Leikkonurnar Emma Watson, sem þekktust er fyrir að fara með hlutverk Hermione Granger í Harry Potter-kvikmyndunum, og Michelle Yeoh, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í Bond-kvikmyndinni Tomorrow Never Dies og Crazy Rich Asians, eru hér á Íslandi. Þær eru þó ekki saman hér á landinu.
Watson hefur sést víða í Reykjavík undanfarna tvo daga. Þá sást hún á veitingastaðnum Apótekinu á miðvikudagskvöld og í gær sást hún aftur niðri í miðbæ. Þá hafa ýmsir sem hafa orðið varir við Watson greint frá því á samfélagsmiðlum.
Afgreiddi Emmu Watson í dag 😭😍
— Birta Guðmundsdóttir (@BirtaGudmundss) July 29, 2021
Yeoh er stödd hér á landi við tökur á netflixþáttunum Witcher: Blood Original en þær hófust í gær. Tökulið tengt því, leikstjórar og leikarar eru því komnir til landsins. Yeoh hefur nýtt tíma sinn á landinu vel.
Hún hefur farið í Bláa lónið, skoðað Geysi, farið til Vestmannaeyja og í hvalaskoðun. Af færslum hennar á Instagram virðist hún heilluð af landinu.
Höfundur Witcher: Blood Original, Declan de Barra, er einnig hér á landinu og hefur birt fjölda mynda á instagramreikningi sínum. Hann virðist sömuleiðis hrifinn af Íslandi.