Lentu fyrir tilviljun á Siglufirði

Jimmy Wallster, Sólrún Guðjónsdóttir, Halldóra Guðjónsdóttir og Bjarni Rúnar Bequette …
Jimmy Wallster, Sólrún Guðjónsdóttir, Halldóra Guðjónsdóttir og Bjarni Rúnar Bequette reka þrjá veitingastaði á sömu þúfunni á Siglufirði og láta vel af.

Hjónin Halldóra Guðjónsdóttir og Bjarni Rúnar Bequette tóku við þremur veitingastöðum á Siglufirði snemma árs 2018. Siglufjarðarlífið kom óvænt upp í hendurnar á þeim eftir að þau höfðu selt íbúð sína í Reykjavík og ákveðið að hefja eigin rekstur. 

„Þá heyrði maður að nafni Róbert Guðfinnsson af ákvörðun okkar. Hann hringir í Bjarna og biður hann að fresta öllum ákvörðunum og í það minnsta koma og skoða hvað hann hefði upp á að bjóða hér fyrir norðan. Eins og Róbert sagði þá yrði það í það minnsta góð helgarferð. Við tókum því boði og lögðum af stað samdægurs á fimmtudegi,“ segir Halldóra í viðtali við mbl.is. 

Róbert á staðina þrjá sem um ræðir, Hannes Boy, Kaffi Rauðku og Sunnu á Sigló hóteli, en hann hefur stuðlað að mikilli grósku á Siglufirði undanfarin ár. 

Halldóru og Bjarna leist gríðarlega vel á boð Róberts um að taka við stöðunum og fengu þau vinahjón sín, þau Sólrúnu Guðjónsdóttur og Jimmy Wallster, til liðs við sig. Öll fjögur hafa þau mikla reynslu úr veitinga- og hótelgeiranum. Halldóra er menntaður framleiðslumaður og hefur starfað sem hótelstjóri. Bjarni hefur starfað sem yfirkokkur í 15 þar og þar af níu ár á Fosshótelum um land allt.

Sólrún hefur unnið á aðalskrifstofu Fosshótela og starfað í hótelgeiranum í mörg ár. Jimmy er frá Svíþjóð og er þjónn að mennt. Hann kom til Íslands árið 2007 og hefur síðan þá komið að rekstri fjölda hótela.

Bjarni og Halldóra heilluðust af Siglufirði á einum degi og …
Bjarni og Halldóra heilluðust af Siglufirði á einum degi og slógu til.

Vetrarparadís og yndisleg sumur

Fyrst þegar Halldóra og Bjarni stungu upp á því við Sólrúnu og Jimmy að flytja á Siglufjörð sögðust þau aldrei ætla að gera það. „Nokkrum vikum seinna koma þau til að skoða og áður en þau ná að keyra út úr bænum þá voru þau staðráðin í því að vera með í þessu ævintýri,“ segir Halldóra. 

Halldóra, Bjarni og Sólrún voru ekki ókunnug smábæjarlífinu en Halldóra er úr Borgarfirði, Bjarni frá Grindavík og Sólrún Tálknafirði. Jimmy er hins vegar frá Stokkhólmi en líkar lífið á Siglufirði. Halldóra segir þó mikla tilbreytingu að flytja til Siglufjarðar. 

Jimmy ætlaði aldrei að taka þátt í ævintýrinu en eftir …
Jimmy ætlaði aldrei að taka þátt í ævintýrinu en eftir heimsókn til Siglufjarðar ákváðu hann og Sólrún að vera með.

„Við höfum aldrei, og ég meina aldrei, kynnst eins miklum snjó og hérna. Þvílík vetrarparadís en almáttugur ég hef ekki tölu yfir það hvað við erum búin að festa okkur oft eða þá að við séum föst heima því það eru margra metra háir skaflar í innkeyrslunni hjá okkur! Það var ekki laust við smá innilokunarkennd svona yfir veturinn þegar allt var lokað dag eftir dag. En inn á milli er þetta dásamlega logn sem einkennir Siglufjörð. Sumrin eru dásamleg á Siglufirði, mikið logn og heitt langt fram eftir kvöldi,“ segir Halldóra. 

Þegar þau fluttu frá Reykjavík seldu þau 90 fermetra blokkaríbúð og keyptu sér 250 fermetra raðhús með palli. „Það er hægt að fá aðeins meira fyrir peningana þegar maður fer aðeins út fyrir Reykjavíkursvæðið. Það er líka stutt í allt og það er gaman að þegar maður fer út að leika með krökkunum hittir maður alltaf einhvern sem maður þekkir. Það var þó mikil áskorun að flytja lengst út á land í bæ þar sem við þekktum engan. Með tvö lítil börn var svolítið erfitt að flytja frá ömmunum, en við vorum ákveðin í því að láta þennan draum okkar rætast að reka okkar eigin veitingastað,“ segja Halldóra og Bjarni. 

Mest er að gera á sumrin á Siglufirði þótt alltaf lengist vertíðin með hverju árinu. „Það er virkilega mikið að gera hjá okkur núna en við reynum að ná nokkrum frídögum hér og þar.
Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera hérna í nágrenninu, við reynum að fara í stuttar ferðir með krakkana, það þarf ekki að fara langt,“ segir Halldóra. 

„Við erum dugleg að fara í gönguferð í skógræktina með nesti og mælum klárlega með því fyrir fólk sem er á ferð um svæðið, það er stutt að kíkja í dýragarðinn á Brúnastöðum, fara í pottana og vaða í sjónum á Hauganesi. Svo er hægt að fara í bruggtúr hjá Segli, það er hægt að fara á kajak hérna, svo er hægt að fara á jet sky inni á Ólafsfirði.“

Sigló Hótel á Siglufirði. Þar reka þau hjónin veitingastaðinn Sunnu …
Sigló Hótel á Siglufirði. Þar reka þau hjónin veitingastaðinn Sunnu sem er krúnudjásnið.

Þrír veitingastaðir á sömu þúfunni

Allir veitingastaðirnir sem hjónin reka hafa sína sérstöðu, enda ekki annað hægt þar sem þeir eru allir „á sömu þúfunni“ eins og Halldóra kemst að orði. „Á Kaffi Rauðku erum við með gómsætar eldbakaðar pítsur, Siglufjörður er höfðuborg lognsins og það er dámsamlegt að sitja úti og gæða sér á eldbakaðri pítsu og svellköldum bjór frá Segli 67 eða góðu lífrænu víni frá Alsace,“ segir Halldóra. 

Á Hannes Boy hafa þau farið í nýja átt á hverju sumri. Í sumar er staðurinn vegan-delí-staður og vona þau að núverandi mynd sé komin til að vera. „Þó svo að við séum ekki vegan sjálf höfum við mikinn áhuga á vegan matargerð og höfum tekið eftir því að það er ekki mikið í boði fyrir þennan hóp á Norðurlandi, sem fer sífellt stækkandi.“

Veitingastaðurinn Sunna á Sigló hóteli er krúnudjásnið og þangað kemur fólk með miklar væntingar. Hann er eini veitingastaðurinn þeirra sem er opinn allt árið um kring og vinna þau sjálf á gólfinu þar. Helgarnar eru oft uppbókaðar yfir veturinn þegar skíðagöngunámskeið eru haldin. Á sumrin komast færri að en vilja. Þau hafa haft þann háttinn á að laga matseðilinn að árstíðunum.

Bjarni, Halldóra, Jimmy og Sólrún reka Sunnu, Hannes Boy og …
Bjarni, Halldóra, Jimmy og Sólrún reka Sunnu, Hannes Boy og Kaffi Rauðku á Siglufirði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert