Mari Järsk er einn öflugasti utanvegahlaupari á Íslandi en hún byrjaði bara að hlaupa fyrir tveimur árum. Hún er frá Eistlandi og flutti til Íslands fyrir 15 árum tæplega 18 ára gömul. Hún hefur komið sér vel fyrir á landinu, á góða vini og búin að kaupa sér íbúð. Eftir að hún keypti sér íbúð fyrir tveimur árum vantaði hana nýtt markmið og þá tóku hlaupin við.
Hefur þú alltaf verið dugleg að hreyfa þig?
„Ég er náttúrlega snarofvirk en ég hreyfði mig ekki mikið eftir að ég kom til Íslands. Sem krakki var ég smá á skíðum og eitthvað svoleiðis. Svo kom ég til Íslands og hreyfði mig ekki neitt fyrr en fyrir en ég byrjaði aftur fyrir tveimur árum,“ segir Mari um hlaupaáhugann.
„Ég kláraði að safna mér fyrir íbúð. Það gerðist eitthvað við að klára svona stórt markmið, þá vantaði mig eitthvað nýtt. Ég skráði mig strax í Esju-últramaraþon, 45 kílómetra. Ég var alltaf að skokka smá með hundinn en aldrei beint æfa neitt. Þarna bara kom það. Ég varð fyrir andlegri vakningu, lenti í þriðja sæti og svo bara byrjaði ballið. Ég var í skýjunum.“ Mari hefur náð svo eftirtektarverðum árangri á stuttum tíma að hún er búin vera í samstarfi við hlaupaskóbúðina Fætur toga í rúmt ár.
Mari segist ekki hafa áttað sig á hversu góð hún var áður en hún fór í fyrsta hlaupið. Hún vissi þó að hún væri með gott þol og segist vera alveg snar. „Ég fann hvað ég komst alltaf í gegnum mikið. Ég vann alltaf rosalega mikið þegar ég var að safna fyrir íbúð. Oft upp í 16 til 20 tíma á sólarhring. Ég er alveg snar inni í mér,“ segir Mari.
Hún neitar því ekki að andlegi styrkurinn hafi átt mikinn þátt í því hversu vel henni gekk í hlaupinu. „Ég kemst alltaf meira og meira að því hversu hausinn er sterkur. Ég bjóst aldrei við þessu. Eins og núna, ég finn alveg núna þegar mig langar í eitthvað þá vaknar eitthvert dýr inni í mér. Það kom bara í vetur þegar ég byrjaði á gönguskíðum,“ segir Mari sem náði góðum árangri í gönguskíðakeppnum í vetur.
Sumarið eftir Esju-últramaraþon var Mari að vinna í veiðihúsi og æfði ein úti í sveit. Hún hljóp meðal annars í Tindahlaupinu sama sumar og rétt missti af fyrsta sætinu í 50 kílómetra hlaupi í Hengils-últramaraþoninu. Um haustið byrjaði hún að æfa með Sigurjóni Erni Sturlusyni sem var þá með styrktaræfingar í bílskúrnum hjá sér. Mari var fljót að eignast hlaupavini og byrjaði strax að suða í honum að fara út að keppa. Í desember 2019, aðeins hálfu ári eftir fyrsta hlaupið í Esjunni, fór hún í 45 kílómetra últramaraþon á Tenerife og lenti í sjöunda sæti.
Hvernig er að hlaupa á Kanaríeyjum miðað við að hlaupa á Íslandi?
„Ég held að maður sé orðinn svo vanur íslenskum aðstæðum að það er miklu erfiðara að hlaupa úti en á Íslandi. Maður er svo vanur rigningu og roki. Ég spyr sjálfa mig ekki að því hvernig veðrið er. Ég geri bara það sem ég ætla mér,“ segir Mari.
Rétt áður en Covid skall á á Íslandi hljóp hún í öðru hlaupi á Kanaríeyjum sem var 128 kílómetra langt. Hlaupararnir hlupu meðal annars um nótt og fengu mjög góða kælingu. „Ég hljóp alla nóttina í tæpan 21 tíma. Hlaupið byrjaði um ellefu um kvöldið og ég kláraði það kvöldið eftir. Maður verður bara að vera búinn að hvíla sig vel fyrir hlaupið en maður nær því eiginlega aldrei af því maður er svo ógeðslega spenntur. Eina markmiðið mitt var að klára,“ segir Mari sem lenti svo í 12. sæti.“ Hún leggur áherslu á að næra sig vel í hlaupunum en auðvitað kemur fyrir að hún fái í magann og segist hafa glímt við magaverki i 128 kílómetra hlaupinu. Í svona hlaupum er svo ekkert klósett heldur bara guðsgræn náttúran.
Stuttu eftir hlaupið tók kórónuveiran yfir og Mari sá ekki fram á að taka þátt í fleiri hlaupum erlendis. Sumarið 2020 var þó eitt það skemmtilegasta sem hún hefur upplifað. „Ég var búin að ákveða að vera heima sem ég var ótrúlega glöð með. Það var ekkert fram undan, eins lítið og ég var spennt fyrir því. Ég tók bara öll hlaupin sem hægt var að taka hérna heima og sem ekki var aflýst. Við skráðum okkur í allt og vorum allt sumarið í ferðalögum. Við erum ennþá í skýjunum. Þetta er bara besta sumar sem við höfum átt. Maður var ekki með neitt annað í höndunum.“
Hvað var það skemmtilegasta sem þú gerðir í fyrrasumar?
„Puffin Run í Vestmannaeyjum er í uppáhaldi. Það er aðeins styttra hlaup, ekki alveg fyrir mig til að ná árangri í. Ég náði reyndar öðru sæti af því það voru svo fáir að keppa. Ég lenti líka í öðru sæti í Snæfellsjökulshlaupinu. Það er líka sturlað skemmtilegt hlaup. Það var vel skipulagt og stemning,“ segir Mari. Hún segir Snæfellshlaupið í kringum 20 kílómetra og hlaupið frá Arnarstapa yfir í Ólafsvík.
Það er svo mikill kraftur í Mari að blaðamaður spyr hana hvort fólki finnist hún ekki bara klikkuð. „Fólk þorir ekki að vera nálægt mér. Sérstaklega karlmenn en konur vilja vera nálægt mér. Menn eru mjög hræddir við mig. Hvernig í andskotanum á að sinna þessari konu? segja þeir,“ segir Mari í hlær. Hún segist ekki eiga maka. „Þeir þora ekki í mig. Ég er alin upp við strangt uppeldi. Þegar ég tek fimm, sex klukkustunda æfingar um helgar segir fólk að ég sé klikkuð. – Nei ég er bara njóta lífsins segi ég.“
„Ég ólst upp í SOS-barnaþorpi þar sem ég var með strangar mömmur. Það var enginn afsláttur þar. Ég var elsta systir og öll ábyrgð fór á mig,“ segir Mari og játar að uppeldið hafi mótað hana. „Fyrir hausinn aðallega. Ég er góð að öskra mig áfram. Ég sé mikinn mun á mér og vinkonum mínum. Þær geta dúllað sér í gegnum einhver verkefni en ég verð að byrja á að gera vel ef ég ætla að gera það. Ég get verið mjög hörð við sjálfa mig og líka hörð þegar ég er ekki ánægð með mig.“
Mari er mikil félagsvera en segist kunna að slaka á. Eftir keppnir, á mánudögum og þriðjudögum, slakar hún vel á og vill vera ein. „Ég leyfi mér það alveg og get það án þess að berja mig niður en áður fyrr gat ég það náttúrlega ekki. Þá var ég alltaf bara að hamast,“ segir Mari.
Flestöll ferðalögin sem Mari fer í snúast um útivist og vinirnir margir í hlaupum. Hún á ekki hefðbundna fjölskyldu á Íslandi en vinafólk hefur komið í stað þess og fer hún með þeim í fjölskylduferðalög. „Ég fór alveg í stór ferðalög með þeim síðasta sumar. Þá var þetta algjör fjölskyldutími, ég var bara að njóta með þeim og mér fannst það ekkert mál. Vera bara með börnunum, skoða flotta staði og hoppa í sjóinn.“
Mari glímir við meiðsli en ætlar að hefja hlaupasumarið í Hengils-hlaupinu um helgina. Hún ætlar að gera sitt besta en gerir sér ekki of miklar vonir um að ná góðum árangri. Hún heldur þó áfram að ögra sér. Hún byrjaði að æfa gönguskíði í vetur og hefur verið að prófa sig áfram á fjallaskíðum. Hún fór meðal annars með Everest-förunum Heimi Fannari Hallgrímssyni og Sigurði Bjarna Sveinssyni á fjallaskíði á Tröllaskaga og Kaldbak áður en þeir héldu út til Nepals í vetur. Hún hefur líka skíðað niður Snæfellsjökul og Hvannadalshnjúk. Hún er nýbyrjuð að æfa þríþraut hjá góðum þjálfara og hlakkar til að keppa í íþróttinni.