Ísland eins og flottustu listasöfn heims

Agnes Hjaltalín og Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir
Agnes Hjaltalín og Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir og Agnes Hjaltalín eru nýútskrifaðir fjallaleiðsögumenn frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu og í sumar eru þær í fararbroddi fyrir Ferðafélag unga fólksins þar sem þær munu deila ástríðu sinni fyrir útivist og náttúruvernd með ungu fólki. Ferðavefur mbl.is heyrði í stúlkunum á dögunum. 

Þær Agnes og Gunnhildur Fríða skynja mikinn vaxtakipp í útivist hjá ungu fólki í dag en þær vilja gera útivist aðgengilegri fyrir ungt fólk því oft er erfitt að byrja einn í útivist. Næsta ferð hjá þeim er laugardaginn 3. júlí en þá ætla þær að ganga Fimmvörðuhálsin sem er tveggja daga ferð. Nánari upplýsingar um ferðina má nálgast hér.

Aðspurðar hverjir uppáhaldsstaðir þeirra eru á landinu svarar Agnes: „Ég er algjörlega ástfangin af svelgjunum á Breiðamerkurjökli. Það er alveg mögnuð tilfinning að síga ofan 20+ metra djúpa árfarvegina og sjá hvernig vatnið hefur mótað jöklana svona líka fallega! Þetta eru eins og flottustu listasöfn heims, þessir djúpu bláu tónar jökulsins hafa svo sannarlega sögu að segja.“ Svo bætir hún við að Vestfirðirnir séu einnig í miklu uppáhaldi hjá sér á sumrin og Eskifjörður fyrir skíðaferðalög að vetri.



Gunnhildur Fríða á erfitt með að gera upp á milli en segist hafa eytt miklum tíma í Öræfum og í kringum Vatnajökul, sem hún segir að sé eitt undursamlegasta og fegursta svæði landsins. „Því meira sem ég skoða það, því meira sé ég hvað það er margt að gera. Það mun taka að minnsta kosti 10 ár að kanna alla þá staði sem við viljum skoða þar.“ Segir Gunnhildur Fríða: „Fjallabak er líka í uppáhaldi, litirnir í fjöllunum eru svo töfrandi, og Grænsdalur við hliðina á Reykjardal hjá Hveragerði.“

Þær bjóða svo upp á ókeypis kvöldgöngu upp að hæsta fossi Íslands, Glym þann 8. júlí. Lagt verður af stað úr Mörkinni í Reykjavík klukkan 16:00 ef veður verður gott ætla þær að stoppa á leiðinni og síga niður í einhver gil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert