Það er orðinn fastur liður hjá okkur vinahópnum að heimsækja íslenska hjólabæinn, betur þekktan sem Iceland Bike Farm, yfir sumartímann.
Bærinn, sem heitir Mörtunga og er staðsettur rétt austan við Kirkjubæjarklaustur, er í eigu hjónanna Guðmundar Fannar Markússonar og Rannveigar Ólafsdóttur en þar er aðallega stundaður hjólabúskapur í dag.
Mikil aukning hefur orðið í fjölda heimsókna á bæinn á undanförnum árum en árið 2018, á fyrsta starfsárinu, komu 300 gestir, árið 2019 voru þeir 400 og í fyrra tóku þau á móti 600 gestum. Í ár stefnir í að gestirnir verði í kringum 900 talsins og uppgangurinn því mikill.
Það má með sanni segja að íslenski hjólabærinn sé hin fullkomna fjallahjólaparadís en slóðarnir sem hjólað er eftir eru gerðir nær eingöngu af sauðfé.
Undirlagið er afar mjúkt í bland við bæði brattar og aflíðandi brekkur og því skiptir litlu máli hvort maður er vanur fjallahjólari eða óvanur.
Skemmtilegasti slóðinn, og jafnframt sá lengsti, er rúmlega 21 kílómetra langur með rúmlega 600 metra hækkun þar sem byrjað er við Fagrafoss fyrir ofan Klaustur.
Þaðan liggur slóðinn með fram Lakavegi áður en komið er upp á heiðina fyrir ofan veginn þar sem haldið er í átt að Mörtungu með tilheyrandi gleði og bruni.
Fyrstu helgina í júlí gerðum við okkur ferð á hjólabæinn í þriðja sinn og þar sem við vorum að koma í þriðja sinn tókum við einn dag í að skoða landið betur.
Það getur nefnilega tekið á að hjóla og við nýttum tímann líka í að ganga niður að Hagafossi, með tilheyrandi gljúfurgöngu, lækjarvaði og nestispásu fyrir framan fossinn sem er afar fallegur.
Kvöldin voru líka vel nýtt í varðeld, dans og almenna gleði, en allt í góðu hófi enda mikilvægt að vera með vel hlaðin batterí fyrir hjólaátök helgarinnar.
Smelltu hér til að fylgja mér á Instagram.
Þegar hjólað er á hálendi Íslands er afar mikilvægt að hjóla alls ekki utan merktra leiða eða stíga og muna að bera alltaf virðingu fyrir landinu.