Húsvíkingurinn Örlygur Hnefill Örlygsson segir að Eurovision-safnið á Húsavík verði opnað fyrr en varir en stefnt er að því að halda opnunarhátíð safnsins í ágúst.
Verður þar meðal annars boðið upp á karíókí en safnið verður staðsett við hliðina á Ja Ja-Ding Dong-barnum í bænum en Örlygur er maðurinn á bak við bæði barinn og safnið.
Hann ræddi við Síðdegisþáttinn, sem sendur var út í beinni frá Húsavík á föstudag, um Eurovision-stemmningu í bænum eftir að myndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga kom út á Netflix síðasta sumar.
Sagði hann að planið hefði verið að halda stóra opnun og að fá stjörnur úr Eurovision-myndinni til að koma á opnunina en nú er ljóst að aðstæður í samfélaginu standi að öllum líkindum í vegi fyrir því.
„[Ef] við getum ekki opnað með pompi og prakt þá held ég að við opnum bara samt og svo höldum við stóru opnunina þegar aðstæður leyfa,“ sagði Örlygur.
„Þá bara náum við að toga þetta ævintýri lengra. Óskarinn gerði það að verkum að við náðum að fleyta þessu á annað ár. Þetta hefur skipt svo miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og líka fyrir andann í samfélaginu. Að fá svona gleðisprengju og glimmersprengju yfir allan bæinn,“ sagði hann.
Örlygur segir að fyrrnefnd kvikmynd hafi haft rosalega mikla vigt fyrir Húsavík.
„Það komu margir Íslendingar til Húsavíkur út af myndinni. Nú sjáum við útlendinga sem voru að fara til Íslands en koma til Húsavíkur út af þessari mynd.
Þetta hefur áhrif á einhverja sem koma til landsins en kannski það sem skiptir meira máli fyrir okkur er að það eru margir með áhuga á landinu og horfa á myndina og hugsa: Ég fer þangað líka,“ sagði Örlygur
Hlustaðu á viðtal Sigga og Loga við Örlyg í spilaranum hér að neðan.