Héldu sveitaball á seglskútu

„Eftir góðan dag á Eskifirði tíndust nýir hásetar um borð í Esjuna. Við fórum yfir sjókort og gerðum siglingaáætlun. Nóttin var ung. Til að nýta straumana ákváðum við að leggja af stað að kvöldi og sigla til Djúpavogs í gegnum nóttina. Við héldum því út eftir sléttum firði með kvöldsólina í bak. Hólmatindur skartaði sínu fegursta og múkkar slógust í för með okkur og struku nánast sléttan hafflötinn þegar þeir hringsóluðu um bátinn. Svartfuglar stungu sér hins vegar á kaf þegar við nálguðumst,“ skrifa Seigl­urn­ar, hóp­ur kvenna sem siglir um­hverf­is Ísland á seglskútu í nýj­um pistli:

„Meðal háseta í þetta sinn var Hildur, skólameistari Tækniskólans, og þar með vorum við með nemanda skólans; Töru, kennara skólans; Siggu, og skólameistara Tækniskólans í áhöfn þennan legg.

Hvorki Hildur né aðrir hásetar þessarar siglingaleiðar voru lengi að lenda um borð. Það var varla klukkustund liðin þegar þær voru bæði búnar að taka upp gítar og fiðlu og sjóaraslagararnir tóku að óma um bát og fjörð. Guðrún Arndís sá um gítargripin en það var slegist um fiðluna, enda bæði Hildur og Helena firnafærar á fiðluna. Í þetta sinn héldum við ekki á skútu á sveitaball, heldur héldum við okkar eigið. Það var þó ekki öllum alveg sama þegar lag Bubba, Syneta, var spiluð enda fjallar hún um skipskaða við eyjuna Skrúð, þangað sem ferðinni var heitið.

Smám saman kólnaði og hafgolan og harmhljómar fóru að óma úr strengjahljóðfærunum, sem kvörtuðu undan kulda og raka. Hljóðfærunum var forðað inn í hlýjunu rétt áður en Austfjarðaþokan gleypti okkur og vafði okkur hvítu teppi. Samkvæmt skilgreiningu Austfirðingsins um borð, Bobbu, var þetta mjúk þoka, eins og dúnn í kolluhreiðri. Skyggnið framundan var aðeins um bátslengd svo við reiddum okkur alfarið á siglingatæki og útsýnið og kennileiti, eins og eyjan Skrúður, voru skoðuð á skjám og kortum.

Eftir rúmlega sex klukkustunda siglingu fór að rofa til og við sigldum inn Berufjörð í heiðmyrkva - þegar það sést til heiðs himins en þokan umlykur enn. Smám saman braust sólin fram úr skýjunum og það birti til í innsiglingunni inn á Djúpavog. Vandlega fylgdum við innsiglingarmerkjunum og dóluðum okkur í rólegheitunum í kringum klappir og sker. Áður en Djúpavogsbúar fóru á fætur lögðumst við blíðlega við bryggju í logninu, mitt á milli húsa sem stóðu á hvolfi allt í kringum okkur. Lúnar eftir næturbröltið skriðum við í ból og hvíldum okkur fram á morgun.

Nokkrum klukkustundum síðar heilsaði okkur bjartur dagur og fagur. Við áttum rólegan morgun og Djúpavogsbúar leyfðu okkur ekki að komast upp með að laumast, að við töldum, óséðar að bryggju um miðja nótt. Fjölmargir komu niður á bryggju til kasta á okkur kveðju, skoða, spyrjast fyrir og spjalla. Sumarið var sannarlega komið því ullarfötin komu ekki upp úr töskunum þennan dag heldur voru dregnar fram stuttbuxur og sumarkjólar. Þvílík blíða! Uppskrift að gæðastundum sem verður vandlega varið í þessu fallega þorpi þar til vindáttin er tilbúin til að feykja okkur rétta leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert