Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson eru komnir upp í aðrar búðir á leið þeirra upp Everestfjall. Þetta kom fram í tilkynningu á Facebook-síðu hópsins Með Umhyggju á Everest.
Heimir og Sigurður lögðu af stað í lokaleiðangurinn um 6:45 í morgun að íslenskum tíma. Þeir reikna með því að standa á tindinum einhverntíman á tímabilinu 21.- 23. maí næstkomandi.
Félagarnir hófu för þann 19. mars síðastliðinn en meiðsli og slæmt veður hafa sett strik í reikninginn. Nýjasta uppfærslan kom nú á fjórða tímanum í dag. Samkvæmt henni eru Sigurður og Heimir séu komnir upp í Camp 2 þrátt fyrir hnjámeiðsl og bíða þess að veður lægi áður en þeir leggi af stað upp í Camp 3.
Heimir og Sigðurður ganga á toppinn til styrktar Umhyggju félags langveikra barna og hvetja áhugasama til þess að styrkja félagið. Þeir munu taka Umhyggjufánann með og niðurskrifaða drauma þeirra barna sem þeir heimsóttu áður en leiðangurinn hófst.