fólk kemur að vinna í heilsu sinni ásamt því að dvelja í notalegum aðstæðum í sveitinni. Svo munum við líka nýta starfsemina til samstarfs við áhugavert fólk,“ segir parið.
Verkefnin eru fjölmörg hvort sem það lítur að uppbyggingu starfseminnar eða að því að betrumbæta húsnæðið.
„Það verður til dæmis risaverkefni hjá okkur í sumar að skipta um þak á öllum gömlu útihúsunum. Við erum rosa spennt fyrir því að setja glerþak yfir hluta af útihúsunum, þar sem svínastíur voru áður. Það er verður örugglega voða sjarmerandi að sitja þar og horfa á stjörnubjartan himinin. Það er nefnilega mjög lítil ljósmengun hér í sveitinni á kvöldin. Svo munum við setja upp íþróttahús í einni skemmunni, sem varð auðvitað forgangsatriði í öllum þessum lokunum sem hafa fylgt heimsfaraldrinum.
Við erum líka að koma upp gistirýmum fyrir framtíðargesti, bæði herbergi og stór braggatjöld með kamínum og rúmum úti á akri. Þannig að það eru ótrúlega spennandi tímar fram undan hjá okkur og við erum full tilhlökkunar að vinna áfram með verkefnið,“ segja Díana og Erlendur.