Reykjavík er meðal bestu staða sem ferðavefmiðillinn Travel + Leisure mælir með fyrir Ameríkana. Mælt er með nokkrum stöðum í Evrópu og er Reykjavík í hópi vel valinna staða. Valið þarf ekki að koma á óvart enda hefur gengið vel að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum og ferðamenn byrjaðir að streyma til landsins.
Í umfjöllun miðilsins er meðal annars fjallað um ferðamannahrun og eitt spennandi eldgos. Þá er einnig mælt með hótelinu Reykjavík Edition sem verður opnað í ágúst, Laugaveginum og tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í nóvember. Einnig er minnst á Bláa lónið sem og hið nýopnaða Sky Lagoon.
Aðrir staðir sem minnst er á eru Andorra, Berlín, Búdapest, Kildare á Írlandi, gríska Cyclades-eyjaklasann, London, Madrid, Norður- og Mið-Ítalíu, Suður-Ítalíu, Ósló, Portonovi í Svartfjallalandi, Provence í Frakklandi, og Lappland.