Fóru í alvörutúristaferð um Dýrafjörð

Kristinn Guðmundsson sjónvarpskokkur kannar Dýrafjörð í nýjustu þáttaröð Soðs.
Kristinn Guðmundsson sjónvarpskokkur kannar Dýrafjörð í nýjustu þáttaröð Soðs. Ljósmynd/Soð

Sjónvarpskokkurinn og já-maðurinn Kristinn Guðmundsson heimsótti Dýrafjörð með kvikmyndatökumanninum Janusi Braga Jakobssyni síðastliðið sumar og haust. Í ferðinni tóku þeir upp nýjustu seríuna af kokkaþáttunum Soð en fyrsti þáttur seríunnar fór í loftið á Rúv í vikunni.

„Í fyrra heimtaði ég Janus Braga með mér í ferð um Reykjanesið sem er heimasvæðið mitt og vildi endilega sýna hvað Reykjanesið hefur upp á að bjóða, okkur þótti sú ferð alveg æðisleg en í þessari nýjustu ferð fórum við á heldur meiri jafningjagrundvelli, við vorum báðir túristar,“ segir Kristinn í viðtali við mbl.is. 

„Þessi fjörður hitti alveg beint í hjartastað, hann er alveg yndislegur í alla staði. Svo er fólkið sem byggir hann alveg mjög skemmtilegt og forvitið, sem er mikill mannkostur að mínu mati,“ segir Kristinn.

Kristinn er snillingur í að gera gott úr fáránlegum aðstæðum.
Kristinn er snillingur í að gera gott úr fáránlegum aðstæðum. Ljósmynd/Soð

Að sögn Kristins var þetta alvörutúristaferð þar sem þeir voru hvorugir kunnugir staðháttum. „Það var heljarinnar fjör að fara báðir sem túristar, við villtumst (eða ég held að það hafi bara verið ég og ég ekki viljað hlusta á Janus) það var flautað á Dusterinn okkar því að við vorum lagðir út á miðjum veginum, það sprakk einnig dekk, þannig að við fengum bara allan túristapakkann beint í fangið sem var heljarinnar stuð og kemur vonandi út sem einlægur ferðaþáttur þar sem „próduktíonin“ fái að mæta afgangi en gleðin og klaufaskapurinn fái aðeins að njóta sín,“ segir Kristinn. 

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn sem þið heimsóttuð í þessari ferð?

„Úff, það er nú erfitt að segja... en að öllu öðru ólöstuðu þá væri það líklegast hjá bóndahjónunum Öllu og Sighvati, það var svo hrikalega gaman að spjalla við þau og svo gáfu þau mér svo yndislega gott hráefni.“

Hvar var besta hráefnið að finna?

„Nú, hjá Öllu og Sighvati.“

Dýrafjörður heillaði Kristin og Janus upp úr skónum.
Dýrafjörður heillaði Kristin og Janus upp úr skónum. Ljósmynd/Soð

Hvaða undirstöðuhráefni á fólk alltaf að vera með sér á ferðalögum?

„Ekkert eitt hráefni, en það á ekkert að slá slöku við í eldhúsinu þó að aðstæðurnar séu fáránlegar, fáránlegar aðstæður gera akkúrat matinn miklu miklu betri.“

Hver er lykillinn að góðri útilegumáltíð?

„Það er útsýnið sem maturinn er borðaður við.“

Ætlar þú að ferðast eitthvað meira í sumar?

„Ég er víst fastur í vinnu austur á Hornafirði og ætli ég láti það ferðalag ekki bara duga sumarið, enda orðinn brúnn og alsæll eftir að hafa verið að vinna úti í allt sumar.“

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Ég hef lengi sagt Þórsmörk og þá Básar í Þórsmörk, ég á svo margar yndislega fallegar minningar þaðan. Eitt skipti fór ég þangað í grenjandi rigningu og það er líklegast eftirminnilegasta ferðin mín þangað, það voru svo fáir, ég fór bara einn og gisti með skálavörðunum og svo hlustaði maður bara á regnið dynja á laufunum og þakinu á skálanum... og lyktin, unaðsleg!“

Allar fyrri þáttaraðir Soðs má finna á vefnum Soð.is.

Allar fyrri þáttaraðir af Soði má finna á vef þáttanna.
Allar fyrri þáttaraðir af Soði má finna á vef þáttanna. Ljósmynd/Soð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert