Skyldustopp á Suðurlandi

Á meðan það er ekki enn allt krökkt af ferðamönnum er tilvalið að nýta tímann og upplifa Seljalandsfoss og Skógafoss. Seljalandsfoss er um 60 metra hár og á upptök sín í Eyjafjallajökli. Það er einfalt að komast á bak við fossinn og er sú leið öllum fær og býður upp á frábært útsýni og upplifun. Ef þú átt leið um á sumarkvöldi, um klukkan tíu eða ellefu, er tilvalið að taka með myndavél, rölta á bak við fossinn og mynda sólina í gegnum fossinn.

Skógafoss er austar, nær Vík, og á einnig upptök sín í Eyjafjallajökli og er vatnsmeiri og tignarlegri en Seljalandsfoss. Hæð hans er um 60 metrar og er hann um 25 metra breiður þar sem hann fellur niður í hylinn. Mælt er með að ganga upp tröppurnar austan megin við fossinn til að upplifa hann sem best.

Það eru fleiri perlur á þessu svæði eins og Nauthúsagil rétt hjá Seljalandsfossi og Kvernufoss sem er í göngufæri frá Skógafossi en betur verður fjallað um þessa staði síðar.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert