Indverskt par leigði farþegaflugvél til að halda brúðkaupið sitt í henni. Þannig komst parið framhjá sóttvarnareglum á Indlandi en um yfir 160 gestir voru um borð í vélinni. Sóttvarnareglur kveða á um að aðeins 50 megi koma saman í brúðkaupum á Indlandi.
Málið er til rannsóknar hjá flugsamgönguráði Indlands og starfsmenn vélarinnar hafa verið sendir í leyfi.
Skæð bylgja ríður nú yfir Indland en tala látinna af völdum kórónuveirunnar fór yfir 300.000 á mánudag.
Hin nýgiftu hjón, sem ekki hafa verið nafngreind í fjölmiðlum, leigðu vél af flugfélaginu SpiceJet og voru gefin saman þegar vélin flaug yfir Meenakshi Amman-hofið á sunnudag. Vélin flaug frá Madurai til Bangalore.
Gestir brúðkaupsins birtu myndir og myndbönd úr flugvélinni á samfélagmiðlum. Á þeim má sjá fólk með blómakrans um hálsinn taka sjálfsmyndir. Nánast enginn gestanna er með andlitsgrímu á myndinni og nándarreglan ekki virt.
Forseti flugsamgönguráðs Indlands hefur hvatt flugfélagið til að áminna hin nýgiftu hjón og gesti þeirra fyrir brot á sóttvarnareglum og leggur til að þau fari í flugbann.
Í svari SpiceJet segir að hjónin og gestirnir hafi fengið þau tilmæli að bera andlitsgrímu, virða nándarregluna og almennar sóttvarnareglur. Þrátt fyrir það hafi þau ekki gert það og mál þeirra sé nú til skoðunar.
Yfir 26 milljónir hafa greinst smitaðar á Indlandi frá því faraldurinn hófst. Yfir 120.000 hafa látist síðan yfirstandandi bylgja hófst.