Alexandra Björgvinsdóttir flutti út til Zürich í Sviss á síðasta ári til að elta drauma sína. Núna býður hún upp á fría leiðsögn um borgina í gegnum samfélagsmiðla. Upphaflegur draumur hennar var þó að starfa sem einkaþjálfari í borginni en þegar allar líkamsræktir lokuðu ákvað Alexandra að taka málin í sínar eigin hendur.
Alexandra er 25 ára og fædd og uppalin í Hafnarfirði. Hana hafði alltaf langað til að búa erlendis og á síðasta ári ákvað hún að láta verða af því.
„Mig hafði alltaf langað að búa á nýjum stöðum og bað kærasta minn til 11 ára að taka af skarið og sækja um alls kyns góð störf um allan heim. Það varð til þess að við enduðum hér fyrir tæpu ári síðan og fengum þetta æðislega tækifæri til þess að uppgötva Sviss. Ég hafði aldrei hugsað mér að flytja hingað áður. En ég er enn þá í hálfgerðu áfalli yfir hversu æðislegt það er að búa hérna,“ segir Alexandra.
Í fyrstu var Alexandra ekki viss um hvernig hún ætti að þróa hugmyndina sína um að vera sjálfstætt starfandi áfram. Síðan datt hún niður á það að búa til leiðsögn í gegnum samfélagsmiðla.
„Þetta er sem sagt með opnu og fríu aðgengi á minni eigin síðu og á þann skemmtilega hátt að ég get tekið alls kyns flokka og lönd fyrir og skipt niður eins og mér og minni athygli hentar hverju sinni. Ég byrjaði á nokkrum Zürich guideum og fékk strax góðar undirtektir en byrjaði því strax að stækka við mig þar sem hugmyndin var alltaf sú að gera guidea um spennandi og einstaka staði í heiminum öllum. Ég eltist rosalega við að finna alls kyns týndar perlur og fer einnig á alla þekktustu staðina í hvert skipti sem ég heimsæki nýjan stað og hef alltaf fengið mikið af spurningum og skilaboðum þegar ég ferðast og það var í raun uppsprettan að hugmyndinni,“ segir Alexandra.
Alexandra segir að margir ferðabloggarar séu farnir að sleppa því að nafngreina veitingastaði, ferðamannastaði eða faldar perlur á samfélagsmiðlum sínum og vilji frekar halda þeim fyrir sig. Hana langi ekki til að gera það.
„Mig langar í raun bara að deila áhugamálinu mínu og tímanum sem ég hef eytt í að leita uppi áhugaverða staði og leyfa sem flestum að njóta allra þeirra fallegu staða sem heimurinn býður upp á,“ segir Alexandra.
Hvernig var fyrsta upplifun þín af borginni?
„Í raun var ég til í að prufa hvað sem er enda ævintýragjörn, en ef satt skal segja þá var ég ekki með háar væntingar fyrir Zürich þar sem ég hafði aldrei heyrt mikið um borgina áður og fannst lítið spennandi koma upp á netinu í fyrstu. En svo komum svo í lok sumars og ég hef verið dolfallin frá fyrsta degi! Hrein, falleg, rík, örugg og virkilega lifandi borg. Ekki skemmir heldur fyrir að geta keyrt til allra þessara landa í kring.“
Hvernig er draumadagur í Zürich?
„Allir dagar eru draumadagar í Zürich! Vinir mínir hafi hlegið að mér fyrir það en ég ætla samt að taka það fram að ég hef í alvöru talað fellt tár tvisvar sinnum úti á götu af hamingju síðan ég flutti. Svo gott er lífið hér.
Það óheppilega gerist þó af og til, að það sé mjög grátt yfir en þá er auðvelt að skreppa í Alpana og komast yfir gráleikann! Þótt vert sé að taka fram að allra bestu dagarnir í Zürich séu þegar að sólin skín og það eru 20-30 gráður úti. Þá fyllist borgin af lífi og alls kyns möguleikum og allir ganga um með bros á vör.“
Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?
„Oh vá. Ég hreinlega gæti ekki svarað þessari spurningu! Það fer svo innilega eftir því með hverjum maður er að ferðast, í hvaða tilgangi og á hvaða árstíð. Zürich er frábær en það er alltaf gaman að kíkja til annarra borga, til að nefna eitthvað þá fór ég til dæmis til Milan og Como í annað sinn um helgina og það var alveg upp á 10!“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Ég elska allt sem er einstakt, eitthvað sem ég mun muna eftir að eilífðu. Ég gæti aldrei farið bara alltaf til sama staðarins á Spáni á hverju ári sem dæmi. Ég fæ hálfgerða innilokunartilfinningu við hugsunina! Ég er nokkuð viss um að þótt ég lifi til 100 ára og ferðist nokkrum sinnum á ári hverju muni bucket listinn minn ekki enda tómur. Japan og Afríka eru mjög hátt á óskalistanum sem dæmi.“
Ætlarðu að ferðast eitthvað í sumar?
„Já, eins og ég sagði þá fór ég til Ítalíu um helgina en svo er ég einnig komin með miða til Möltu. Það mun þó vonandi verða mun meira um ferðalög heldur en það! Ég held ég gæti ekki hugsað mér að sleppa því að ferðast heilt sumar.
Ég var svo heppin að fá að fara til 5 landa árið 2020 og eitt af því var þegar ég flutti til nýs lands þar sem ég fékk að uppgötva yfir 20 staði innan þess og mér leið samt eins og ég væri í útgöngubanni eins og allir aðrir! Hins vegar mun ég auðvitað bara fara á staði sem leyfa túrista og fara eftir öllum reglum hverju sinni.“
Hægt er að fylgjast með Alexöndru á Instagram @abbxtheworld.