Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri hjá Löxum fiskeldi ehf., býr á Eskifirði. Hann þekkir Austfirði eins og lófann á sjálfum sér og líður hvergi betur en innan um fjöllin háu og firðina sem eru fullir af ævintýrum.
Ef þú værir að skipuleggja ferð um Austfirði núna. Hvert myndir þú fara?
„Ég myndi byrja á að taka skoðunartúr upp að Kárahnjúkavirkjun og í Laugavallalaug. Því næst yrði ferðinni haldið í Laugarfell og þaðan gengið niður að Óbyggðasetri í Fljótsdal. Þetta er ótrúlega falleg gönguferð með hverri fossaröðinni af fætur annarri í Jökulsá í Fljótsdal. Daginn eftir yrði gengið í Stórurð og þaðan keyrt á Eskifjörð. Dagana á eftir myndi ég nota til að fara um Gerpissvæðið, það er að segja í Viðfjörð, Barðsnes, Sandvík og Vöðlavík. Þar er endalaust af stórbrotinni náttúru, skemmtilegum og fallegum gönguleiðum sem eru umvafðar tignarlegum fjallahring og útsýni,“ segir Jens Garðar.
Hver er þinn uppáhaldsstaður?
„Minn uppáhaldsstaður er að ganga upp með hlíðinni fyrir ofan Eskifjörð. Fæ aldrei nóg af fjallasýninni, kyrrðinni og fossunum sem eru allt um leikandi. Ég nýt þess líka að ganga út með ströndinni í norðanverðum Reyðarfirðinum, það er að segja úti hjá Karlsskála og út að Krossanesi. Það er eitthvað annað, einhver önnur orka, við að vera úti á annesjum.“
Hvar myndir þú gista?
„Óbyggðasetrið í Fljótsdal er alveg einstakt en fyrir þá sem vilja vera miðsvæðis á fjörðunum og taka dagstúra um svæðið þá er Mjóeyri á Eskifirði fyrsti valkostur. Að vera á Mjóeyrinni og hlusta á brimið í heita pottinum er alveg einstakt. Húsin á Mjóeyri eru alveg frábær, með útsýni út og inn fjörðinn og gestgjafarnir eins og þeir verða bestir.“
Hvað er það við þetta landsvæði sem heillar þig mest?
„Firðirnir og fjöllin. Að vakna á hverjum morgni og horfa á Hólmatindinn og fylgjast með skipunum er fyrir mér bæði jóga- og núvitundarnámskeið á hverjum morgni.“
Áttu einhvern uppáhaldsveitingastað á þessu svæði?
„Við eigum marga góða veitingastaði hér fyrir austan en minn uppáhalds er Randulffssjóhús á Eskifirði. Nýveiddur fiskur, lax úr firðinum og villibráð. Getur ekki verið betra – má segja hið austfirska „surf and turf“.“
Hver er þín uppáhaldsgönguleið?
„Mín uppáhaldsgönguleið er að ganga frá Karlsskála í norðanverðum Reyðarfirði, fyrir Krossanesið og inn í Vöðlavík. Ef tími gefst þá er hægt að ganga upp í Valahjalla í leiðinni og skoða flak af gamalli herflugvél sem fórst þarna í Valahjallanum í seinna stríði. Enda göngutúrinn á að ganga ströndina í Vöðlavíkinni og gista svo í göngufélagsskálanum að Karlsstöðum í Vöðlavík.“
Hvað er ómissandi að skoða á Austfjörðum?
„Nú er Stuðlagil nýjasta æðið – en Austfirðir eru endalaus uppspretta af fallegum stöðum. Fólk þarf bara að gefa sér tíma og fara hægt yfir. Austfirðir í heild eru ómissandi upplifun.“
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Eitthvað verður nú flugunni kastað í sumar en mig langar, ef tími gefst, að fara á Vestfirði. Fallegir staðir og yndislegt fólk fyrir vestan. Við vinirnir eigum sæþotur og ætla ég að reyna að vera duglegur að nota kvöldstillurnar í sumar og fara út á fjörð. Eins og má kannski lesa út úr þessu öllu saman þá líður mér best í fallegum firði, umkringdur fjallahring.“
Hvert er besta frí sem þú hefur farið í?
„Sigling um Scoresby-sund, með skútunni Hildi, í átta daga og þar af þriggja daga gönguferð um Stauning-alpana með Vilborgu Örnu. Erfið ferð en geggjuð í alla staði. Svo var auka plús að það var ekkert símasamband. Allir voru í núinu, enginn að skoða tölvupósta, lesa fréttir eða skoða fótboltasíður og svo framvegis. Mættum gera meira af því að leggja símana frá okkur og þar er undirritaður engin undantekning,“ segir hann.