„Það var bjart yfir konum sem streymdu niður á bryggju á Akureyri þrátt fyrir smá dumbung. Konurnar biðu komu seglskips Norðursiglingar, Ópals, sem kom frá Húsavík til að fylgja skútunni Esju út Eyjafjörð og yfir Skjálfanda til Húsavíkur. StórSeiglum, konum sem sóttu um að fá að sigla með Esju, bauðst að slást í för með Seiglunum þessa leið á Ópal. Fjöldi kvenna þáði boðið og föst áhöfn Esju skipti sér á milli báta. Alls voru níu konur um borð í Esju og tuttugu til viðbótar um borð í Ópal,“ skrifa Seiglurnar, hópur kvenna sem siglir umhverfis Ísland á seglskútu í nýjum pistli:
„Vindurinn blés á móti þegar við héldum að stað út Eyjafjörð. Segl hefðu lítinn greiða gert svo við ræstum vélarnar. Ópal býr svo vel að vera knúinn rafmagni og þegar rafmagnskerfi skipsins var tekið í notkun árið 2015 varð Norðursigling fyrst á heimsvísu til að bjóða upp á kolefnislausar hvalaskoðunarferðir með því að nota eingöngu rafmagn og vind til framdriftar í ferðum. Á meðan vélin marraði var tíminn nýttur til að undirbúa seglin. Tara, okkar yngsta Seigla, var fljót að bjóða sig fram til að klifra hátt upp í mastur Ópals til að aðstoða starfsfólk Norðursiglingar. Þótt Tara hafi verið í skýjunum með verkefnið voru sam-Seiglur hennar fegnar þegar hún kom aftur niður á þilfar.
Þá hófust veiðar á örplasti. Belén, starfsmaður Norðursiglingar og stofnandi Ocean Missions, sýndi okkur veiðitæki sem hún hefur smíðað til að veiða örplast. Hún hefur nýtt ferðir Norðursiglingar til að taka sýni og safna gögnum um örplast. Veiðitækið er sett útbyrðis og er dregið á yfirborðinu í um klukkustund. Þá er fengurinn tekinn upp og farið í gegnum aflann. Það sem er grunsamlegt er tekið til hliðar og skoðað betur á rannsóknarstofu. Á þennan hátt hafa Belén og félagar hennar safnað upplýsingum um örplast á siglingasvæði Ópals.
Það var ljóst við upphaf ferðar að okkar biði smá veltingur þegar liði á. Innri hluti Eyjafjarðar fór blíðum höndum um sjófarendur en þegar komið var út fyrir Hrísey fóru báðir bátar að velta. Velgja lét því á sér kræla á báðum bátum, sem Seiglur á Esju hafa hingað til sloppið nokkuð vel frá. Sumar fengu sér kríu í koju og aðrar létu gustinn hressa sig við. Það var í nógu að snúast þótt velgjan vildi ná yfirhöndinni.
Á Ópal var kominn tími til að hífa upp segl. Með samhentu átaki tóku konur í kaðla og hífðu upp seglin. Á Ópal er allt handstýrt og það er lærdómsríkt að sjá hvernig seglbúnaðurinn er hugsaður, hvernig hvert reipi í þessari fjölreipa samkomu á sér sitt hlutverk – og þá virðast þau fljótt færri en við fyrstu sýn.
Á Esju voru bæði segl sett út og skipin tvö héldu áfram að fylgjast að út Eyjaförð. Seiglur voru sammála um, eftir að hafa siglt fjörðinn tvisvar í mótvindi á þremur dögum, að hann er óskaplega langur fjörður.
Þrátt fyrir nokkra ölduhæð og svolítinn dumbung létu nokkrir höfrungar vita af sér í Eyjafirði og á Skjálfanda tók hnúfubakur á móti sæfarendum með fallegum blæstri. Þegar nálgaðist Húsavík tók sólin að skína og lýsti upp seglin hjá Esju og Ópal rétt áður en þau renndu inn í fallegu höfnina á Húsavík. Gestaáhöfn Esjunnar hefur sjaldan verið eins fljót að koma sér frá borði og í þetta sinn, en velgjan var fljót að gleymast þegar konur hittust í góðum mat á Gamla-Bauk, sameinaðar á ný.
Sumarið vakti okkur á Húsavík í morgun. Fyrsti sanni sumardagurinn. Léttklæddar stímdu Seiglur í sjóböðin á Húsavík, leyfðu líkömunum að malla í sólinni og pottunum. Öll þreyta, sjóriða og velgja liðu fljótt úr.
Þessum dýrðardegi var svo varið í rölti um fallegu Húsavík. Sumar kræktu sér í kjóla og aðrar í bólusetningu. Síðdegis hittum við nýja ferðafélaga og borðuðum aftur saman á Gamla-Bauk þar sem við hittum Hörð hjá Norðursiglingu og Egil Bjarnason sem sagði okkur frá bók sinni: „How Iceland changed the world“. Kvöldinu var svo varið í að skoða næstu daga í appelsínugulri viðvörun, skoða siglingakort og setja út siglingaáætlun.
Við leggjum okkur í kvöld stútfullar (og gott betur) af D-vítamíni og hlökkum til að takast á við ævintýri næstu daga með nýjum hópi Seigla.“