„Það er töluvert striplast“

Hornstrandir eru friðland frá massatúrismanum og því er hægt að …
Hornstrandir eru friðland frá massatúrismanum og því er hægt að valsa um þar frjáls.

Í rúman áratug hafa þrír æskuvinir á miðjum aldri lagt í ferðalag á Hornstrandir á ári hverju og sér ekki fyrir endann á þeim ferðum. 

Aðgerða- og undirbúningsplanið hjá þeim ferðalöngum er orðið vel smurt enda hlýtur undirbúningur slíkrar ferðar að verða auðveldari með ári hverju líkt og annað sem er endurtekið reglulega. Umræddir félagar eru þeir Stefán Jónsson, leikari og leiðsögumaður, Óskar Jónasson leikstjóri og Hrafnkell Sigurðsson myndlistarmaður. Allt skapandi menn sem kunna að hugsa í lausnum og jafnvel langt út fyrir rammann, hvort sem er á Hornströndum, í höfuðborginni eða annars staðar á hnettinum.

„Það verður að segjast eins og er, við erum ægilega gott kombó, eins ólíkir og við erum. Gamlir og traustir vinir sem ánetjuðust hinum ómótstæðilegu Hornströndum fyrir lífstíð,“ segir Stefán í spjalli við blaðamann og bætir við að þeir reyni yfirleitt að ná viku í göngu um Hornstrandir en að stundum hafi þeir verið lengur.

Haframjölið vigtað fyrir hvern dag

Flest þau sem ferðast mikið innanlands hafa þegar sótt Hornstrandir heim og fyrir þau sem ekki hafa komið sér þangað eru Hornstrandir ofarlega á listanum yfir þá staði sem þau langar að skoða. Margir veigra sér þó við þessu enda ekki um neinn spásserístúr að ræða heldur hörkuprógramm sem krefst mikils undirbúnings og úthalds.

„Þar sem við berum allt á bakinu og gistum í tjöldum, eru það töluverð vísindi að pakka fyrir ferðirnar,“ segir Stefán. „Bara það nauðsynlegasta en þó allt sem þarf á landsvæði fjarri mannabyggðum þar sem allra veðra er von,“ segir hann og útskýrir að maturinn sem tekinn er með í svona langferð lúti sömu lögmálum og farangurinn allur í heild. Allt þurfi að vera sem léttast. „Haframjölið hefur til að mynda verið vigtað fyrir hvern dag og svo framvegis. Það er pasta í pökkum og súpur, hrökkbrauð, smjör og ostur, lifrapylsukeppur, harðfiskur og svo auðvitað nóg af göngusnakki, hnetum, rúsínum og dökku súkkulaði,“ segir hann og bætir við að yfirleitt taki hann líka með veiðistöng. „Það er rennt fyrir fisk ef svo ber undir, sem er frábær viðbót við kostinn, sem og sveppir og grös sem við rekumst á en vatnið fáum við úr lækjum. Við leyfum okkur þann munað að taka espresso-könnu með, gott morgunkaffi er nauðsynlegt. Svo komum við hver öðrum á óvart með einhverju vel völdu nammi á kvöldin. Óvænt bragð er unaður í óbyggðum. Við sendum líka oft kassa með bát sem bíður okkar, til dæmis í Hornvík. Þá er veisla,“ segir hann.

Félagarnir gera mikið af því að vera þeir sjálfir í …
Félagarnir gera mikið af því að vera þeir sjálfir í þessum ferðum.

Fara nýja leið á hverju ári

Spurður að því hvernig þeir hefji ferðalagið segir Stefán að oftast láti þeir ferja sig með bát yfir á Hornstrandir og að sami ferðamáti sé notaður á heimleiðinni. „Það er byggt á því hvaðan við leggjum upp og síðan hvar við lendum á síðasta degi. Við förum sumsé nýja leið ár hvert enda bjóða Hornstrandir upp á ótal möguleika.“

Flestir vita að ferðalög og útivera í óbyggðum Íslands geta orðið mikið ævintýri. Hversdagsleikinn og áreitið sem fylgir því að vera í þéttbýli gufar gersamlega upp þegar ósnortin náttúran umlykur andann, og hefur hann jafnvel upp í önnur og æðri vitundarstig ef þannig liggur á henni.

„Tíminn leysist upp á Hornströndum, við lifum í punktinum, hápunktinum, meðan á ferðinni stendur. Það er mikil gleði og grín þó svo að ferðalagið geti vissulega verið kröfuhart og oft á brattann að sækja. Það er töluvert striplast og við köstum okkur allsberir í sjóinn þegar veðrið býður upp á það og syndum þá jafnvel með selum. Hornstrandir eru stórkostlegt sköpunarverk, sem veitir okkur innblástur til að skapa okkar eigin listaverk úr því sem rekur á fjörur okkar. Við verjum stundum miklum tíma í að setja þau saman og festa á filmu út frá einhverri hugmynd sem þróast á leiðinni. Þar bætum við hver annan upp með okkar ólíka bakgrunn í mynd- og sviðslistum,“ segir Stefán en eins og dæma má af myndunum virðist listamönnunum ekki leiðast í eina sekúndu meðan á ferðinni stendur.

Hornstrandir eru stórkostlegt sköpunarverk sem veitir innblástur til að skapa …
Hornstrandir eru stórkostlegt sköpunarverk sem veitir innblástur til að skapa sín eigin listaverk.

Hornstrandir enn friðland frá massatúrisma

Meðan náttúra landsins á það til að hefja andann upp í æðri víddir þá getur hún líka verið hundleiðinleg og hálfpartinn gert út af við mann. Þetta þekkjum við flest og auðvitað hafa þeir Stefán, Hrafnkell og Óskar orðið fyrir barðinu á veðurguðum og -gyðjum fyrir vestan.

„Við höfum orðið holdvotir, verið við það að villast í þoku á heiðum og dottið í á en við reynum samt að fara varlega og setja öryggið á oddinn. Þannig hefur allt blessast hingað til,“ segir hann og bætir við að sjaldnast rekist þeir á annað fólk á þessu flandri.

„Það gerist annað slagið að við rekumst á aðra ferðalanga... og refi náttúrulega. Það er helst að við hittum annað fólk í víkum þar sem eru skálar eða bæir þar sem afkomendur fyrrverandi ábúenda halda til á sumrin. Hornstrandir eru líka ennþá friðland frá massatúrismanum og Vestfirðir ekki hluti af hringveginum, sem hefur sín áhrif á fjöldann sem sækir þennan landshluta heim.“

Stefán og vinir hans hika ekki við að lauga sig …
Stefán og vinir hans hika ekki við að lauga sig án fata á Hornströndum.

Þrenningin heilög og því fær enginn að koma með

Segja má að gönguferð um Hornstrandir sé einhvers konar „survivor“-ferð og þá er auðvitað mikilvægt að klikka ekki á neinu. „Við erum með göngustafi, góð kort og auðvitað dót til að bregðast við minniháttar meiðslum, plástra og sjúkrabindi og svo framvegis og við sofum í tjöldum nema þegar blíðan er slík að maður verður hreinlega að sofa úti undir berum himni en það getur alveg komið fyrir,“ segir hann og bætir við að þeir kappar hafi líka ferðast saman annars staðar um landið, til að mynda um Austur- og Norðurland en að oftar en ekki togi Hornstrandir þá til sín með sínu mikla afli, og talandi um aðdráttarafl: „Myndirnar úr ferðum okkar hafa vakið mikla lukku á samfélagsmiðlum og margir hafa falast eftir því að fá að koma með okkur en ég er ansi hræddur um að þrenningin sé háheilög,“ segir ferðalangurinn og leikarinn Stefán Jónsson að lokum.

Segja má að gönguferð um Hornstrandir sé einskonar „survivor“-ferð.
Segja má að gönguferð um Hornstrandir sé einskonar „survivor“-ferð.
Appelsínutennur eru alltaf jafnhlægilegar.
Appelsínutennur eru alltaf jafnhlægilegar.
Íslensk blóm gera mikið fyrir útlitið.
Íslensk blóm gera mikið fyrir útlitið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert