Margir þekkja Skyrgerðina í Hveragerði þar sem nú er að finna veitingastað og gistiheimili með 13 herbergjum. Húsið og byggingarnar sem henni fylgja, alls 771 fermetri, eru til sölu fyrir 275 milljónir en fasteignamat er 133,7 milljónir.
Ölfushreppur byggði Þinghúsið í Hveragerði árið 1930 og Mjólkurbú Ölfusinga byggði Skyrgerðina á jarðhæð þinghússins á sama tíma en húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins. Í Skyrgerðinni var framleitt skyr sem var ein helsta söluvara Mjólkurbúsins, einnig var þar fyrsta framleiðsla á jógúrt hér á landi sem var seld í glerflöskum og kölluð heilsumjólk.
Allt frá því húsið var byggt hefur það verið eins konar hjarta bæjarins með þinghald, matargerð og menningu sem miðju. Frá miðri síðustu öld hefur hótel- og veitingastaðarekstur verið í húsinu og þinghúsið verið nokkurs konar menningarsetur Hvergerðinga og á tímabili einn aðalsamkomustaðurinn. Þar voru sýndar leiksýningar, bíósýningar, haldin brúðkaup, dansiböll og tónleikar landsfrægra listamanna.
Elfa Dögg Þórðardóttir keypti Skyrgerðina árið 2015 og fór í kjölfarið í miklar framkvæmdir og opnaði samnefndan veitingastað og gistiheimili.
Af fasteignavef Mbl.is: Skyrgerðin 25