Babb í bátinn á Eyjafirði

„Á tveggja tíma vöktum, tvær og tvær í senn, héldum við frá Vestfjörðum yfir Húnaflóa og tókum stefnuna á Tröllaskaga. Næturkyrrðin fór vel með sjófarendur en kom þó í veg fyrir að hægt væri að setja upp segl. Það hefur komið á óvart í ferðinni hversu oft hefur skort vind í seglin. Konur hefðu nú haldið annað. En það var bjart og fallegt og sólin settist á bakvið ský, án þess að láta mikið fyrir sér fara. Hvalur ruglaði dýptarmælinn í rýminu um miðja nótt og snerti yfirborðið með löngu dökku baki sínu. Þrír hvalir til viðbótar létu síðustu næturvaktina vita af sér með blæstri,“ skrifa Seigl­urn­ar, hóp­ur kvenna sem sigl­ir um­hverf­is Ísland á seglskútu. 

„Um klukkan sex að morgni bætti loks í vind og við settum upp seglin. Þögnin og blíður stígandinn á öldunum ruggaði þeim sem enn sváfu í enn fastari svefn. Fjöllin á Tröllaskaga nálguðust tignarleg og Sauðanesviti greip augu þeirra sem vöktu. Við beygðum inn á Siglufjörð enda engin ástæða til að flýta sér inn Eyjafjörð.

Það var yndislegt að fá að stinga sér í pottinn hjá Hótel Sigló. Siglufjörður, sem hefur nú fengið viðurnefnið Seiglufjörður, skartaði sínu fegursta. Þessi óvænti hvíldardagur var notaður til að nærast, hvílast, ganga og njóta þessa yndislega bæjar. Takk fyrir okkur!

Eftir góðan nætursvefn við bryggju var haldið af stað á ný, nú til að enda daginn á Akureyri. Loksins voru bæði seglin sett upp og vindurinn tók vel í þau. Með nokkrum vendingum sigldum við framhjá Héðinsfirði og tókum stefnuna á Látraströnd. Sara var komin á heimaslóðir og tók fimlega við stýrinu. Það fór þó heldur að bæta í vind þegar við komum innar í fjörðinn. Við felldum stórseglið og fórum áfram á framseglinu, með smá aðstoð frá vélinni. Þegar til stóð að rúlla framseglinu saman kom heldur betur babb í bátinn. Það var ekki hægt að draga inn framseglið og þá reyndust góð ráð dýr. Æfingasiglingarnar komu sér vel því nú voru líflínurnar leitaðar uppi. Í roki, rigningu og sjógangi, en með samhentu átaki, héldu konur á framdekk til losa seglið niður. Það var reyrt við framdekkið og hélt áfram sem farþegi á sinni eigin seglskútu. Vélin þurfti því miður að leysa seglið af hólmi til hafnar – í þetta sinn þar sem við fengum góðar móttökur.

Með ógleymanlegar minningar í farteskinu kveðjum við frábæra ferðafélaga á öðrum legg hringferðar um landið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert